2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Uppsöfnuð óánægja finnur sér farveg

Háværar deilur innan Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum um röðun á framboðslista urðu til þess að flokkurinn klofnaði skömmu fyrir kosningar. H-listinn spratt fram og náði ásamt E-listanum að fella meirihluta Sjálfstæðisflokksins, þótt ekki hafi munað nema fimm atkvæðum. Skyndilega stóð Elliði Vignisson á krossgötum. Bæjarstjórastóllinn var farinn og í fyrsta skipti í 14 ár var hann ekki lengur bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum. Elliði var horfinn úr forystu Vestmannaeyjabæjar og fram undan voru stórar persónulegar ákvarðanir.

Þótt deilurnar innan flokksins hafi opinberlega snúist um hvaða leið ætti að fara við röðun á framboðslista telur Elliði að dýpri ástæður hafi legið þar að baki. „Það var enginn málefnalegur ágreiningur en á móti kemur að við vorum búin að vera við stjórnvölinn í tólf ár og höfðum gengið þannig fram að auðvitað höfum við valdið truflunum í viðtækjum einhverra á þessum tíma. Við fundum það mjög að ákveðnir hópar voru að leita sér að farvegi fyrir persónulega óánægju frekar en eitthvað annað. Það var kannski byggt hús of nálægt einum, aðrir töldu sig ekki hafa fengið nægileg verkefni í útboðum á vegum Vestmannaeyjabæjar, fólk hafði ekki fengið vinnu sem það sótti um hjá bænum eða jafnvel misst vinnuna og taldi sig þess vegna eiga eitthvað sökótt við bæjarfélagið og svo framvegis. Þessi óánægja fann sér farveg í þessum svokallaða H-lista sem náði því sem til þurfti. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn sé eftir sem áður með eitt mesta fylgi á landinu í Eyjum þá dugði fylgi H-listans til að fella meirihlutann og það verður ekki af þeim tekið.“

Deilurnar mögnuðust enn frekar eftir að niðurstaða kosninganna varð ljós og beindist reiði sjálfstæðismanna fyrst og fremst að Páli Magnússyni, þingmanni flokksins í kjördæminu. Hann var sakaður um að hafa stutt framboð H-listans á bakvið tjöldin og þannig unnið markvisst gegn eigin flokki í bænum. Fór svo að Páll var rekinn úr fulltrúaráði flokksins í Vestmanneyjum vegna „fordæmalausrar framgöngu“ hans í kosningunum, eins og það var orðað í ályktun. Elliði er fljótur til svara þegar hann er spurður út í framgöngu Páls. „Ég ætla ekki að tjá mig um Pál Magnússon í þessu viðtali. Ég ætla ekki að falla í þá gryfju að ræða þetta út frá einstökum persónum. Það er til sálfræðihugtak sem heitir stóra eignunarvillan og hún er kölluð það af því að hún er svo algeng. Hún felst í því að ætla persónum of stórt hlutverk. Oftast nær liggur skýringin í einhverju öðru en einstökum persónum. Við eignum einstökum persónum árangur og eignum einstökum persónum líka árangursleysi þegar allt aðrir þættir geta legið að baki. Þannig að mér finnst það hvorki sanngjarnt gagnvart mér né Páli Magnússyni að ég fari að ræða um meintar persónulegar deilur á milli okkar.“

Rætt er ítarlega við Elliða í Mannlífi sem kom út í gær.

AUGLÝSING


Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is