2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Var með eina og hálfa manneskju utan á sér

Tómas Þór Þórðarson hefur verið ráðinn til að stýra þætti um enska boltann þegar Sjónvarp Símans tekur við útsendingum frá ensku deildunum í sumar. Hann segist vera ánægður með nýja starfið, þótt hann sé í eðli sínu lítið gefinn fyrir breytingar. Fáir hafa þó gert meiri breytingar á lífi sínu en hann undanfarin ár því árið 2014 var hann orðinn 225 kíló og átti erfitt með að hreyfa sig en er í dag 105 kíló og í fínu formi. Hann segir breytinguna jafnast á við að losna úr fjötrum.

Tómas er heima að vaska upp þegar Mannlíf nær tali af honum en hann er enn í fullu starfi sem íþróttafréttamaður á Stöð 2 Sport og verður það fram á sumarið þegar hann flytur sig um set yfir á Símann.

„Ég fékk tilboð um að ritstýra enska boltanum hjá Símanum eftir að þeir keyptu réttinn á útsendingum. Enski boltinn hefur verið á Stöð 2 Sport ansi lengi og þeir hjá Símanum voru í leit að einhverjum til að vera aðallýsir og ritstýra enska boltanum. Eins og frægt er orðið leituðu þeir fyrst til Gumma Ben en það gekk ekki þannig að ég var næstur á blaði hjá þeim. Ég var ekkert ósáttur við það að vera „second choice“, ég get alveg sætt mig við það hlutskipti í lífinu að vera næstur á eftir Gumma Ben,“ segir Tómas og hlær.

Fékk ekki krónu fyrstu árin

Tómas hefur verið lengi í íþróttafréttamennskunni, byrjaði strax á unglingsaldri að skrifa um leiki á heimasíðu síns félags, Víkings. En hvað kom til að hann tók þá ákvörðun að gera þetta að ævistarfi?

AUGLÝSING


„Ég hef alltaf haft brjálaðan áhuga á íþróttum og ég held ég hafi alltaf vitað innst inni að þetta yrði framtíðarstarf mitt. Á þeim tíma var ekkert auðvelt að komast í starfið, held það sé auðveldara í dag, en þetta var árið 2007 og ég byrjaði með því að skrifa á fotbolti.net og hef haldið tryggð við þá síðan, meira að segja verið með útvarpsþátt í þeirra nafni í tíu ár. Ég fékk ekki krónu borgaða fyrstu árin en var mjög metnaðarfullur, mætti á alla landsleiki og fullt af öðrum leikjum og skrifaði um þá og þá fóru einhverjir að taka eftir mér. Ég átti ágætis félaga sem heitir Benedikt Bóas og þegar það losnaði staða hjá honum á DV 2008 fór ég þangað. Settist við skrifborð þar 2. janúar 2008 í mínu fyrsta starfi sem blaðamaður á launum og hef síðan verið í þessu starfi í rúm ellefu ár.“

Frá DV fór Tómas yfir á Morgunblaðið, þar sem hann var í rúm tvö ár en þá fékk hann tilboð um starf hjá Fréttablaðinu og þrátt fyrir að líka vel á Mogganum endaði með því að hann tók því. „Ég kunni vel við mig á Mogganum og ætlaði ekkert að fara þaðan en 365 miðlar sóttu hart að fá mig yfir til sín og buðu mér hærri laun, þannig að ég bað um mjög litla kauphækkun hjá Mogganum til að vera þar áfram en yfirmenn þar höfðu ekki þá framtíðarsýn að halda mér. Það var í rauninni allt gott á Mogganum nema æðstu yfirmenn á þeim tíma. Þannig að ég gekk þaðan út, svolítið vonsvikinn yfir því að þeir vildu ekki halda í mig, og fór yfir á Fréttablaðið og Vísi í byrjun febrúar 2014 og hef verið þar síðan. Fylgdi svo Vísis- og Stöðvar 2 Sport-pakkanum yfir til Sýnar.“

„Það var í rauninni allt gott á Mogganum nema æðstu yfirmenn á þeim tíma.“

Hvernig leggst í þig að skipta um vinnustað eftir svona langan tíma á sama stað?

„Ég er náttúrlega að fara inn í nýtt fyrirtæki, í nýjar höfuðstöðvar með nýju fólki, þannig að maður þarf að fara í nafnaleikinn aftur,“ segir Tómas og glottir. „Það leggst bara vel í mig þótt ég sé í grunninn enginn maður breytinga og finnist mjög þægilegt að vera í því sem ég þekki. Ef ég fengi alltaf að velja í lífinu vildi ég helst bara borða það sama, vinna við það sama og gera það sama. Þetta eru reyndar kannski smáýkjur en mér líður mjög vel þar sem ég er en svona gerast bara kaupin á eyrinni í þessum bransa og ég er mjög sáttur.“

Búinn að missa 120 kíló

Talandi um breytingar, fáir menn hafa breytt lífi sínu á eins róttækan hátt og Tómas hefur gert undanfarin ár. Átak í Meistaramánuði 2014 dróst á langinn og endaði með því að hann er búinn að missa 120 kíló. Það hljómar ekki eins og einhver sem er ekki hrifinn af breytingum. „Það er satt,“ segir hann. „Ég er ekki alveg sami maðurinn og ég var í október 2014, eiginlega bara allt annar maður, alla vega útlitslega. Ég held samt að ég hafi ekki breyst mikið sem persóna, nema eitthvað aðeins til batnaðar. Ég er alveg sami gæinn en lífið er hollara og töluvert bjartara eftir þessar breytingar.“

Tómas Þór hefur verið lengi í íþróttafréttamennskunni, en hann byrjaði strax á unglingsaldri að skrifa um leiki á heimasíðu síns félags, Víkings, og kemur nú til með að stýra þætti um enska boltann.

Spurður hvenær offitan hafi orðið vandamál fyrir hann veltir Tómas svarinu fyrir sér dágóða stund. „Ég hef oft pælt í því hvað má kalla vandamál,“ segir hann.

„Ég hef verið þybbinn eða feitur allt mitt líf, ég var voða sætur með krullur og svona þegar ég var lítill en alltaf bústinn. Svo man ég að tveir kennarar mínir höfðu orð á því í tíunda bekk að ég væri kannski orðinn of feitur. Það var í fyrsta sinn sem einhver skipti sér af því hvað ég þyngdist mikið. Þeir reyndu ekkert að leiðbeina mér, höfðu bara svona orð á þessu en ég lét það sem vind um eyru þjóta. Sem unglingur vann ég nokkur sumur hjá Vegagerðinni, þar sem pabbi minn var að vinna í um fjörutíu ár, og þar vann ég á risastóru plani sem lá í brekku þannig að ég þurfti mikið að rölta hingað og þangað til að sækja timbur, gera og græja. Þarna var ég um tvítugt og farinn að fá í bakið ef ég gekk mikið en ég tók það ekkert alvarlega og hélt bara áfram og áfram án þess að gera nokkuð í málinu, sama þótt foreldrar mínir og fleiri væru að reyna að hjálpa mér að gera breytingar. Vegna þess að ég tók þyngdaraukningunni ekki alvarlega varð ástandið að lokum grafalvarlegt, hélt bara áfram að versna næstu tíu árin þangað til ég var orðinn eins og lítil pláneta. Síðast þegar ég leit á vigtina áður en ég tók mig á var ég 225 kíló þannig að ég miða við það.“

Tómas upplýsir að í dag sé hann 105 kíló. Það eru sem sagt 120 kíló fokin, eins og áður segir, og hlæjandi segist Tómas nú ekki sakna þeirra mikið. „Ég sakna sumra hluta í mínu lífi en ég sakna ekki þessarar einu og hálfu manneskju sem ég bar utan á mér. Hins vegar verður maður ekki svona stjarnfræðilega stór án þess að glíma við hluti eins og matarfíkn og alveg ofsafengna leti þannig að ég segi stundum við kærustuna mína að ég sakni þess að geta ekki straujað niður einni 16 tommu pítsu eins og ekkert sé. Þetta er sagt bæði í gríni og alvöru en í raun og veru sakna ég þess ekki því ef ég hefði ekki farið í magaermiaðgerð og gæti enn þá borðað eins og ég borðaði áður þá væri ég ekki búinn að ná þessum árangri.“

„Var fastur inni í mér, horfandi út

Spurður hvort offitunni hafi fylgt þunglyndi, setur Tómas fyrirvara. „Ég vil ekki hafa orðið þunglyndi í flimtingum,“ segir hann. „Ég hef aldrei verið greindur með þunglyndi en auðvitað var maður andlega þungur. Sérstaklega árið 2014 þegar ég náði botninum. Allt það ár upplifði ég mikla vanlíðan, fór ekki á fætur fyrr en rétt áður en ég átti að mæta í vinnuna á kvöldvakt klukkan fjögur. Ég bara komst ekki fram úr rúminu og fannst allt voðalega ómögulegt. Ég lifi að stórum hluta fyrir íslenska fótboltann en var hættur að geta farið á völlinn. Það var algjör kvöl og pína að þurfa að horfa á leikina í sjónvarpinu eins og auli.“

Tómas segist ekki síst þakka hvatningu frá fólkinu í kringum hann að hann skyldi að lokum ákveða að prófa að taka mataræðið í gegn.

„Þessi mynd er tekin árið 2016, þá var ég búinn að missa 60 kíló.“

„Allt í kringum mig var fólk sem vissi hvað í mér bjó, hvað ég gat og get varðandi vinnuna. Alveg frá því að ég lýsti mínum fyrsta leik hef ég fundið hvað það á vel við mig og ég geri það vel, eins og sést kannski á því að nú er verið að kaupa mig til að lýsa enska boltanum sem tugþúsundir horfa á – svo eitthvað hef ég verið að gera rétt. Ég hef kannski ekki mesta sjálfstraust í heimi, út af mínum komplexum í gegnum tíðina. Ég var alltaf að líta í kringum sig til að gá hvort einhver væri að benda á mig eða tala um mig sem byggði upp óöryggi og gerði mér erfitt fyrir að vera eitthvað breimandi af sjálfstrausti út á við.

„Það vill enginn horfa á mann sem er 225 kíló.“

En samt sem áður þá hef ég alltaf vitað að í þessum eina geira, að minnsta kosti, þá get ég fjallað og talað um íþróttir og lýst þeim. Ég hef það, en gat aldrei verið fyrir framan myndavél, bara lýst leikjum þar sem enginn möguleiki var á að ég þyrfti að vera í mynd. Það vill enginn horfa á mann sem er 225 kíló. Ég vissi samt að ég gat það og vissi líka að það voru fleiri á þeirri skoðun þótt ég væri ekki líkamlega í standi til þess. Það olli mér vanlíðan að vita hvað ég gat en þurfa að horfa á það líf sem ég gæti átt í gegnum einhverja rimla. Ég var bara fastur inni í mér, horfandi út. Og sem betur fer braust ég á endanum út og er núna með tvo sjónvarpsþætti auk þess að lýsa oft beinum útsendingum og hef átt alveg frábær ár undanfarið.“

Brenndur eftir fyrstu höfnunina

Þegar ég spyr Tómas hvað hafi að lokum ýtt honum út í að fara að gera eitthvað í sínum málum, hvort hann hafi orðið ástfanginn eða eitthvað, fer hann aftur að hlæja. „Nei, það kom síðar og hefur gert endalaust af hlutum fyrir mig líka,“ segir hann og brosir út að eyrum.

„Ég veit eiginlega ekki alveg hvað gerðist en í októbermánuði 2014 ákvað ég, meira í gríni en alvöru, að taka þátt í Meistaramánuði, sem er reyndar konsept sem ég hef gert grín að í gegnum tíðina. Það bara virtist ekki óyfirstíganlegt að borða ekki ógeðslega óhollan mat eða nammi og drekka ekki sykrað gos í einn mánuð. Það gekk upp en þegar þú ert svona feitur og færð þér til dæmis epli í staðinn fyrir Snickers í vinnunni hafa allir skoðun á því og vilja endilega ræða það við þig, sem er það versta sem fólk í minni stöðu getur lent í. Ég veit að þetta er vel meint og fólk er boðið og búið til að hjálpa þér og styðja þig, en maður þarf ekki komment á hvern einasta hlut sem maður gerir ef maður er að reyna að taka sig á. Þetta var auðveldara undir yfirskininu Meistaramánuður. Það kostaði færri komment frá fólkinu í kring sem var gott, maður vill byrja þessa ferð með sjálfum sér.“

„Það gekk upp en þegar þú ert svona feitur og færð þér til dæmis epli í staðinn fyrir Snickers í vinnunni hafa allir skoðun á þv.“

Til að gera langa sögu stutta þá gekk Tómasi ágætlega að halda sig frá óhollustunni í einn í mánuð þannig að hann ákvað að framlengja Meistaramánuðinn einn mánuð í einu þangað til hann var búinn með eitt meistaraár, tók mataræðið í gegn, hætti að borða sælgæti og drekka gos á kvöldin og, eins og hann segir sjálfur, fór bókstaflega að geta gengið aftur án þess að þurfa að setjast og hvíla sig eftir 50-60 metra. Hann segir kílóin ekki hafa hrunið af sér en honum hafi liðið betur og líkaminn hafi verið betur á sig kominn. Það sem gerði svo útslagið var að hann komst að sem hugsanlegur kandidat í magaermisaðgerð, sem honum hafði árið áður verið neitað um á þeim forsendum að hann væri of feitur.

„Það voru mjög erfið skilaboð að vera sagt að maður væri of feitur til að geta fengið hjálp við offitu,“ segir hann. „Ég harðneitaði fyrst að fara aftur til læknisins, sagði við foreldra mína sem höfðu sett þetta ferli aftur í gang, að ég væri bara enn þá svo brenndur eftir höfnunina frá honum, ég gæti ekki meðtekið aðra höfnun. Þau ráku mig samt til hans og þótt ég væri ekki búinn að losna við nema tíu kíló og væri því enn of þungur til að fara í aðgerðina sjálfa sagði hann að þetta liti mun betur út. Ég fékk bolta með vatni í magann og var með hann í tvo mánuði, missti tuttugu kíló og var þá gjaldgengur í aðgerðina sem ég fór í í mars 2016. Síðan hafa kílóin bara verið á strauinu niður.“

„Sturtaði frá mér þrítugsaldrinum með mat

Spurður hver stærsta breytingin sé eftir að kílóin fuku dæsir Tómas og segir að það sé einfaldlega allt. Hann hafi til dæmis getað farið til útlanda í fyrsta skipti í mörg ár og nú geti hann gengið um allt, hafi til dæmis gengið 16 kílómetra á einum degi í New York fyrir skömmu. Mesta breytingin sé þó kannski sú að þurfa ekki lengur að vera að fela vandann og ljúga því að fólkinu sínu að hann sé að taka sig á.

Fáir hafa gert meiri breytingar á lífi sínu og Tómas. Árið 2014 var hann orðinn 225 kíló og átti erfitt með að hreyfa sig en í dag er hann 105 kíló og í fínu formi.

„Ég var alltaf að ljúga því að ég væri að gera eitthvað í þessu,“ segir hann. „Það er mjög erfitt að vera í endalausum blekkingaleik, aðallega við sjálfan sig auðvitað, en líka þá sem standa manni næst. Lygar og feluleikir eru algjörlega órjúfanlegur hluti af fíknihegðuninni og það er alveg ótrúlegt hvað það er erfitt að fá hjálp við matarfíkn. Ég vona samt að það sé komið eitthvað lengra núna en það var á þeim árum. Ég fór endalaust til næringarfræðinga og lækna sem allir höfðu sína lausn á vandamálinu og ég get alveg sagt að ég var í undirbúningsvinnu fyrir þetta í tuttugu ár. Ég vissi alltaf hverjar hætturnar voru og hvað gæti gerst, var búinn að fá allar upplýsingar um hvað ég ætti að gera og hvernig ég ætti að nærast, ég bara fór aldrei eftir því sem mér var sagt fyrr en ég loksins tók mig á.“

Komum aftur að því hver er stærsta breytingin?

„Já, á rosalega skömmum tíma var ég farinn að geta gert alls konar hluti sem ég hafði ekki getað áður,“ útskýrir Tómas. „Ég hafði til dæmis ekki getað farið í vinnuferðir til útlanda síðan 2008 þegar ég fór á EM í Frakklandi 2016. Ég hafði bara einu sinni á þeim tíma farið í flug, í afmælisferð með pabba til Manchester 2014. Ég var bara fangi á Íslandi. Síðan ég fór í aðgerðina hef ég farið í endalausar flugferðir, bæði vegna vinnunar og til að skemmta mér með kærustunni. Og ég get gengið.

„Mér finnst ég engan tíma mega missa þar sem ég sturtaði frá mér þrítugsaldrinum með mat.“

Ég veit ekki hvort nokkur maður áttar sig á því hvernig það er að geta ekki labbað nema 60 metra í einu og geta ekki staðið í lappirnar meira en fjórar mínútur í einu án þess að þurfa að setjast, þannig að mér finnst næstum því eins stórkostlegt að geta gengið um allt eins og að sjá alla þessa stórkostlegu staði. Svo er ég náttúrlega kominn með minn eigin sjónvarpsþátt sem ég hélt að myndi aldrei gerast, það var verið að kaupa mig í aðra vinnu og ég er kominn í sambúð. Þannig að hlutirnir hafa gengið alveg rosalega hratt fyrir sig eftir að ég loksins komst í stand til að gera venjulega hluti í lífinu, ná frama í vinnunni og verða ástfanginn til dæmis. Mér finnst ég engan tíma mega missa þar sem ég sturtaði frá mér þrítugsaldrinum með mat, þannig að markmiðið er að reyna að gera eitthvað af viti á þessum blessaða fertugsaldri.“

Bara pláss í íþróttahjartanu fyrir Víking

En kom aldrei neitt annað starf til greina?

Hefurðu ekki áhuga á neinu nema íþróttum?„Eh, nei, eiginlega ekki,“ segir Tómas og skellihlær. „En ég hef áhuga á eiginlega öllum íþróttagreinum og þær eru ansi margar. Íþróttir eru mínar ær og kýr og ég veit alveg ótrúlega mikið um þær. Ég geri ekki upp á milli íþróttagreina, ef einhver getur unnið í leiknum þá hef ég áhuga.“

Íslenskum íþróttafréttamönnum er stundum legið á hálsi fyrir að halda með ákveðnum liðum í enska boltanum og ég dreg þá ályktun af sögu Tómasar um flugferðina til Manchester að hann sé stuðningsmaður Manchester United. Hann neitar því ekki, en segist þó alls ekki vera einhver eldheitur stuðningsmaður liðsins. „Það halda til dæmis margir að ég haldi með Southampton,“ segir hann sposkur. „Ég hef aldrei verið svo mikill stuðningsmaður að það hafi farið í taugarnar á fólki þegar ég er að lýsa leikjum. Ég hef bara pláss í íþróttahjartanu til að vera sturlaður stuðningsmaður eins liðs og það er Víkingur. Það er nógu mikil sorg og lítið af gleði hjá stuðningsmönnum þess liðs, þannig að ég hef einhvern veginn hvorki hjarta né taugar í það að hella mér út í stuðning við fótboltalið í útlöndum.“

Tómas er enn á Stöð 2 Sport, eins og fyrr segir, og verður þar fram í lok maí en þá fer hann yfir til Símans og hefur undirbúning að upphafi útsendinga á enska boltanum í byrjun ágúst. Eitthvað sem við getum öll hlakkað til.

 Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is