Miðvikudagur 29. nóvember, 2023
3.1 C
Reykjavik

Útipúl og innikósí

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Síðast en ekki síst

Höfundur / Óttar M. Norðfjörð

Vinur minn byrjaði nýlega að stunda eitthvað sem heitir útipúl. Ég hélt fyrst að hann væri að grínast þegar hann útskýrði þetta fyrir mér: hann borgar ókunnugri manneskju tugi þúsunda fyrir að skipa sér að hreyfa sig úti í frosti og slyddu. Líkamsrækt fyrir fólk haldið óvenju miklum masókisma.

Hann spurði hvort ég vildi ekki kíkja með honum, því ég væri farinn að mýkjast eftir öll árin á Spáni, þar sem ég bý, og hitti naglann á höfuðið. Ég myndi raunar ganga svo langt að kalla útipúl versta orð íslenskrar tungu, eins konar fullkomna andstæðu orðsins ljósmóðir sem var valið það fallegasta. Orðinu útipúl tekst einhvern veginn að sauma saman tvö mjög óaðlaðandi orð – úti og púl.

Eða kannski hef ég bara fjarlægst ræturnar. Kannski er það tékkneski helmingurinn í mér (mamma er þaðan) sem lætur mig klóra mér í höfðinu yfir öllum þessum Íslendingum sem pynta sig í sjósundi eða cyclothoni Wow eða ganga upp á Esjuna einungis til að ganga aftur niður, eða hlaupa maraþon, hálfmaraþon eða svokallað „skemmtiskokk“ (annað áhugavert orð). Þegar ég sé allt þetta þjáða fólk, eldrautt í framan og sveitt, minnir það næstum á fanga á einhverri súrrealískri fanganýlendu sem neyðist til að taka út refsinguna sína svona.

En líklega hafa Íslendingar þó alltaf verið útipúlarar. Ingólfur Arnarson var fyrsti útipúlarinn, þar sem hann púlaði einsamall við að reyna að gera þetta undarlega land byggilegt. En nei, ekki ég. Ég kýs að nota frítímann minn í eitthvað annað, í eitthvað uppbyggilegt, í nokkuð sem ég kalla innikósí. Innikósi gæti raunar gert tilkall til fegursta orðs íslenskrar tungu, að mínu mati, enda ávísun á hlýjan sófa og nammi og góða mynd, afkvæmi tveggja yndislegustu orða okkar ástkæra, ylhýra – inni og kósí. En það er kannski ágætt að það hugsi ekki allir eins og ég, því þá hefði Ísland líklega aldrei fundist.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -