Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, býður fram aðstoð sína til allra þeirra sem hafa látið sig dreyma um að flytja út á land. Sjálf býr hún á Hvammstanga og segir kostina við það vega svo miklu þyngri en gallana.
Þetta segir Unnur í færslu sinni á Facebook þar sem hvetur alla til að flytja út á land, þegar það verður orðið óhætt að sjálfsögðu. Því nú sé hreinlega tíminn til þess þar sem faraldurinn hafi sýnt hversu auðvelt er að fjarvinna ýmiskonar störf. Hún býðst til að aðstoða við að finna húsnæði og skrifstofuaðstöðu á hvaða þéttbýlisstað sem er á Norðurlandi Vestra. „Við höfum lært ýmislegt á undanförnum mánuðum. Þvo hendur almennilega, gefa fólki sitt persónulega rými, ekki koma við handriðin í rúllustiganum og svo mætti lengi halda áfram. Það er líka orðið almenn færni í dag að sitja rafræna fundi, nokkuð sem var ekki á allra færi fyrir Covid. Við höfum líka komist að því að mjög mörg störf er auðveldlega hægt að vinna fjarri hefðbundnum skrifstofum. Hvort sem er í einkageiranum eða hjá hinu opinbera,“ segir Unnur sem segir marga vini sína hafa dreymt um að flytja út á land en vinnan hafi ávallt stoppað þá af:
„Þegar ég flutti norður fyrir 7 árum voru margir sem höfðu samband við mig og sögðu mér að þá hefði dreymt um það lengi að flytja út á land en gætu það ekki sökum skorts á atvinnutækifærum. Jafnvel hafði samband við mig fólk sem aldrei hafði búið á landsbyggðinni en lét sig dreyma um að búa fjarri skarkalanum. Þetta hef ég heyrt reglulega síðan. Það væri þá ekki að þetta ástand sem við búum við í dag myndi sýna okkur, bæði starfsmönnum og forsvarsmönnum fyrirtækja og stofnana að búseta skiptir í mörgum tilfellum ekki máli með tilliti til starfs. Það væri þá ekki að þeir sem gengið hafa með það í maganum að flytja út á land létu af því verða núna og tækju hreinlega starfið sitt með sér.“
„Við höfum líka komist að því að mjög mörg störf er auðveldlega hægt að vinna fjarri hefðbundnum skrifstofum.“
Undir málflutning Unnar tekur Einar K. Guðfinnsson, fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem segir hann vera orð í tíma töluð. Það gerir líka Áskell Heiðar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri fræðslu- og upplifunarmiðstöðvar um Sturlungaöldina á Sauðárkróki, „Vel mælt!,“ segir Áskell.
Í færslu sinni tínir Unnur til fjölmarga kosti þess að búa úti á landi. Sem dæmi er sá mikli tímasparnaður við að koma sér til og frá vinnu ásamt barnaskutli í tómstundir. Fjölskyldan geti gengið í allt og mjög auðvelt að skreppa heim í hádeginu í mat. Þá segir Unnur kostnaðinn við íþrótta- og tómstundaiðkun mjög lágan. Hún skorar á vini sína að kýla loksins á það að flytja út á land og býður þeim aðstoð sína. „Kostirnir við að búa þar sem ég bý vega svo miklu þyngra en gallarnir. Ég skora á vini að skoða mjög alvarlega þennan möguleika núna þegar tækifæri á að flytja starfið með sér eru fyrir hendi í einhverjum tilfellum. Ég skal hjálpa til við að finna húsnæði og ég skal líka aðstoða við að finna góða skrifstofuaðstöðu. Komdu, við tökum vel á móti þér,“ segir Unnur að lokum.