Föstudagur 29. mars, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Valinn af Andrew Lloyd Webber í hlutverk Óperudraugsins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Garðar Thór Cortes hefur ekki verið mikið í fréttum á Íslandi undanfarin ár en það þýðir þó engan veginn að hann hafi setið auðum höndum. Hann hefur verið að syngja aðalhlutverkið í söngleik Andrews Lloyd Webber, Love Never Dies, víða um Evrópu og túrað með söngleiknum um Bandaríkin. Og það sem meira er, Lloyd Webber handvaldi hann sjálfur í hlutverkið.

Nú er Garðar Thór kominn heim, búinn að kaupa hús í Vesturbænum og mun syngja hlutvek Alfredos í uppfærslu Íslensku óperunnar á La Traviata í vor. „Ég er ekki duglegur að auglýsa sjálfan mig, svo það vita fáir af þessu hér heima,“ segir Garðar Thór, hógværðin uppmáluð, spurður út í hlutverk hans í Love Never Dies. „En ég hef verið í burtu núna í þrjú ár. Fyrst var ég í Hamborg í ár að syngja í framhaldinu af Óperudraugnum eftir Andrew Lloyd Webber sem hann samdi fyrir um tíu árum. Verkið á að gerast tíu árum eftir að Óperudraugnum lýkur og heitir Love Never Dies.“

Tildrögin að því hvernig Garðar Thór fékk hlutverkið eru skemmtileg og segja mikið um það álit sem hann nýtur utan landsteinanna. Það var enginn annar en Andrew Lloyd Webber sjálfur sem heimtaði að hann tæki að sér þetta hlutverk.

„Já, hann sá mig syngja aðallag Óperudraugsins á tónleikum til heiðurs Elaine Paige í Royal Albert Hall tveimur árum fyrr og þá var Lloyd Webber í salnum, ásamt Cameron Mackintosh og Tim Rice og öllum þessum mönnum sem stjórna söngleikjabransanum á heimsvísu. Þegar Lloyd Webber fór baksviðs eftir sýninguna greip hann í umboðsmanninn minn og spurði hver þessi maður væri eiginlega, hann hefði aldrei heyrt mig eða séð fyrr en hann vildi bóka mig strax, áður en Cameron Mackintosh krækti í mig. Og upp úr því spratt þetta tækifæri að ég fór til Hamborgar og söng þar í ár.“

Eldsvoði í stíl við söguna

Eftir að sýningum lauk í Hamborg var Garðar Thór ráðinn, að frumkvæði Lloyd Webbers, til að syngja hlutverkið í uppfærslu á Óperudraugnum í París. Það ævintýri fékk þó sviplegan endi.

Garðar Thór viðurkennir að það hafi verið mikill heiður fyrir hann að þurfa ekki að mæta í neinar prufur heldur vera handvalinn af Andrew Lloyd Webber.

„Þetta var í leikhúsi alveg við Garnier-óperuna, þar sem Óperudraugurinn gerist, og það var svakalega mikið lagt í þessa sýningu,“ segir Garðar Thór. „Þetta var á þrjátíu ára afmæli Óperudraugsins en hann hafði aldrei verið settur upp í París, hvað þá á frönsku þótt sagan sé auðvitað frönsk. Ein aðalsöngleikjastjarnan á Broadway, Sierra Boggess, var fengin til að syngja á móti mér og við æfðum stíft í nokkrar vikur.

- Auglýsing -

Æfingarnar gengu vel en viku fyrir frumsýningu kviknaði í leikhúsinu og sviðið brann, sem er mjög viðeigandi því í sögunni kveikir draugurinn í Garnier-óperunni. En þetta varð til þess að ekkert varð úr sýningunni en það er þó enn draumur hjá Andrew að setja hana upp í París. Það verður þó varla alveg á næstunni.“

Bruninn í leikhúsinu olli því að Garðar Thór kom heim og tók að sér ýmis verk sem umboðsmaður hans fann með stuttum fyrirvara. En óperudraugsævintýrið var þó ekki á enda því gengið hafði verið frá samningum um að hann myndi syngja hlutverkið í sýningaferð með Love Never Dies um Bandaríkin og þangað fór hann í upphafi árs 2017.

„Lloyd Webber hefur sagt að Love Never Dies sé hans besta verk, að hann haldi mest upp á það  og það er hans ástríða að gera það sýnilegt sem víðast eftir að frumsýning þess í London fyrir tíu árum féll,“ útskýrir Garðar Thór.

- Auglýsing -

„En Bandaríkjaferðin var vel heppnuð og sem sagt; ég er búinn að vera að syngja Óperudrauginn, bæði í upprunalega verkinu og Love Never Dies, undanfarin þrjú ár.“

Garðar Thór viðurkennir að það hafi verið mikill heiður fyrir hann að þurfa ekki að mæta í neinar prufur heldur vera handvalinn af höfundinum. Hann verður meira að segja hálffeiminn þegar hann ljóstrar því upp að Andrew Lloyd Webber hafi sagt að ekki væri til betri Óperudraugur en Garðar Thór.

Ég hefði svo sem getað sagt við Friðrik Ómar að Andrew Lloyd Webber vildi fá mig á sama tíma, en ég er bara ekki þannig manneskja.

„Ég veit ekki hvort það er rétt hjá honum,“ segir hann. „En það er vissulega gaman að fá þessa umsögn frá honum sjálfum. Það var svo hringt í mig og ég beðinn um að koma fram á sýningu þar sem sett eru saman atriði úr öllum söngleikjum Lloyd Webbers í tilefni af því að sjálfsævisaga hans er að koma út. En þá var ég búinn að bóka mig hjá Friðriki Ómari til að syngja með honum á jólatónleikunum hans hérna heima svo ég neitaði. Ég hefði svo sem getað sagt við Friðrik Ómar að Andrew Lloyd Webber vildi fá mig á sama tíma, en ég er bara ekki þannig manneskja. Ef maður er búinn að bóka sig í eitthvað þá á maður að standa við það.“

Opnaði ekki munninn í þrjá mánuði

Garðar Thór hefur verið heima síðan í lok sumars og segist hafa ákveðið að taka sér gott frí eftir törnina.

„Ég hef verið stanslaust að í þrjú ár og þegar maður er í söngleikjum þá eru sýningar sex sinnum í viku og Love Never Dies-hlutverkið er sko tífalt þyngra en hlutverk draugsins í Óperudraugnum, hann er á sviðinu nánast allan tímann. Svo bættist auðvitað Ameríkutúrinn ofan á, maður var að syngja kvöld eftir kvöld og ferðast á frídögunum og ný herbergi, ný hótel, ný rúm og nýtt loftslag tekur rosalega á bæði raddlega og líkamlega, þannig að ég ákvað að þegar ég kæmi heim myndi ég ekki opna munninn í nokkra mánuði.

Maður var að syngja kvöld eftir kvöld og ferðast á frídögunum og ný herbergi, ný hótel, ný rúm og nýtt loftslag tekur rosalega á bæði raddlega og líkamlega.

Það er í rauninni bara mjög hollt. Þegar maður er að gera svona mikið verður maður að hugsa um röddina því hún verður að halda áfram. En ég er kominn á flug aftur og þótt það sé alltaf gott að vera í fríi er enn betra að byrja aftur.“

Garðar Thór býr með Elvu Dögg Melsteð og á einn son og þrjú stjúpbörn, tekur það ekki mikið á fjölskyldulífið að vera á þessu stöðuga flakki?

„Jú, það gerir það,“ segir hann einlægur. „Það er erfitt að vera svona lengi í burtu, sérstaklega þegar maður er svona mikill fjölskyldumaður eins og ég er. Þetta er allt í lagi þegar maður fer í einhverja stutta túra eða er í verkefni í nokkrar vikur eða mánuði einhvers staðar. Þá getur fjölskyldan komið út og tekið þátt. En þessi túr sem ég var í var ansi langur. Ég hef aldrei túrað svona áður en þetta var auðvitað „once in a lifetime“-tækifæri.

Það er erfitt að vera svona lengi í burtu, sérstaklega þegar maður er svona mikill fjölskyldumaður eins og ég er.

Þegar Andrew Lloyd Webber biður mann að syngja í Bandaríkjunum þá segir maður ekki nei. Það er svona svipað og ef Stephen Spielberg bæði mann að leika í bíómynd hjá sér. Þannig að ég sé alls ekki eftir því, en ég hef líka á sama tíma lært að þetta er eitthvað sem ég get ekki gert aftur, að vera svona lengi í burtu einn. Annaðhvort fer fjölskyldan öll eða enginn í svona langan tíma.“

„Þegar Andrew Lloyd Webber biður mann að syngja í Bandaríkjunum þá segir maður ekki nei. Það er svona svipað og ef Stephen Spielberg bæði mann að leika í bíómynd hjá sér.“

Bruninn í leikhúsinu í París var reyndar lán í óláni, að sögn Garðars Thórs, því þá komst hann heim, annars hefði hann verið í burtu samfleytt í þrjú ár.

„Ég var með góðar tryggingar svo þetta varð ekki fjárhagslegur skaði og ég gat verið heima um tíma og sungið héðan. Hamborgarárið og Bandaríkjaárið voru vissulega flókið púsluspil, en fjölskyldan kom oft út og ég samdi um það í báðum samningum að ég gæti komist heim og þau út. Elva er auðvitað í vinnu hér heima og getur ekki verið í burtu nema takmarkaðan tíma í einu, en hún kom út eins oft og hún gat, svo þetta blessaðist nú allt saman. Maður þarf oft að leggja ýmislegt á sig til að láta góða hluti ganga upp og við vorum alveg tilbúin til þess og vissum út í hvað við vorum að fara.“

Dvölin styttist vegna krabbameins

Álagið jókst enn þegar Elva Dögg greindist með krabbamein og Garðar Thór játar fúslega að það hafi verið óskaplega erfitt að geta ekki verið heima á þeim tíma.

„Að vera að syngja sex sinnum í viku, á eilífum ferðalögum milli staða og vera með betri helminginn veikan heima, það var ekki gott,“ viðurkennir hann. „Ég fékk meira að segja að stytta aðeins dvöl mína úti vegna aðstæðnanna heima og sem betur fer var fullur skilningur á því. Nú er hún laus við krabbameinið og allt gengur vel, en auðvitað er fólk alltaf lengi að ná sér eftir svona. En hún er byrjuð að vinna aftur og við erum mjög bjartsýn.“

Nú er hún laus við krabbameinið og allt gengur vel, en auðvitað er fólk alltaf lengi að ná sér eftir svona.

Nýlega festi fjölskyldan kaup á bláu húsi í Vesturbænum og er í óða önn að lagfæra það og koma sér fyrir þegar viðtalið fer fram skömmu fyrir jól. Garðar Thór á varla orð til að lýsa því hve ánægður hann er með það.

„Við erum hér alveg í himnaríki,“ segir hann og hlær. „Það er að vísu rafvirki enn að vinna hérna og málararnir eru ekki alveg búnir, en þetta er dásamlegt. Við keyptum í ágúst og fluttum inn nokkrum vikum seinna og þurftum auðvitað að laga ýmislegt eins og alltaf þegar maður flytur á nýjan stað. Við erum smátt og smátt að gera húsið að okkar en það er ekki alveg komið. Elva er með betra auga fyrir innanhússhönnun en ég og ég geri mér fulla grein fyrir því en það kemur samt fyrir að ég get komið með góða punkta. Og nú er þetta orðið ægilega fallegt og voðalega mikið okkar.“

Aðdáendur Nonna mæta á sýningar um allan heim

Hvað er svo fram undan hjá Garðari Thór?

„Eftir að jólatörninni lýkur fer ég að æfa í La Traviata hjá Íslensku óperunni,“ segir hann. „Svo er ýmislegt í bígerð sem ég get ekki talað um enn en það er nóg að gera. Mér finnst líka hvergi betra að vera en á sviði að syngja og leika fyrir áhorfendur. Leiklistarbakterían greip mig ungan og ég hef aldrei losnað við hana síðan.“

Þar vísar Garðar Thór til hlutverks síns sem Nonna í sjónvarpsþáttaröðinni Nonni og Manni þegar hann var fjórtán ára. Þættirnir hafa notið gríðarlegra vinsælda í Evrópu og nú er einmitt verið að endursýna þá á RÚV. Hefur hann horft á þættina eftir að hann varð fullorðinn?

Garðar Thór segir að vissulega sé til fólk sem hafi fylgst með honum alveg síðan hann lék í þáttunum Nonna og Manna og hann fái enn skilaboð og tölvupósta frá fólki sem er hrifið af þáttunum.

„Nei, en ég hef séð þá,“ segir hann. „Ég sá þá auðvitað þegar þeir voru frumsýndir og ég man hvað ég var stressaður en fannst það um leið mjög gaman. Ég er mjög stoltur af þessu og við Einar og Jói, sem vorum Nonni og Manni og Júlli smali, erum enn bestu vinir í dag.“

Spurður hvort fólk kannist enn við hann sem Nonna úr þáttunum segir Garðar Thór að vissulega sé til fólk sem hafi fylgst með honum alveg síðan þá og hann fái enn skilaboð og tölvupósta frá fólki sem er hrifið af þáttunum.

„Nú eru náttúrlega ekki lengur send aðdáendabréf í pósti en ég á enn nokkur síðan í gamla daga en það koma enn þá skilaboð og vinabeiðnir og einhvers konar kontakt á Netinu varðandi það að fólk man eftir mér úr Nonna og Manna og er aðdáendur. Til dæmis var ég um daginn að syngja í Salnum í Kópavogi og þá var þar kona sem hafði flogið til Íslands frá Þýskalandi gagngert til að sjá mig á þessum tónleikum af því að hún sá mig fyrst í Nonna og Manna og hefur síðan fylgst með mínum ferli, kom til Hamborgar til að sjá mig og flaug alla leið til Kaliforníu til að sjá mig syngja í Love Never Dies þar. Meira að segja var hún búin að kaupa flugmiða til að sjá mig syngja í París. Það voru reyndar margir sem gerðu það en svo brann leikhúsið og ekkert varð af því, eins og áður sagði. Hún er reyndar ekki sú eina, það eru margir sem fljúga út um allan heim til að sjá mig syngja af því að þeir sáu mig fyrst í Nonna og Manna. Mér þykir voðalega vænt um það.“

Einn á hótelherbergi um jólin

Nú eru áramótin yfirvofandi og við hnýtum slaufu á viðtalið með spurningunni hvort Garðar Thór sé mikill áramótamaður og hvaða hefðir fjölskyldan hafi í áramótahaldi.

„Ég er mikill jólamaður,“ segir hann ákveðinn. „Jólin eru uppáhaldstíminn minn og í rauninni þá líka áramótin. Ég verð bara oft svo meyr um áramótin. Þá er árið liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka, eins og segir í ljóðinu. Sá texti snertir mig alltaf og ég klökkna. En samt er það líka jákvætt að nýtt ár sé að byrja og allt fram undan mjög spennandi. Ég hef alltaf verið mun meira fyrir jólin enda eru hátíðirnar mikill fjölskyldutími sem skiptir mig miklu máli. Um síðustu jól var ég til dæmis einn uppi á hótelherbergi í New York og á gamlársdag og nýársdag var ég að syngja sýningar, ég man ekki einu sinni í hvaða borg í Bandaríkjunum við vorum akkúrat þá. Í Hamborg var ég líka einn, sat einn í sófa í íbúðinni minni og horfði á vídeó. Ég hef svo oft verið í burtu einn um jól og áramót og það vil ég aldrei gera aftur. Fjölskyldan er alltaf númer eitt, tvö og þrjú hjá mér og ég hlakka alveg óskaplega til að verja hátíðunum með henni í þetta sinn.“

Um síðustu jól var ég til dæmis einn uppi á hótelherbergi í New York og á gamlársdag og nýársdag var ég að syngja sýningar.

En hvernig leggst nýja árið í þig?

„Mjög vel. Ég reyni nú alltaf að vera jákvæður og líta björtum augum til framtíðar og það gerist sem gerist. Það er alltaf einhver sem hugsar um okkur og leiðir okkur áfram og ef maður hefur það að leiðarljósi þarf ekki að hafa neinar áhyggjur.“

„Fjölskyldan er alltaf númer eitt, tvö og þrjú hjá mér og ég hlakka alveg óskaplega til að verja hátíðunum með henni í þetta sinn.“

Ertu mjög trúaður?

„Já, ég er trúaður,“ segir Garðar Thór. „Ég er sjöunda dags aðventisti, við erum það öll fjölskyldan. Sumir halda að það sé einhver sértrúarsöfnuður en það er í rauninni bara eins og önnur kristin trú, eini munurinn er sá að við förum í kirkju á laugardögum, ekki sunnudögum. Laugardagurinn er sjöundi dagur vikunnar svo þaðan kemur nafnið á söfnuðinum, sem mörgum finnst svo óskiljanlegt. Þetta er auðvitað flokkað sem sértrúarsöfnuður af því þetta er ekki þjóðkirkjan, en við trúum bara á það sem stendur í Biblíunni eins og annað kristið fólk. Guð hjálpar mér alltaf og leiðir mig og ef maður treystir honum þá leysist allt þótt eitthvað komi upp á. Það virkar alla vega þannig fyrir mig.“

Guð hjálpar mér alltaf og leiðir mig og ef maður treystir honum þá leysist allt þótt eitthvað komi upp á.

Æfingar á La Traviata hefjast fljótlega eftir áramótin og frumsýningin verður í mars. Garðar Thór mun þó ekki syngja Alfredo á frumsýningunni heldur Elmar Gilbertsson. Hvers vegna er það?

„Við Elmar skiptum hlutverki Alfredos á milli okkar, hann fær fyrstu þrjár sýningarnar og ég fæ síðustu þrjár,“ útskýrir Garðar Thór. „Svo verður sýningin tekin upp fyrir sjónvarp og ég mun syngja í þeirri upptöku. Það getur vel verið að ég fari eitthvert út að syngja í byrjun árs, það er alltaf eitthvað sem kemur upp með stuttum fyrirvara, eins og þetta dæmi með Andrew Lloyd Webber sem hringdi tveimur vikum áður en sýningin átti að vera. Það er nú reyndar bara hann.

Ég er reyndar ekki mjög góður í því að láta vita af mér, samanber að ég hef verið að syngja Óperudrauginn í þrjá ár án þess að eiginlega nokkur vissi af því.

Hann getur leyft sér allt sem hann vill og fólk stekkur bara til og losar sig úr öðrum verkefnum. Þannig að það er aldrei að vita hvað verður á nýju ári. Það standa yfir ýmsar samningaviðræður hjá fólkinu sem vinnur fyrir mig í Englandi og Bandaríkjunum og ég treysti því fullkomlega fyrir því að finna eitthvað gott. Þið fréttið eflaust af því þegar þar að kemur. Ég er reyndar ekki mjög góður í því að láta vita af mér, samanber að ég hef verið að syngja Óperudrauginn í þrjá ár án þess að eiginlega nokkur vissi af því. Ég veit að maður á að láta vita meira af sér en mér finnst það sem ég er að gera ekkert merkilegra en það sem aðrir gera og sé ekki ástæðu til að troða mínum afrekum upp á fólk. En þið fréttið af mér, ég lofa því.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -