Þriðjudagur 19. mars, 2024
0.8 C
Reykjavik

Tómas skurðlæknir er sannur bjargvættur: „Skurðlæknirinn er hljómsveitarstjórinn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tómas Guðbjartson, lækni og prófessor, þekkja flestir. Oft er hann kallaður Lækna-Tómas en hann hefur verið talsvert í sviðsljósinu síðustu ár og ekki bara vegna hetjudáða sinna í vinnu sinni, heldur einnig þegar umræðuefnið er náttúra Íslands og verndun þess. Blaðamaður Mannlífs sló á þráðinn en Tómas er mjög upptekinn maður eins og gefur að skilja, og talaði við Tómas um starfið, skotmanninn á Egilsstöðum sem hann bjargaði, óvænta lífsbjörg í íshelli, ást hans á náttúru Íslands og sitthvað fleira.

„Þetta er mikil álagsvinna og sérnámið langt,“ segir Tómas, aðspurður um starfið sem hjartaskurðlæknir og áskoranirnar tengdar því.

„Þetta er 6 ára læknanám, og svo kandidats ár og síðan 5 ár í almennum skurðlækningum og svo 3 ár í hjarta og lungnaskurðlækningum, þannig að þetta er langt nám.“

Þá segir Tómas að partur af náminu sé þjálfun í að geta unnið undir miklu álagi enda mjög mikilvægt að halda ró sinni í nánast daglegum hjartaskurðaðgerðum. „Þá veljast menn í þetta starf sem líður vel í svona aðstæðum.“

Tómas segist eiga auðvelt með að einbeita sér og halda ró sinni en þetta sé ekki sérgrein sem henti öllum. Þeir læknar sem fara í þetta sérnám fá reynslu af erfiðum áverkum í stórum borgum úti í heimi og er það reynsla sem nýtist mjög vel. Það sem er mikilvægast fyrir hverja aðgerð segir Tómas vera það að undirbúa sig vel, að hafa plan B ef eitthvað óvænt kemur upp á í skurðaðgerðinni. Þá sé einnig mikilvægt að halda teyminu rólegu með því „vera ekki að öska þó stressið sé mikið.“

Tómas í uppskurði.
Ljósmynd: Gunnar Svanberg

Hætt kominn skotmaður

- Auglýsing -

Nýlega bjargaði Tómas lífi manns sem særðist í skotárás við lögreglu en hann fékk skot í brjóstholið. Tómas sagði frá aðgerðinni í sjónvarpsviðtali nýverið eftir að hafa fengið leyfir frá skotmanninum sjálfum og aðstandendum hans. Maðurinn var ansi hætt kominn.

„Hann var orðinn mjög lágur í blóðþrýsingi og búinn að tapa miklu blóði en með neyðarblóði og adrenalíni var hægt að halda uppi blóðþrýstingnum og koma honum lifandi að austan og hingað suður í bæinn.“

Tómas vill endilega koma á framfæri miklu hrósi til þeirra sem komu að málinu fyrir austan. Meðal þeirra var gamall nemdandi hans, ungur læknir.

- Auglýsing -

„Hún hringdi strax og fékk ráð. Hún pantaði neyðarblóð frá sjúkrahúsinu í Neskaupsstað og pantaði flugvél frá Akureyri. Sú tvíþekja er miklu hraðari en þyrla, það hefði tekið miklu lengri tíma að hringja eftir þyrlu og jafnvel þurfa að stoppa á leiðinni til að taka bensín. Ég vil bara sérstaklega hæla fólkinu á Egilsstöðum fyrir hárrétt viðbrögð og viðbrögð þeirra á Akureyri var einnig til fyrirmyndar.“

Þegar flugvélin lenti á Reykjavíkurflugvelli tók neyðarteymi á móti sjúklingnum og ákveðið var að fara beint með hann í hjartaskurðdeildina.

„Við ákváðum það, en ekki bráðamóttökuna eða í myndrannsóknir, til að flýta fyrir og reyndist það mikið heillaspor.“

Tómas segir að þetta sé ekki bara skurðlæknirinn sem geri allt. „Skurðlæknirinn er hljómsveitarstjórinn sem þarf að sjá til þess að allir spili í takt. Þetta er rosalega stórt teymi sem kemur að svona, bæði á vettvangi og þegar hingað á Landspítalann er komið.“

Tómas heldur áfram og segir að maðurinn hafi komið inn á mjög slæmum tíma.

„Það voru Covid sjúklingar á gjörgæslunni og fullt upp í rjáfur. Allir hjálpuðust að og búið var til pláss. Einhvernveginn gekk allt upp, öll skref sem við tókum skiluðu okkur áfram, allan tímann. Við lentum aldrei í alvarlegu bakslagi.“

Aðspurður segir Tómas að skotmaðurinn muni ná sér að mestu en þetta hafi verið stór aðgerð en tekist hafi að bjargar stærstum hluta lungans.

„Það bendir allt til þess að hann muni geta náð mjög góðri líkamlegri heilsu.“

Tómas gerði á þessum tímapunkti hlé á samtalinu þar sem hann þurfti að fara í stutta skurðaðgerð. Eftir aðgerðina hélt viðtalið áfram.

„Hann náði alveg undraverðum bata, miðað við alvarleika áverkans og hversu umfangsmikil aðgerðin var. Það eru auðvitað góðar fréttir fyrir ekki bara hann og hans fjölskyldu heldur einnig lögreglumanninn sem lenti í þeim erfiðu aðstæðum að þurfa að hleypa af skoti á manninn“.

Bjargaði frönskum ferðamanni við Íshelli

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Tómas sinnir útkalli vegna líkamsárásar. Eins og frægt er orðið bjargaði hann Skúla Eggerti Sigurz lögmanni eftir hnífaárás árið 2012. „Það mál hefur þróast út í vináttu. Við höldum enn sambandi og mér þykir mjög vænt um það.“

Þá minnist Tómas einnig á björgun sem hann tók þátt í þegar hann var óharðnaður læknanemi, rétt um tvítugt en þá slösuðust tveir franski ferðamenn. Hér er brot úr kafla úr bókinni Fólk á fjöllum sem Ferðafélags Íslands gaf út. Þar segir hann frá slysinu.

„Mér er einnig minnisstætt þegar ég kom að göngumönnum sem höfðu lent í miklum háska í Kverkfjöllum. Þar voru á ferð fjórir verkfræðingar frá Renault-verksmiðjunum. Þeir höfðu farið í leyfisleysi inn í íshellinn sem þá var stór og mikilfenglegur. Það var gríðarlega mikið í Volgu sem kemur undan Kverkjökli. Skyndilega hrundi risablokk úr jöklinum yfir mönnunum eins og stöðugt gerist. Ég var nýlagður af stað í ferð með minn eigin hóp upp skriðjökulinn rétt ofan við íshellinn og við sáum þegar þetta gerðist. Þetta var eins og heilt einbýlishús hefði hrunið niður snarbratt stálið rétt hjá hópnum. Ísblokkinn tvístraðist og stór klumpur kastaðist yfir fót eins fjórmenninganna með þeim afleiðingum að hann hlaut opið beinbrot. En það var öllu alvarlegra að hann kastaðist út í ískalda ánna vegna flóðbylgjunnar sem varð við hrunið. Hópurinn minn var frá Austurríki. Ég var svo heppinn að tveir farþeganna voru þrautþjálfaðir skíðagöngu hermenn úr austurríska hernum. Þetta voru líklega vönustu fjallamenn sem ég hef nokkru sinni haft með mér í ferð. Það var því ótrúleg tilviljun að þeir skuli einmitt hafa verið með mér þennan afdrífaríka dag. Við hlupum samstundis niður jökulsporðinn og vorum komnir á slysstaðinn nokkrum mínútum síðar. Maðurinn var hálfur í ánni og við sáum strax að ástand hans var mjög alvarlegt. Við óðum þrír út ískalt vatnið sem náði okkur vel yfir mitti og náðum honum á þurrt. Í svona ísköldu vatni er hætta á ofkólnun og hjartað getur hæglega farið í lífshættulegar taktruflanir. Hermennirnir útbjuggu á örskömmum tíma sjúkrabörur úr göngustöfum og reipi sem ég hafði með mér. Ég bað strax um aðstoð þyrlu. Við bárum hann inn í rútu sem var þarna skammt undan og klæddum hann úr öllu og settum hann í þurr föt. Beinið stóð út úr fætinum og sandur og drulla í sárinu. Hann var mjög þjáður vegna beinbrotsins og ég gaf honum morfín sem var til í skálanum. Þyrlan gat ekki komið okkur til hjálpar vegna roks, en þetta var óvenju hlýr hnúkaþeyr sem stóð niður af jöklinum úr suðurátt. Þórhallur Þorsteinsson, fóstri Sigurðarskála, var staddur á Egilsstöðum og fylgdist vel með framvindunni. Okkur þótti afar slæmur kostur að fara með stórslasaðan manninn landleiðina til Akureyrar, enda ástand hans ekki gott og hætta á sýkingu í brotið. Ég gat verkjastillt manninn og hreinsað sárið en meira var ekki hægt að gera. Það varð úr að Þórhallur ákvað að freista þess að koma á flugvél sinni og ná í hinn slasaða. Þrátt fyrir stífan vind tóks Þórhalli að lenda á flugvellinum í Kverkfjöllum, sem er ekki er fyrir flughrædda, enda ekki sá sléttasti á hálendinu. Við komum sjúklingnum fyrir í vélinni. Ég varð að fara með sem læknir og hlúa að sjúklingnum á leiðinni. Við gátum komið sjúklingnum fyrir í farangursrýminu. Sjálfur sat ég í aðstoðarflugamannssætinu. Þegar við vorum að taka á loft sagði Þórhallur að þetta gæti orðið spennandi. Hann væri nýbúinn að skipta um mótor í vélinni sem væri tveggja manna. Hann tjáði mér jafnframt að hann hefði aldrei tekið á loft með vélina svona þunga frá því skipt var um mótorinn. Ég benti honum á það í léttum dúr við værum að reyna að bjarga einum manni en það mætti ekki leggja undir þrjú mannslíf. Þórhallur, sem er algjör nagli, gaf allt í botn og upp fór vélin þrátt fyrir okkur þrjá í vélinni. Stefnan var sett á Akureyri. Ferðin þangað gekk vel en ég man samt hvað það sterkur hliðarvindurinn tók í. Á flugvellinum beið sjúkrabíll. Á sjúkrahúsinu var byrjað á því að draga manninn í lið, stilla brotin saman. Svo fór hann í aðgerð. Hann náði sér fljótt og vel. Þrátt fyrir að sárið hafi verið skítugt slapp hann við alvarlega beinsýkingu.Eftir að maðurinn var hólpinn fórum við Þórhallur aftur í loftið. Hann ákvað að reyna að koma mér aftur í Kverkfjöll þar sem hópurinn minn beið í rólegheitum, en þar var næstum 20 stiga heitur hnjúkaþeyr. Sú flugferð var ekki síðra ævintýr. Þórhalli tókst á ótrúlegan hátt að finna gat á milli skýjanna til að koma flugvélinni niður. Hann skilaði mér í Sigurðarskála og hélt svo til Egilsstaða eftir gott dagsverk. Við Þórhallur urðum eftir þetta miklir mátar“.

„Við björgunaraðgerðirnar og allt umstangið eyðilögðust föt og göngustafir brottnuðu. Á þessum tíma var Albert Guðmundsson konsúll Frakklands á Íslandi en um leið iðnaðarráðherra. Ég hringdi í Albert og sagði að mér þætti skítt ef Þórhallur fengi ekki að minnsta kosti greitt bensínið fyrir björgunarafrek sitt. Þá hefðu nokkrir farþega minna orðið fyrir tjóni þegar föt og göngustafir skemmdust. Það þurfti ekki að fylla út neina beiðni. Albert hringdi umsvifalaust til Frakklands og tryggði að menn fengju greiddan kostnaðinn. Ég þekkti Albert ekkert á þessum tíma en dáðist að því hve fljótur hann var að bregðast við. Þetta tók örfáa daga. Við fengum einnig kveðjur og þakkir frá Renault-verksmiðjunum og aðstandendum mannanna. Það var ótrúleg heppni að við skyldum vera á svæðinu þegar þetta gerðist. Sem betur fer eru langflestar fjallaferðir án áfalla en það er gefandi að geta sem læknir orðið að liði þegar vandamál kom upp. Og ég held að að ferðafélögum mínum þyki ekki verra að vita af því að læknir sé með í för.

Vinnur að rannsókn á árangri aðgerða

„Ég hef verið að aðstoða Bergrósi Jóhannesdóttur, doktorsnema við að rannsaka árangur aðgerða á sjúklingum með áverka eftir hnífa og/eða byssukúlur. Sem betur fer er þetta ekki daglegt brauð á Íslandi eins og víða erlendis, sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem er hálfgerður faraldur hvað varðar skotárásir. Þar látast 40.000 manns á ári af völdum skotárása, hluti af þeim fellur fyrir eigin hendi. Í Suður Afríku og í London eru svo hnífaáverkar gríðarlega algengir. Við erum samt að sjá hnífaáverka hér á landi af og til,“ segir Tómas en bætir við að þó að slíkir áverkar séu sjaldgæfir hér sé mjög mikilvægt að til staðar sé góð keðja, hlekkir sem geta unnið saman og aðstæður sem bjóða upp á slíkt. „Og það hefur sýnt sig að þetta sé að virka hér eins og rannsóknir okkar sýna. Og við höfum ýmislegt fram yfir stóru löndin. Það tekur til dæmis ekki nema 5-6 mínútur fyrir viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu að koma sjúklingi frá áverkastað og inn á sjúkrahúsið og svo er mjög góður aðgangur á Íslandi að neyðarblóði.“

Notar náttúruna til að ná sé niður 

Blaðamaður spurði Tómas hvort hann þurfi ekki vera ansi agaður utan vinnunnar til að geta staðið sig í vinnunni, „það er alveg hárrétt hjá þér, það er mjög mikilvægt. Maður verður að temja sé ákveðinn lífstíl og ég segi það við marga yngri lækna að það er mikilvægt að stunda hreyfingu og þá á ég ekki bara við til að huga að líkamlegri heilsu heldur líka fyrir sálarlífið.“ Tómas segist í framhaldinu oft nota náttúruna til að ná sér niður eftir aðgerð, „ég fer oft einn eða með konunni minni, stundum í stærri hópum, bara út í náttúruna, til að hvíla mig og sækja orku fyrir næstu törn.“

Tekin jarðvegssýni fyrir NASA í Kverkfjöllum i byrjun júlí 2021
Ljósmynd: Salóme Hallfreðsdóttir

Björk sækir kraft sinn í íslenska náttúru

Tómas lifnar allur við í símanum þegar blaðamaður spyr hann út í útivistarmál sem eru honum hugleikin. „Útivistin er stór hlut af mínu lífi en pabbi er jarðfræðingur og svo vann ég einhver 8 sumur sem fjallaleiðsögumaður með læknanáminu. Þá hef ég einnig unnið með Ferðafélagi Íslands og verið með fjallaskíðaprógram og erfiðari jöklaferðir.“ Segist Tómas brenna fyrir náttúruna og að engin hreyfing sé betri fyrir andlegu hliðina en fjallganga. Aukreitis segir Tómas „Það gefur mér svo mikið að fara með fólk á svæði sem það hefur aldrei komið á áður. Ég hef alltaf sagt að þetta sé besta leiðin í náttúruvernd, að taka fólk á staðinn sem það hefur ekki komið á, til dæmis upp á Kverkfjöll. Þá sér það virði náttúrunnar og sér hlutina með öðrum augum en það gerir kannski í Reykjavík.“ Telur Tómas gríðarlega mikilvægt að fá ungt fólk til að fara í ferðir upp á hálendi Íslands. „Á Sprengisand og austur og víðar og auka fræðslu í skólum og kenna meira náttúrufræði. Þess vegna er Ferðafélag Íslands svona mikilvægt. Okkur hefur tekist að hrista aðeins upp í félaginu, yngja það og yngja ímynd þess, getur maður sagt, t.d. með því að bjóða upp á fjallaskíði og landvætti og fleira.“

Þetta segir Tómas mikilvægt því þetta sé fólk sem er virkt í atvinnulífinu og kemur í þessar ferðir og upplifi náttúruna og miðli svo reynslu sinni á sínum vinnustöðum og fyrirtækjum. „Þess vegna er ég í stjórn Ferðafélags Íslands og að leggja þessa auka vinnu á mig, til þess að auka virðingu íslenskrar náttúru sem ég tel ekki síður dýrmæt en bókmenntaarfurinn og tungmálið. Náttúran er auðvitað mikill innblástur fyrir listamenn, það er engin tilvlijun að listamenn eins og Björk og Ragnar Kjartansson séu eins öflug og þau eru, þau sækja kraftinn í náttúruna.“

Tjaldað á Stóra-Hrúti með útsýni yfir gosið í Geldingadölum.
Ljósmynd: Kári Hreinsson

Óvinur Vestfjarða!

Íslensk náttúra og verndun hennar er mikið hugðarefni Tómasar en hann hefur til að mynda skrifað pistla um náttúruvernd í hverri viku inni á Vísi.is og hefur gert það samfleytt í um 3 ár. Þetta gerir Tómas til að kynna íslenska náttúru fyrir fólki. Tómas segir umræðuna um náttúruna og náttúruvernd oft ansi óvæga enda hagsmunir miklir, til dæmis í orkugeiranum. Aðspurður um erfiða umræðu nefnir hann deiluna um Hvalárvirkjun á Ströndum sem honum þótti hatrömm.

„Ég tók það ekkert sérstaklega inn á mig en þetta var fjölskyldu minni erfitt. Ég var útnefndur óvinur Vestfjarða númer 1.“

Tómas segir þó að nú séu liðin nokkur ár og búið að blása virkjunina af tímabundið en hann telji að hún muni ekki rísa úr þessu, en hann skynji breytingar í hugarfarinu fyrir vestan. „Ég finn mikinn mun á umræðunni núna og fyrir 5 árum síðan, meiri skilningur. Þá séu miklu fleiri ferðamenn, bæði erlendir og svo íslenskir í Covid, farnir að skoða þetta fallega svæði. Nú hafa náttúruverndarsjónarmiðin fest sig meira í sessi fyrir vestan en virkjunarsjónarmiðin að mínu mati“.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -