„Undirbúningur og einbeiting mikilvæg svo allt smelli“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Jólablað Gestgjafans er komið í verslanir og er glæsilegra en nokkru sinni fyrr. Það inniheldur 119 hátíðaruppskriftir auk góðra ráða, hugmynda að matarjólagjöfum, viðtala við sælkera og margt fleira. Blaðamenn Gestgjafans stóðu í ströngu við undirbúning blaðsins en allar uppskriftir þess eru útbúnar í tilraunaeldhúsi Gestgjafans og útkoman síðan mynduð af ljósmyndurum blaðsins. Nanna Teitsdóttir eldaði marga af þessum réttum.

„Vinnan á bak við eitt svona blað er gríðarlega mikil og við leggjum mikið upp úr því að hafa það veglegt og fallegt,“ segir Nanna þegar hún er spurð út í vinnsluna. „Einn matarþáttur getur tekið marga daga í vinnslu. Það þarf að þróa mataruppskrifir, elda matinn og smakka hann til og breyta þá uppskriftunum ef þar. Síðan tekur stílisti við og skapar umgjörðina í kringum myndatökuna og ljósmyndarinn fangar lokaútkomuna.“

Einn matarþáttur getur tekið marga daga í vinnslu.

Forsíðuna á þessu blaði prýðir mynd af súkkulaði-triffli sem Nanna gerði og inni í blaðinu eru uppskriftir að þremur slíkum eftirréttum. Það tók Nönnu tvo daga að þróa uppskriftirnar, þá tvo daga í eldhúsinu að búa til matinn og síðan fór einn dagur til viðbótar í að mynda þáttinn.

Jólablað Gestgjafans er troðfullt af spennandi og fjölbreyttu efni. Forsíðumyndina tók Hallur Karlsson og Hanna Ingibjörg, ritstjóri blaðsins, stíliseraði.

„Hugmyndin að þessum þætti var að búa til eftirrétti fyrir stór matarboð en triffli henta vel fyrir slíkt þar sem hægt er að undirbúa það að mestu tveimur dögum fyrir veisluna. Síðan má setja það saman samdægurs og niðurstaðan er tilkomumikill og flottur eftirréttur sem gaman er að bera á borð.“

Skammdegið áskorun

Í jólablaði Gestgjafans eru fjölbreyttir matarþættir sem spanna forrétti, aðalrétti, meðlæti og eftirrétti, líka fyrir grænmetisætur. Í þessu blaði gerði Nanna meðal annars þátt um hátíðarsteikur með Bergþóru Jónsdóttur, samstarfskonu sinni, þar sem þær elduðu fjóra kjötrétti auk meðlætis.

Önd með ylliblóma- og appelsínusósu sem Bergþóra Jónsdóttir eldaði fyrir jólablaðið í matarþætti með fjórum sparilegum kjötréttum auk meðlætis. Myndirnar tók Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir og Hanna Ingibjörg stíliseraði.

„Þessi þáttur tók svipaðan tíma og eftirréttirnir en kjötþættir eru mun þyngri í vinnslu þar sem minna er hægt að vinna sér í haginn, það þarf að elda kjötið sama dag og myndatakan fer fram og því má lítið út af bregða. Við þurfum því að undirbúa okkur vel og hafa einbeitinguna í lagi. Við notumst aðallega við dagsljós við myndatökur og því er ein aðaláskorunin við vinnslu jólablaðsins skammdegið þar sem dagsbirtan er til staðar stuttan hluta úr degi. Það þarf því allt að smella saman á réttum tíma. Þetta er ótrúlega skemmtilegt en ég viðurkenni að þetta getur tekið á taugarnar,“ segir Nanna og hlær.

Erlend matarmenning

Uppáhaldsþáttur Nönnu í þessu blaði heitir jólakrásir frá fjórum löndum sem hún vann einnig með Bergþóru. „Ég hef ofboðslega gaman af að kynnast menningu annarra landa í gegnum mat. Við gerum uppskriftir frá fjórum ólíkum löndum Evrópu og erum auk þess með skemmtilegan fróðleik um hvern rétt og sögu hans. Við Bergþóra höfum báðar búið erlendis og ferðast mikið sem gagnaðist okkur vel við vinnsluna.“

Þetta er ótrúlega skemmtilegt en ég viðurkenni að þetta getur tekið á taugarnar.

Eftir allan jólamatinn og kökurnar sem einkennt hefur vinnu starfsfólks Gestgjafans í haust er búið að skipta aðeins um gír og hollustan tekin við. „Já, við erum alltaf skrefi á undan, nú eru jólin búin hjá okkur og hollusta janúarmánuðar tekin við,“ segir Nanna hress í bragði að lokum.

Í Jólablaði Gestgjafans er flottur þáttur með einföldum og hátíðarlegum forréttum sem Nanna eldaði. Um stíliseringu sá Hanna Ingibjörg Arnarsdóttur og myndirnar tók Hákon Davíð Björnsson. Uppskrift að þessum kartöfluklöttum með reyktum laxi og piparrótarsósu er að finna í blaðinu.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira