Föstudagur 29. mars, 2024
-3.2 C
Reykjavik

Trassaskapur en ekki fjárdráttur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Reglulega koma upp tilvik þar sem sjálfstætt starfandi lögmenn trassa að veita upplýsingar um stöðu fjárvörslureikninga í þeirra umsjá. Slíkt getur kostað lögmenn tímabundna niðurfellingu málflutningsréttinda og í alvarlegustu tilfellum sviptingu lögmannsréttinda.

 

Fjárvörslureiknginum er ætlað að varðveita fjármuni skjólstæðinga lögmanna og um þá gilda sérstakar reglur. Innistæður á þessum reikningum eru til að mynda ekki aðfararhæfar, þannig að ef lögmannsstofa verður gjaldþrota er ekki hægt að ganga að þeim fjármunum sem þar liggja.

Markmiðið er að vernda fjármuni skjólstæðinga og tryggja að þeir blandist ekki fjármunum í rekstri lögmannsstofa. Allur gangur er á því hversu miklir fjármunir renna í gegnum þessa reikninga. Hjá sumum lögmönnum er um umtalsverðar upphæðir að ræða á meðan aðrir nota þá lítið sem ekkert. Þessir reikningar eru til dæmis notaðir þegar skjólstæðingar fá greiddar tryggingabætur, við uppgjör á dánarbúum eða við kaup eða yfirtöku á fyrirtækjum eða fasteignum.

Strangt eftirlit er með þessum reikningum og er það í höndum Lögmannafélags Íslands. Sjálfstætt starfandi lögmönnum er skylt að senda félaginu fjárvörsluyfirlýsingu fyrir 1. október hvers árs auk þess sem Lögmannafélagið getur falið trúnaðarendurskoðanda félagsins að kalla eftir upplýsingum frá fjármálastofnunum um meðhöndlun reikinganna.

Í nýjasta tölublaði Lögmannablaðsins er vakin athygli á því að töluverður misbrestur er á því að lögmenn skili inn fjárvörsluyfirlýsingum innan lögbundins frests. Samkvæmt upplýsingum frá Lögmannafélagi Íslands var stjórn félagsins tilneydd til að krefjast niðurfellingar málflutningsréttinda fimm lögmanna vegna vanrækslu þeirra á skilum yfirlýsingar innan þeirra tímamarka sem ákveðin eru í lögum um lögmenn.

Af þeim skiluðu þó þrír lögmenn inn fullnægjandi yfirlýsingu undir rekstri málanna fyrir embætti sýslumannsins á Norðurlandi eystra og kom því aðeins til niðurfellingar málflutningsréttinda tveggja lögmanna.

- Auglýsing -

14 kærur í fyrra

Í framhaldi af þessari niðurstöðu lagði stjórn Lögmannafélagsins fram kærur á hendur 14 lögmönnum til úrskurðarnefndar lögmanna. Í mars síðastliðnum kvað úrskurðarnefndin upp úrskurði í þessum málum, þar sem þremur lögmönnum var veitt áminning vegna vanrækslu á skilum yfirlýsingar og fyrir að bregðast ekki við erindi nefndarinnar, auk þess sem fundið var að störfum 11 lögmanna fyrir að skila félaginu ekki fjárvörsluyfirlýsingu innan lögboðins frests.

Eitt tilvik er metið sérstaklega alvarlegt en í úrskurðarorði segir að viðkomandi lögmaður hafi „sýnt af sér hegðun sem telja verður verulega ámælisverða auk þess sem hún er með öllu ósamboðin lögmannastéttinni.“

- Auglýsing -

Úrskurðarnefndinni þóttu brot lögmannsins svo stórfelld að hún lét sér ekki nægja að veita áminningu heldur mun hún taka til skoðunar hvort lagt verði til við sýslumann að viðkomandi lögmaður verði sviptur lögmannsréttindum.

Ingimar Ingason, framkvæmdastjóri Lögmannafélagsins.

Ingimar Ingason, framkvæmdastjóri Lögmannafélagsins, segir að í flestum tilfellum sé um trassaskap lögmanna að ræða. Árlega sé á þriðja tug mála vísað til embættis sýslumannsins á Norðurlandi eystra sem hefur með leyfismál lögmanna að gera en fæstum þessara mála ljúki þó með niðurfellingu málflutningsréttinda, þótt slíkt gerist reglulega.

„Oftast eru gerðar úrbætur undir rekstri málanna. Gríðarlegt aðhald felst hins vegar í eftirliti félagsins gagnvart lögmönnum enda eru starfsréttindi og eftir atvikum lífsviðurværi þeirra undir.“

„Gríðarlegt aðhald felst hins vegar í eftirliti félagsins gagnvart lögmönnum enda eru starfsréttindi og eftir atvikum lífsviðurværi þeirra undir.“

Aðspurður hvort í alvarlegustu tilvikunum leiki grunur á að viðkomandi lögmenn hafi ráðstafað fjármunum í eigin þágu segir Ingimar svo ekki vera. Rekur hann minni til þess að eitt slíkt mál hafi komið upp fyrir rúmum áratug. Var viðkomandi lögmaður dæmdur fyrir fjárdrátt og hann sviptur lögmannsréttindum sem hann hefur ekki fengið útgefin að nýju.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -