2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Um kvíðaviðbrögðin þrjú

Höfundur / Þóra Sigfríð Einarsdóttir, sálfræðingur hjá Domus Mentis, Geðheilsustöð.

Í síðasta pistli var fjallað almennt um kvíða og kom fram að allir finna fyrir kvíða öðru hvoru, í mismiklu mæli þó. Að þessu sinni er athyglinni beint að því sem gerist í líkama okkar þegar kvíði kviknar.

Í raun er kvíði frábært fyrirbæri, að minnsta kosti ef hann virkar eins og til er ætlast. Hann varar okkur við yfirvofandi hættu og hjálpar okkur að takast á við hana. Enn viðbragðið er líka óþægilegt og við finnum fyrir ákveðnum einkennum í líkamanum. Hjartað fer að slá örar, við getum átt erfitt með draga andann djúpt og finnum oft fyrir óþægindum í magann. En hvers vegna gerist þetta?

Þegar okkur er ógnað á einhvern hátt, tekur ósjálfráða taugkerfið yfir og virkjar varnarviðbrögðin okkar þrjú; flótta, árás eða það að frjósa.

AUGLÝSING


Þetta eru frumstæð viðbrögð sem hafa fylgt manninum svo lengi sem hann hefur gengið á þessari jörð. Aðstæður okkar hafa breyst mikið en þessi viðbrögð hafa ekki gert það og miðast við það að við búum við takmarkað skjól og gætum hvenær sem er verið ógnað af rándýrum.

Við ráðum litlu um hvaða viðbragð verður fyrir valinu, ósjálfráða taugakerfið ákveður á sekúndubroti hvað viðbragð er vænlegast til árangurs og gæti orðið til þess að við komumst frá hættunni með sem minnstum skaða.

Kvíðaviðbrögðin þrjú eru líka á ákveðinni vídd, þau eru ekki alltaf jafn sterk. Árásarviðbragðið getur til dæmis falist í því að setja í brýrnar og dýpka röddinni, svona til þess að láta viðkomandi ógn vita að það er hingað og ekki lengra og vona að viðkomandi bakki. En svo getur árásarviðbragðið líka falist í því  að við ráðumst á það sem ógnar okkur með hnúum og hnefum.

Að forðast getur verið allt frá því að sleppa því að opna gluggaumslög eða ferðast ekki með flugvélum, allt til þess að hlaupa eins og fætur toga.

Til þess að geta ráðist á það sem ógnar okkur eða flúið hættuna þarf líkaminn okkar að vera eins sterkur og mögulegt er.  Margir kannast við það að verða andstuttir þegar þeir eru hræddir.  Vöðvarnir okkar þurfa á súrefni að halda og til að svo megi verða förum við að anda hraðar og grynnra.

Hjartað okkar slær líka hraðar til að pumpa blóðinu um líkamann sem hraðast svo vöðvarnir okkar fáisúrefnið sem við erum að anda að okkur og ýmis boðefni sem við þurfum á að halda og ferðast líka með blóði um líkamann, til dæmis adrenalín. Blóðflæðinu er forgangsraðað til stóru vöðvana og því finna margir fyrir svima, óraunveruleikatilfinningu og/eða dofa í tám og fingrum.

Kælikerfi líkamans fer í gang og við förum að svitna. Meltingin kemst í uppnám og margir fái í magann þegar kvíðinn lætur á sér kræla.

Það er því óhætt að segja að varnarviðbrögðin valdi okkur óþægindum. Það sem meira er, þá fer þetta kerfi alltaf í gang þegar okkur er ógnað, hvort sem við erum að mæta ljóni eða bara fara í atvinnuviðtal.

Þegar líkaminn okkar bregst við á þennan hátt við minnstu ógn er ágætt að minna sig á hvað er að gerast. Það er verið að undirbúa líkamann til takast á við lífshættulegar aðstæður. Oftar en ekki eru þessi aldargömlu viðbrögð ekki  í samræmi við það sem ógnar okkur í dag. Það getur verið hjálplegt að minna sig á þetta þegar við verðum vör við ofangreind einkenni.

Í næsta pistli verður fjallað um ofsakvíða þar sem líkamleg einkenni kvíða eru áberandi.

Sjá einnig: Kvíðinn á ekki að trufla daglegt líf

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is