Á Facebook síðunni Linda- Sala- Kóra- Þinga- og Vatnsendahverfi auglýsir Sigríður nokkur eftir eiganda hunds sem beit dóttur hennar illa í lærið í gærkvöldi. Dóttir hennar var í algjöru sjokki eftir atvikið.
„Við óskum eftir að ná sambandi við konu sem var á gangi með ljósan, flekkóttan, snögghærðan hund sem var á ferð frá göngustígnum við golfvöllinn í undirgöngin við Salaskóla núna fyrir skömmu, u.þ.b. kl. 19:45.“
Móðirin segir að eigandi hundsins hafi ef til vill ekki áttað sig á alvarleika málsins. Hún segir að dóttir hennar hafi verið í miklu áfalli vegna bitsins þegar heim var komið.
„Hún mætti 10 ára dóttur minni sem var á leið af æfingu í Versölum og beit hundurinn hana illa í lærið. Konan virðist ekki hafa áttað sig á alvarleikanum og þar sem dóttir mín var í algjöru sjokki sagði hún að allt væri í lagi og dreif sig heim. Við myndum gjarnan vilja ná sambandi við eigandann,“ sagði móðirin.