Fyrrverandi landsliðskonan og hinn margreyndi þjálfari, Vanda Sigurgeirsdóttir, ætlar að bjóða sig fram til formanns KSÍ á næsta ársþingi sambandsins sem fram fer í febrúar á næsta ári.
Eins og kunnugt er þá lét Guðni Bergsson af störfum sem formaður sambandsins í lok ágústmánaðar eftir að sambandið hafði verið harðlega gagnrýnt fyrir þöggun og meðvirkni með meintum gerendum innan sambandsins.
„Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til formanns Knattspyrnusambands Íslands,“ skrifaði Vanda í facebook-færslu sem hún birti í morgun.
„Ég hef fengið fjölda áskorana frá fjölskyldu og vinum, frá fjölbreyttum hópi fólks í samfélaginu og úr knattspyrnuhreyfingunni sjálfri. Ég er mjög þakklát fyrir þessa hvatningu. Þetta var ekki einföld ákörðun en af vandlega íhuguðu máli ákvað ég bjóða mig fram.
Mér þykir vænt um þessa hreyfingu og hef verið partur af henni stóran hluta ævi minnar. Ég tel að ég sé vel til þess fallinn að leiða þá vinnu sem framundan er.“.
Vanda á glæsilegan knattspyrnuferil að baki og er þaulreyndur þjálfari sem lék 37 A-landsleiki fyrir kvennalandsliðið þar sem hún skoraði eitt mark og þá varð hún níu sinnum Íslandsmeistari með Breiðabliki á ferlinum.