Enn ein tölvuárásin var gerð hér á landi og nú var það Háskólinn í Reykjavík sem varð fyrir barðinu á tölvuþrjótum. Árás var gerð á póstþjón HR og skrár voru dulkóðaðar. Skólinn sendi frá sér tilkynningu þar sem segir að svo virðist sem um einangraða árás á einn póstþjón hafi verið að ræða, sem valdið hafi takmörkuðum skaða.
Fram kemur að á póstþjóninum hafi verið skilið eftir orðsending þar sem þess er krafist að HR greiði 10.000 dollara lausnargjald eða sem nemur um 1,3 milljónum króna; annars verði tölvupóstar starfsmanna gerðir opinberir og gefinn var 14 daga frestur til að greiða lausnargjaldið.
„Hvort tveggja er mjög óvenjulegt sem kann að benda til að ekki sé um vel skipulagða árás að ræða. Afstaða HR er skýr um að háskólinn mun ekki láta undan fjárkúgun og er sú afstaða í samræmi við leiðbeiningar lögreglu til þeirra sem verða fyrir tölvuglæpum.“
Enn sem komið er eru engar vísbendingar um að önnur kerfi háskólans hafi orðið fyrir áhrifum af tölvuárásinni.
Líklegast er að tölvuþrjótarnir hafi nýtt sér veikleika í póstþjóninum hjá HR og komist þannig inn.
Ragnhildur Helgadóttir er rektor Háskólans í Reykjavík, og hún segir slæmt að verða fyrir svona árás, en þær séu algengari en margir geri sér grein fyrir.
„Við erum að vinna með færustu sérfræðingum landsins á sviði tölvuglæpa og er sagt af þeim að almennt séu tölvuöryggismál HR í góðu lagi, þó það hafi ekki dugað til að koma í veg fyrir árás í þessu tilviki.“