Föstudagur 19. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Umboðsmaður tekur slaginn með öryrkjum: „Fyrir veikindi hefði ég aldrei trúað svona sögum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Fyrir veikindi hefði ég aldrei trúað svona sögum; ég hefði alltaf hugsað – það hlýtur að vera eitthvað meira ósagt, eitthvað gruggugt í gangi hjá þessu fólki. Svo horfi ég á strangheiðarlegasta og elskuríkasta mann jarðarkringlunnar lenda í þessu, algerlega óviðbúið og óverðskuldað. Við erum slegin, óhætt að segja það.“

Þessi orð má lesa í Facebook hóp Öryrkja Íslands en hér lýsir kona á fimmtugsaldri þrautagöngu eiginmanns síns, sem 43 ára að aldri, hætti að geta séð fyrir eigin fjölskyldu en hann er þriggja barna faðir og státaði af heilsuhreysti allar götur til ársins 2015, þegar ókennilegri vírussýkingu laust niður sem gerði heilsu og starfsgetu mannsins að engu á svo til einni nóttu.

Umræddur fjölskyldufaðir sótti endurhæfingarúrræði hjá VIRK endurhæfing ásamt því að dvelja á Reykjalundi vegna veikinda sinna. Reglubundnar rannsóknir, læknaheimsóknir ásamt fagteymi heilbrigðisstarfsfólks í heimahéraði mannsins og endurhæfingarteymi skar úr um nauðsyn örorku eftir talsvert langan endurhæfingartíma sem ekki bar þann árangur sem vonast hafði verið til. Þrátt fyrir strangt og langt ferli sem lauk með umsókn um örorku hjá Tryggingastofnun sem innihélt öll gögn og skráningar frá sérfræðiteymi valt nær óskiljanlegur úrskurður sem fól í sér synjun, á efasemdum matslækna Tryggingastofnunar.

Maðurinn kærði úrskurð synjunar en var hafnað að nýju. „Hann fékk svar sem sagði ca. – sorry, niðurstöður standa því okkur finnst það“ – segir eiginkona mannsins í hóp öryrkja. „Við fengum engar almennilegar útskýringar nema ein kona sagði hann ekki hafa skorað nógu hátt á andlega matsþættinum. Ég sagði manninum mínum að heyra í TR og sækja um vinnu hjá þeim, þeir gætu líklega hugsað sér að ráða hann í 50% vinnu í sínu ásigkomulagi.“

Sífellt fleiri kæra synjun um örorkulífeyri til Úrskurðanefndar Velferðarmála en með misjöfnum árangri eins og lesa má.

Eins og lesa má af orðum meðlima í hóp Öryrkja á Facebook er ferlið langdregið, þrungið streitu og hefur eyðileggjandi áhrif á fjárhag, velferð og almenn lífskjör þeirra sem veikjast og eygja veika von um stuðning frá hinu opinbera eftir langan og farsælan starfsferil og jafnvel stöðugar greiðslur í lífeyrissjóð um árabil. Þegar sjúkrasjóður er á þrotum tekur oftlega við þétt og öflugt endurhæfingarferli. Sú endurhæfing ber þó ekki alltaf árangur og því standa fjölmargir gagnvart því sem virðist nær óvinnandi vegur; að sækja um ótímabundna örorku. Við tekur þá langt og spennuþrungið biðferli eftir úrskurði matslækna Tryggingastofnunar um örorku og synjun virðist orðin næst því að vera lenska í sjúkrakerfinu, ásamt því sem sífellt fleiri kæra slíkar synjun, oft með engum árangri.

Fleiri deila sögu sinni í hópnum og má sjá að umsækjendur um örorku eru margir langþreyttir, fárveikir og úrkula vonar um að geta séð sér efnahagslega farborða meðan á veikindum stendur. Umboðsmaður Alþingis er á sama máli og hefur krafið Ásmund Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra skýringa og spyr því umsóknum um örorkulífeyri, sérstaklega frá ungu fólki sé í sífellu vísað frá á þeim grundvelli að endurhæfing sé ekki fullreynd.

- Auglýsing -

Þessa starfshætti segir Umboðsmaður Alþingis þungt áhyggjuefni en embættinu hafa borist fjölmargar kvartanir og ábendingar, ekki hvað síst frá ungu fólki sem leggur fram gögn sjúkratryggingakerfis sem sýna að umsókn um örorku er synjað á þeim forsendum að endurhæfing sé ekki fullreynd.

„Einstaklingum hefur verið synjað um örorku á þeim forsendum að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd án þess þó að tiltekið sé hvaða endurhæfingarúrræði séu fullreynd, hvort endurhæfingarúrræði standi hreinlega til boða og hvert aðgengi að endurhæfingarúrræðum er, með tilliti til biðtíma, staðsetningar eða annarra mögulegra hindrana,“ segir Umboðsmaður Alþingis meðal annars í erindi til ráðherra og krefur ráðuneyti svara ekki síðar en 28. júní.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands fagnar erindi Umboðsmanns Alþingis og lýsir þungum áhyggjum af afgreiðslutíma og svo svo efasemdum matslækna Tryggingastofnunar. „Það er í raun ótrúlegt að ungmenni með umönnunarmat vegna margþættra fatlana, skuli við 18 ára aldurinn fá synjun á örorkumati, sem væri eðlilegt framhald af umönnunarmati. Endurhæfing breytir ekki fötlun þessara einstaklinga.“ Þannig segir Þuríður Harpa ungt fólk ekki hvað síst eiga við ramman reip að draga og sér í lagi þegar liggi fyrir upplýsingar um einstaklinga með meðfæddar taugaþroskaraskanir. „ … þar sem legið hefur fyrir umönnunarmat samkvæmt 4. gr. laga nr 99/2007 fram að 18 ára aldri. Dæmi eru um að einstaklingum í þessari stöðu hafi verið synjað um örorkumat þótt varanleg skerðing og þörf þeirra fyrir aðstoð hafi ekki breyst við það að ná 18 ára aldri.“

- Auglýsing -

Alvarlegasta gagnrýni Umboðsmanns Alþingis í erindi til ráðherra beinist að því hvort matslæknar Tryggingastofnunar synji ítrekað umsóknum um örorkumat án haldbærra gagna og upplýsinga um getu og möguleika umsækjenda á raunhæfri endurhæfingu. Þá er getum leitt að því hvort sérfræðiteymi Tryggingastofnunar meðhöndli umsóknir með nægjanlega traustum hætti og hvort leiðbeiningar skorti með öllu.

Víst er að spenna ríkir víða í heilbrigðiskerfinu og segir þannig á vef Öryrkjabandalagsins að Umboðsmaður Alþingis muni, að gefnu svari ráðuneytis fyrir lok þessa mánaðar taka afstöðu til þess hvort tilefni sé að taka álitaefni til athugunar að eigin frumkvæði.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -