Fimmtudagur 28. mars, 2024
-3.2 C
Reykjavik

Varnir Sjálfstæðisflokksins féllu hver af annarri

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Allar tilraunir Sjálfstæðisflokksins til að gera lítið úr alvarleika dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu reyndust með öllu árangurslausar. Örlög Sigríðar Andersen voru ráðin um leið og dómur féll á þriðjudagsmorgun.

Forystumenn Sjálfstæðisflokksins virðast ekki hafa áttað sig á alvarlegum afleiðingum dóms Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) þegar fréttir bárust af honum á þriðjudagsmorgun. Sigríður Andersen dómsmálaráðherra sagði þann sama dag að Landsréttur væri starfhæfur og vísaði til þess að Hæstiréttur hafi talið skipunina lögmæta. Hún sagðist jafnframt njóta stuðnings innan ríkisstjórnarinnar. Það stöðumat var rangt.

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, fylgdi sömu línu þegar hann lýsti sig ósammála dómnum og sagði hann byggja á veikum grunni. Sagði hann engar forsendur hafa breyst síðan vantrauststillaga á hendur Sigríði var felld og að þingflokkurinn stæði þétt að baki henni. Var varla hægt að túlka þessi orð Birgis öðruvísi en skilaboð til hinna stjórnarflokkanna, einkum og sér í lagi VG sem áður hafði gengið í gegnum svipugöng í fyrri málsvörn fyrir Sigríði.

Birgir fullyrti einnig að Landsréttur gæti haldið áfram að starfa með eðlilegum hætti. Það stöðumat reyndist líka kolrangt enda liðu ekki nema nokkrar klukkustundir þangað til dómarar í Landsrétti ákváðu að fella enga dóma það sem eftir lifði vikunnar. Í millitíðinni hafði fjöldi lögspekinga stigið fram og lýst því yfir að millidómsstigið í landinu væri í fullkomnu uppnámi. Þessar tilraunir til að gera lítið úr alvarleika dómsins voru skotnar niður strax í upphafi.

Katrín kemur heim

Hvað stöðu Sigríðar varðar þá tók við langur sólarhringur þar sem beðið var eftir því að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kæmi til landsins frá New York á miðvikudagsmorgun. Katrín kaus að tjá sig ekkert um málið þegar fréttamenn sátu fyrir henni í Leifsstöð og aðrir þingmenn stjórnarliðsins héldu spilunum þétt að sér.

Á þessum tíma voru vangaveltur um framtíð stjórnarsamstarfsins. Vitað var að VG-liðar höfðu engan áhuga á að leggjast í aðra vörn fyrir Sigríði og ekki var vitað hversu langt þingflokkur Sjálfstæðisflokksins var tilbúinn til að ganga til að standa vörð um hana, þrátt fyrir yfirlýsingar Birgis daginn áður.

- Auglýsing -

Það kom þess vegna flatt upp á fjölmiðlamenn sem höfðu beðið fyrir utan herbergi þingflokka á miðvikudaginn, þegar Sigríður boðaði skyndilega til blaðamannafundar í dómsmálaráðuneytinu klukkan hálfþrjú. Þar tilkynnti Sigríður að hún hyggðist stíga tímabundið til hliðar þótt hún gæti ekki sagt til um hversu lengi það yrði. Stjórnmálaskýrendur útskýrðu skömmu síðar að hún hefði einfaldlega sagt af sér.

Þótt enginn hafi sagt það berum orðum þá má nokkuð ljóst vera að Katrín hafi einfaldlega stillt Sigríði og Sjálfstæðisflokknum upp við vegg. Þannig svaraði hún því ekki neitandi hvort stjórnarsamstarfið hafi verið í hættu og fáum ætti að dyljast hvað hún meinti með því þegar hún sagðist hafa „lýst yfir áhyggjum sínum“ af stöðunni í símtali við Sigríði á þriðjudagskvöld. Þá vildi hún ekki svara því hvort Sigríður eigi afturkvæmt í ríkisstjórn, jafnvel þótt Sigríður hafi gengið að því sem vísu á blaðamannafundi rétt áður. Í það minnsta hefur Katrín náð að sannfæra Bjarna um að stjórnarsamstarfið væri mikilvægara en pólitísk staða Sigríðar.

Jón Steinar gaf tóninn

- Auglýsing -

Það vakti einnig athygli að Sigríður notaði megnið af blaðamannafundi sínum í að réttlæta embættisfærslur sínar og um leið gagnrýna harðlega niðurstöðu MDE. Sagðist hún ekki láta það átölulaust að dómstólar, innlendir sem erlendir, yrðu notaðir í pólitískum tilgangi né að íslenskir dómstólar framselji sitt vald til túlkunar á erlendum lögum til erlendra dómstóla.

Bjarni Benediktsson talaði á sömu línu þegar hann gagnrýndi MDE og vísaði til þess að í Bretlandi færu fram líflegar umræður um hvort segja ætti Bretland úr MDE. Tóninn fyrir þessa umræðu gaf Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður og málafylgjumaður Sjálfstæðisflokksins, í pistli sem hann birti á vefsíðu sinni þar sem hann sagði að dómur MDE væri „ekkert minna en árás á fullveldi Íslands“.

Þessi ummæli Bjarna hafa fallið í grýttan jarðveg, bæði meðal forystumanna frjálslyndu flokkanna sem og innan þingliðs VG. Hvort Sjálfstæðisflokkurinn fylgi þessum orðum eftir eða hvort þetta sé eitthvað sem var sagt í hita leiksins verður tíminn að leiða í ljós.

Sjá einnig: Sigríður stígur tímabundið til hliðar – Dómi MDE verður áfrýjað

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -