2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Velgengni og velmegun Vals

Sagan á bakvið hinn mikla uppgang Knattspyrnufélagsins Vals á undanförnum árum er stór og mikil.

Staðan félagsins í dag er þannig að þrátt fyrir miklar áskoranir og erfiðleika hefur stofnun Valsmanna hf., og þær ákvarðanir félagsins að ráðast í fasteignaviðskipti á Hlíðarenda, skilað því að Knattspyrnufélagið Valur er langríkasta íþróttafélag á Íslandi.

Upphæðirnar sem runnið hafa inn til Knattspyrnufélagsins Vals frá styrktarfélögum á undanförnum árum hlaupa á hundruð milljónum króna alls og hafa gert Valsmönnum kleift að vera annaðhvort bestir eða á meðal þeirra bestu í öllum helstu hópíþróttum beggja kynja hérlendis: knattspyrnu, handbolta og körfubolta.

Heimildarmenn Kjarnans segja að virði þeirra heildareigna sem sitji eftir vegna alls þessa ævintýris sé nú áætlað um fimm milljarðar króna.

Hægt hefur verið að semja við eftirsótta leikmenn, borga þeim laun sem aðrir geta ekki keppt við og jafnvel boðið hluta þeirra að búa í einhverjum þeirra íbúða sem Valssamsteypan á enn á Valssvæðinu. Þetta er bæði gert með fjármunum sem runnið hafa til Vals vegna fjárfestinga á Hlíðarendasvæðinu en auk þess hafa sumir mjög fjársterkir stuðningsmenn tekið að sér að greiða kostnað við valda, og dýra leikmenn, úr eigin vasa.
Þá hefur Valur getað fjárfest í afreksstefnu sem er líklega sú metnaðarfyllsta á Íslandi og dregur að leikmenn sem alist hafa upp í öðrum íþróttafélögum. Hæfir þjálfarar sækja í að vinna hjá Val vegna þess að aðstaðan hjá félaginu er einstök, æfingatíminn er boðlegri en víða annars staðar og Valur getur alltaf borgað laun á réttum tíma, sem er sannarlega ekki eitthvað sem er raunin hjá mörgum öðrum íþróttafélögum.

Stefna að því að vera stórveldi í öllum hópíþróttum
Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og skýrasta birtingarmynd þess er karlalið félagsins í knattspyrnu sem hefur unnið fjóra titla á fjórum árum, þar á meðal Íslandsmeistaratitilinn síðustu tvö ár. Þótt hökt hafi verið á gengi liðsins í fyrstu umferðunum í ár blasir við að leikmannahópurinn sem var settur saman er þess eðlis að stefnt var að árangri í Evrópukeppni, auk sigurs í öllum innlendum keppnum. Jafnaugljóst er á kvennaliði Vals í knattspyrnu, sem er þéttskipað risanöfnum, að það stefnir að því að vinna allt sem um er keppt í sumar.

AUGLÝSING


Karla- og kvennalið Vals hafa landað stórum titlum, bæði Íslands- og bikarmeistaratitlum, á undanförnum árum og í ár varð kvennalið Vals Íslands-, bikar- og deildarmeistari í körfubolta með Helenu Sverrisdóttur, bestu körfuboltakonu landsins, í fararbroddi. Karlalið Vals í körfubolta hélt sæti sínu í efstu deild og viðmælendur Kjarnans sem þekkja vel til í körfuboltaheiminum búast við að liðið styrki sig verulega fyrir næsta tímabil til að keppa ofar í deildinni.

Milljarðaeignir
Sjálfseignastofnunin Hlíðarendi, sem hefur tekið við hlutverki Valsmanna hf., á að geta stutt gríðarlega vel við bakið á félaginu í framtíðinni ef haldið er vel á spilunum. Stofnunin átti, samkvæmt ársreikningi, 68,5 prósent hlut í Valsmönnum og áðurnefnt Valshjarta 10,7 prósent hlut í því félagi í árslok 2017. Eignarhlutur Hlíðarenda ses hefur aukist síðan þá enda hafa fleiri útistandandi hluthafar Valsmanna selt sinn hlut. Það sem eftir stendur er að mestu minni hlutir en virði hvers telst í tugum þúsunda. Mikil handavinna fylgir því að gera þá alla upp og ekki hefur verið lagt í hana. Eignir Hlíðarenda ses voru bókfærðar á 1,6 milljarð króna í árslok 2017 og eigið fé stofnunarinnar var 1,3 milljarður króna. Eignir Valsmanna hf. voru á sama tíma bókfærðar á 2,5 milljarða króna og eigið fé félagsins var þá samtals 722 milljónir króna. Þá eiga Valsmenn helmingshlut í hlutdeildarfélaginu Hlíðarfæti en hinn helmingurinn var seldur til fjárfesta sem standa að félaginu F-reitur ehf. á árinu 2017. Eignir Hlíðarfóts voru metnar á 722 milljónir króna í árslok 2017 en félagið að fullu skuldsett á móti.

Valsmenn hafa selt byggingarétti, byggt á Hlíðarendasvæðinu, annaðhvort sjálfir eða í samvinnu við aðra, hafa gert samninga við Reykjavíkurborg sem tryggt hafa ótrúlega uppbyggingu mannvirkja á svæði Vals og sitja enn á byggingarétti sem á eftir að selja.
Heimildarmenn Kjarnans segja að virði þeirra heildareigna sem sitji eftir vegna alls þessa ævintýris sé nú áætlað um fimm milljarðar króna. Á móti þeim eru þó einhverjar skuldir. Það er ágætis ávöxtun á þeim 43 milljónum króna sem greiddar voru inn í byrjun.
Um leið hafa Valsmenn líka skilað ýmsu til baka til samfélagsins. Félagið greiddi Reykjavíkurborg háar fjárhæðir fyrir byggingarréttinn á sínum tíma og hefur auk þess greitt um 400 milljónir króna í skatta á síðustu árum.

Sagan öll er rakin í nýjustu útgáfu Mannlífs. Einnig er hægt að lesa hana á vef Kjarnans.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is