Börn á leikskólanum Mánagarði við Eggertsgötu hafa greinst með Ecoli-smit. Staðfest er að fjögur börn hafa greinst og grunur leikur á að níu börn hafi smitast. Þau voru send á bráðadeild Landspítalans til greiningar. Uppnám var á leikskólanum sem hefur verið lokað vegna þessa ástands. Ekki er vitað til þess að neitt barnanna hafi veikst alvarlega, sem getur verið fylgifiskur sýkingarinnar.
Foreldrar barna á Mánagarði fengu tilkynningu um sýkinguna í gær. Helstu einkenni eru niðurgangur og sótthiti. Foreldrar eru hvattir til þess að fara með börnin á bráðamóttöku ef grunur er um smit. Málið er komið til sóttvarnalæknis. Morgunblaðið greind fyrst frá málinu.
Einkenni sýkingar koma oftast fram eftir 3-8 daga, samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun Einkenni geta verið allt frá vægum vatnskenndum niðurgangi í alvarlegan blóðugan niðurgang með magakrömpum og hugsanlega uppköstum.
Venjulega fylgir enginn hiti sýkingum eða lítill hiti. Veikindin vara oftast í 5-10 daga hjá heilsuhraustum einstaklingum, en hjá eldra fólki og börnum undir 5 ára getur sýkingin verið alvarlegri og varað lengur. Í þeim tilfellum geta komið nýrnaskaðar eða skaðar á taugakerfinu. Dæmi eru um að sýkingar af völdum E.coli O157 hafi valið bráðri nýrnabilun sem leiddi til dauða.
Á vef Matvælastofnunar má lesa nánar um E.coli-sýkingar, en þær má oftast rekja til saurmengaðra matvæla eða vatns.
Hópsýkingar eru ekki algengar Árið 2019 kom upp slíkt tilfelli þegar 24 einstaklingar, þar af 22 börn, smituðust af E.coli.