Miðvikudagur 29. júní, 2022
14.8 C
Reykjavik

Valgeir segir hamingjuna vera einfaldleika: „Ég nýt lífsins í dag, laus við draslið úr fortíðinni“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Mannlíf heyrði í Valgeiri Skagfjörð og fékk að fræðast um andlega vegferð hans. Valgeir segist vera karlmaður á besta aldri. Jarðarbúi. „Ég er svo lánsamur að hafa fengið tækifæri til að fást við flest það sem ég hef gaman af að gera og getað nýtt hæfileika mína til.“

Valgeir er leikari, tónlistarmaður, kennari, markþjálfi og Cranio Sacral-meðferðaraðili (höfuðbeina og spjaldhryggsmeðferð). Hann hefur auk þess lært og tileinkað sér heilun á sjálfum sér og til hjálpar öðrum.

Leiðin hefur verið þyrnum stráð

„Það er heilmikil vinna að vera til og sjálfsvinna er mikilvæg til að viðhalda andlegri og líkamlegri heilsu. Ég hef farið ýmsar leiðir í minni nálgun.

Til að byrja með hætti ég að drekka áfengi fyrir tuttugu og sex árum og leiðin þaðan hefur verið þyrnum stráð, en hún hefur hjálpað mér til að vaxa og þroskast.

Ég nýt lífsins í dag, laus við draslið úr fortíðinni og ætla að hafa seinni hálfleikinn fullan af kærleika og skemmtilegheitum

Fyrir það fyrsta þá fann ég Guð á þessari leið. En Guð er þriggja stafa orð yfir þann andlega kraft sem býr innra með okkur öllum. Sumir eiga erfitt með þetta orð og tala um alheiminn, alvaldið, tao, hinn mikla anda eða hvað annað sem þeim hugnast. Kristur sagði að guðsríkið væri hið innra og það er fyrir mér sá sannleikur sem ég kýs að lifa eftir. Ég hef stundað hugleiðslu og bæn, jóga, fjallgöngur og lagt rækt við andann með aukinni tengingu við móður jörð og þá dásamlegu náttúru sem þessi litla jarðarkringla býður okkur og við höfum fengið að láni. Leið mín er vörðuð áföllum og mótlæti, en líka velgengni, gleði og farsæld. Ég nýt lífsins í dag, laus við draslið úr fortíðinni og ætla að hafa seinni hálfleikinn fullan af kærleika og skemmtilegheitum.

- Auglýsing -

Ég hef unnið að því að fara út úr þægindarammanum með því að vera óhræddur við að prófa eitthvað nýtt, stíga inn í ótta minn, berskjalda mig, kannast við tilfinningar mínar, þarfir og langanir, horfa á sjálfan mig í speglinum og sjá þann mann sem ég er, í stað þess manns sem ég vildi sýna öðrum í því augnamiði að öðlast ást og samþykki. Ég þarf ekki velþóknun annarra til að fá staðfestingu á því að ég sé einhvers virði. Ég er og við erum öll þess verð að hljóta ást og samþykki, en fyrst og síðast ást sjálfra okkar á okkur sjálfum og að samþykkja okkur sjálf eins og við erum.“

Smám saman hafi opnast fleiri dyr

Valgeir segist hafa farið óhefðbundnar leiðir en hafi einnig notast við aðstoð svokallaðra fagaðila. Hann segir að smám saman hafi opnast fleiri dyr og hann hafi komist að því að heimurinn sé svo miklu stærri en þessi litli heimur sem við hrærumst í frá degi til dags.

- Auglýsing -

„Stærsti sigurinn í mínu lífi er sigurinn yfir eigin egói. Þegar ég áttaði mig á því að það eina sem ég þurfti að gera, til að finna sanna auðmýkt og geta veitt ljósi og kærleika inn í vitund mína, var að sleppa takinu á mínu eigin egói. Átta mig á því að þær gjafir sem ég hef fengið eru ekki til þess að ég geti nært mitt eigið egó heldur er það hlutverk mitt í lífinu að gefa öðrum hlutdeild í mér og minni reynslu og bera ljósinu og kærleikanum vitni hvar sem ég er og hvert sem ég fer. Það er það mikilvægasta fyrir mér.

Hið innra ferðalag er ferðalagið til sjálfs sín og á því ferðalagi er ekki ólíklegt að hitta Guð á leiðinni

Yfir dyrum véfréttarinnar í Delfí á Grikklandi var letrað: „Þekktu sjálfan þig.“ Þetta hefur reynst manninum erfitt í gegnum aldirnar, en í þessari litlu setningu er falinn lykillinn að því flókna fyrirbæri að lifa lífinu lifandi í þeirri fullvissu að allt sé í guðdómlegri röð og reglu. Það er þess vegna óhætt að sleppa takinu á því sem við höldum að við getum stjórnað og treysta Guði eins og hver og einn skilur hann. Hið innra ferðalag er ferðalagið til sjálfs sín og á því ferðalagi er ekki ólíklegt að hitta Guð á leiðinni.“

Ákvað að sleppa takinu og treysta

Valgeir segist ekki vera þess umkominn að gefa öðrum ráð um hvernig best sé að lifa við góða andlega heilsu, en hann getur miðlað af sinni eigin reynslu.

„Við erum ólík þótt margt sameini okkur sem mannkyn, en það verður hver og einn að fara leiðina til sjálfs sín á eigin spýtur. Þegar nemandinn er tilbúinn þá mætir kennarinn. Ég ákvað að sleppa takinu og treysta. Treysta eigin mætti og eigin vanmætti. Treysta Guði og trúa því að alheimurinn gefi mér í réttu hlutfalli við það sem ég gef honum. Ég fer út í náttúruna, hugleiði, bið, umgengst fólk sem elskar mig án skilyrða, geri það sem ég get til að hjálpa öðrum, er til staðar fyrir þá sem ég elska; en ég má ekki gleyma því að ég er bara maður með þeim ágöllum sem fylgja. Ég veit líka að það eina sem þarf er kærleikur, umburðarlyndi, vinátta, ást, og hvað varðar allt hið veraldlega þá finnst mér best að hafa lífið einfalt. Hamingjan er falin í helgiskríni einfaldleikans. (Einn dagur í einu í Al-anon).

Það sem er á döfinni hjá Valgeiri er að halda áfram á þessari braut, en sem stendur er hann að skrifa barnaleikrit með söngvum. Fram undan er það verkefni að skrifa aðra bók sem verður á andlegum nótum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -