Fimmtudagur 30. júní, 2022
10.8 C
Reykjavik

Valerie Ósk léttist og svaf lítið eftir að stríðið braust út: „Hjarta mitt er brotið“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

„Þann 24. febrúar réðust Rússar inn í Úkraínu þegar almennir borgarar sváfu rólegir í rúmum sínum. Kvöldið áður talaði ég í síma við vin minn í Úkraínu og þegar ég vaknaði daginn eftir sá ég skilaboð frá honum: „Við eigum í stríði.“ Ég var heima fyrstu fjóru dagana og var bara í símanum. Mér leið eins og ég sæti með ástvinum mínum í kjallara í skjóli fyrir sprengjunum. Svo vakti vinur minn á Íslandi mig aftur til lífsins með því að segja að ég ætti að hugsa um heilsuna af því að ég á dóttur,“ segir Valerie Ósk Elenudóttir sem er frá Úkraínu, en hún hefur búið á Íslandi hálfa ævina en hún er í leiklistarnámi og vinnur hjá New In Iceland sem er upplýsingamiðstöð fyrir innflytjendur á Íslandi. Hún fæddist í úkraínsku borginni Kharkiv sem segja má að sé nú rústir einar. „Hjarta mitt er brotið.“

Valerie segir að hún hafi lést þó nokkuð síðastliðinn mánuð eða frá því að stríðið braust út. „Ég hætti eiginlega að borða á tímabili og svaf lítið. Mig langaði til að fara til Póllands til að leggja mitt af mörkum til hjálpar úkraínskum flóttamönnum eða fara jafnvel til Úkraínu, en svo bað dóttir mín mig eitt kvöldið um að fara ekki í stríðið. Mér brá og spurði hvað hún meinti og þá sagði hún að ég væri að gera svo mikið og hún hefði áhyggjur af að ég vildi gera meira.“

Valerie segist finna mikinn stuðning frá íslenskum vinum sínum og að hún sé þakklát fyrir að búa í friðsömu landi. „Það hlýjar mér um hjartarætur að sjá hvernig Íslendingar styðja við Úkraínumenn.“

Valerie Ósk Elenudóttir

„Við erum lifandi“

Valerie segir að guðmóðir sín, sem bjó í Kyiv, hafi komið til Íslands í síðustu viku. „Þetta var erfitt en í margar nætur faldi hún sig í kjallara og var hrædd við að fara með uppkomnum börnum sínum. En henni tókst að koma til mín en alein. Dóttir hennar var eftir í Lviv og er þar í sjálfboðaliðastörfum og sonur hennar er í Kyiv þar sem hann hjálpar til á götum borgarinnar.

„Við erum lifandi“ og „Ég er hrædd“.

- Auglýsing -

Ég hef verið í samskiptum við vini mína í Úkraínu frá því að stríðið hófst. Ég á marga vini í Úkraínu og ég þekki marga þar. Bestu vinir mínir komust til Póllands og einn þeirra vill komast til Íslands en það er erfitt því hún á hund. Hún á líka átta ára gamla dóttur sem er vinkona dóttur minnar. Vinir mínir í Kharkiv, þar sem ég fæddist og ólst upp, upplifa hræðilega tíma. Þeir voru hræddir í marga daga en nú eru þeir þreyttir á að lifa við slíkar aðstæður og einn þeirra sagði meira að segja við mig: „Ef það eru örlög mín að deyja þá dey ég.“ Ég fæ reglulega skilaboð í símann: „Við erum lifandi“ og „Ég er hrædd“. Það eru svo margir sem þurfa á hjálp að halda. Ég reyni að vera sterk fyrir þetta fólk, ég reyni að hjálpa því eins og ég get og bið um að þessu ljúki fljótlega. Þetta er martröð fyrir alla Úkraínumenn sama hvar þeir eru í heiminum.“

Valerie Ósk Elenudóttir

Ætti að stöðva hann núna

- Auglýsing -

Valerie segir að hún og aðrir Úkraínumenn sem hún þekkir hafi ekki átt von á því að Rússar myndu ráðast inn í Úkraínu.

„Ég talaði við guðmóður mína og vini í Kharkiv um þetta daginn fyrir innrásina, en þau voru að pakka í „neyðarbakpoka“ en þau tóku þessu ekki alvarlega og settu í rauninni ekkert í bakpokana. Síðan kom þetta okkur mjög á óvart.“

Valerie segist í gegnum tíðina ekki hafa litið á Rússland sem annað land. „Afi minn var frá Rússlandi og þar áttum við ættingja. Ég missti sambandið við þá fyrir löngu en Rússland var mér ekki framandi land. Ég hef oft komið til Rússlands og þar á ég marga vini.“

Hann hættir kannski ekki bara í Úkraínu.

Hvað með Pútín? Hve langt telur hún að hann gangi? „Ég er hrædd um að þessi maður muni ekki stoppa og ganga enn lengra. Hann hættir kannski ekki bara í Úkraínu. Þess vegna ætti allur heimurinn að stöðva hann núna.“

Hvað með tal um kjarnorkuvopn? Yfirtökuna á Chernobyl-kjarnorkuverinu? „Þetta er bara brjálæði,“ segir Valeire en fjögur kjarnorkuver eru í Úkraínu. „Þegar kviknaði í Zaporozhyen-kjarnorkuverinu 4. mars héldu margir niðri í sér andanum. Hvað er Pútín í rauninni að segja þegar hann nefnir að hann eigi kjarnorkusprengjur? Við vitum nú þegar að honum virðist aðeins vera annt um sjálfan sig og metnað sinn. Hann gat ekki sætt sig við þá staðreynd að Úkraína sé sjálfstætt land. Pútín virðist vera sama um rússneska borgara og rússneskt land og eyðir milljónum dollara í stríð sem enginn þarf nema hann!“

Valerie er á því að útiloka eigi Rússa frá Öryggisráði SÞ og senda rússneska sendiherrann á Íslandi úr landi. „Ísland styður Úkraínu og opnar dyr sínar fyrir Úkraínumönnum þannig að rússneska sendiráðinu ætti að vera lokað; Mikhail Noskov, sendiherra Rússlands, ætti að vera sendur aftur til Rússlands þar sem hann getur haldið áfram að styðja Pútín. Úkraínska sendiráðið ætti að vera opnað í stað þess rússneska.“

Valerie Ósk Elenudóttir

 

Við gefumst ekki upp

Valerie segir að eftir að hafa verið í áfalli í fjóra daga eftir að stríðið braust út, hafi hún gert sér grein fyrir að hún þyrfti að gera eitthvað til hjálpar, eins og hún hefur þegar minnst á, og datt henni í hug að hafa samband við Úkraínumenn á Íslandi til að þeir kæmu löndum sínum til aðstoðar.

„Á þeim tímapunkti heyrði ég ekki um neinn sem gerði þetta. Svo við söfnuðum og sendum 45 tonn af hjálpargögnum með Baltic Airlines, og fengum að gera það endurgjaldslaust, auk þess sem hjálpargögn voru send í gámum sjóleiðina. Ég hef tekið þátt í mótmælum fyrir utan rússneska sendiráðið í Reykjavík og farið í mótmælagöngur gegn stríðinu. Ég mæti auk þess á alla viðburði til styrktar Úkraínu, gef peninga til styrktar flóttamönnum og sendi vinum mínum í Úkraínu pening.“

Hvað hefur Valerie lært undanfarnar vikur varðandi sjálfa sig, Úkraínu og Rússland og alþjóðasamfélagið?

Ástandið í Úkraínu er svo hræðilegt að það er erfitt að lýsa því.

„Ég hef lært mikið og sérstaklega hversu mikilvægt er að meta það sem maður hefur. Ég fékk nýlega martröð, en mig dreymdi að það væri stríð á Íslandi. Ég vaknaði mjög hrædd. Ástandið í Úkraínu er svo hræðilegt að það er erfitt að lýsa því, en ég er svo stolt af þjóðinni minni. Hvar sem við erum styðjum við og stöndum með Úkraínu og þess vegna munum við sigra. Við erum sameinuð og gefumst ekki upp fyrr en við fáum frelsi okkar. Þegar þetta byrjaði allt í Úkraínu hætti líf mitt, og allt sem ég vil núna er friður og frelsi í föðurlandinu.“

Valerie Ósk Elenudóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -