Föstudagur 29. mars, 2024
4.8 C
Reykjavik

Verkfallsboðun ein og sér gæti leitt til fækkunar ferðamanna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Áhrif verkfalla líkleg til að leggjast þungt á ferðaþjónustu.

Jafnvel þótt ekki komi til verkfalla gæti verkfallsboðun stéttarfélaga ein og sér orðið til þess að erlendir ferðamenn afbóki ferðir til Íslands.

Algjör óvissa er uppi á íslenskum vinnumarkaði á meðan enn nást ekki samningar milli atvinnurekenda og launþega og forystumenn verkalýðshreyfingarinnar hafa enn ekki slegið verkfall út af borðinu. Mikið er undir, því kjarasamningar tugþúsunda starfsmanna eru lausir og því ljóst að verkföll hefðu mikil og lamandi áhrif á samfélagið.

Það er flókið mál að reikna út og greina þjóðhagsleg áhrif þess að fjölmennar stéttir launafólks leggja niður störf eins og raunin getur orðið. Það má þó ljóst vera að afleiðingarnar yrðu miklar enda telja aðildarfélög Starfsgreinasambandsins (SGS) um 57 þúsund félagsmenn. Útfærsla á mögulegum verkföllum er aukinheldur óljós, það er hvort um allsherjarverkfall verði að ræða eða afmörkuð skæruverkföll eins og formaður VR, Ragnar Þór Ingólfsson, hefur viðrað.

Karpað er um mörg atriði og ljóst er að allt þarf að ganga upp ef samningar eiga að nást. Venju samkvæmt er launaliðurinn fyrirferðarmestur en deilt er um önnur atriði á borð við tillögur Samtaka atvinnulífsins sem ganga út á að fella niður neysluhlé úr vinnutíma launafólks og vinnudagurinn styttist sem því nemur. Þá er lagt til að deilitala dagvinnu fari úr 173,33 tímum í 160 tíma og yfirvinnuálag breytist úr 80 prósentum í 66. Þessu til viðbótar liggur fyrir að SA vill að dagvinnutímabilið lengist með þeim hætti að hægt sé að vinna á dagvinnutaxta á tímabilinu 06.00 til 19.00 á kvöldin og að uppgjörstímabil til útreiknings á yfirvinnu verði á þriggja mánaða tímabili. Þessar hugmyndir hafa ekki hlotið hljómgrunn verkalýðshreyfingarinnar.

SA hafa lagt fram tilboð í kjaradeilunni sem verkalýðsfélögin liggja yfir og er svara að vænta frá þeim á fundi hjá ríkissáttasemjara í dag. En jafnvel þótt þessir aðilar nái saman eru fjölmörg atriði sem standa uppi á ríkisstjórnina að leysa svo að kapallinn gangi upp.

Viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar hafa verið hörð og Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar, stéttarfélags, kallaði skýringar bankaráðs Landsbankans á launahækkuninni „bull“.

Meirihluti tilbúinn í verkfall
Fréttir af 82% launahækkun bankastjóra Landsbankans voru síst til þess fallnar að lægja öldurnar. Viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar hafa verið hörð og Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar, stéttarfélags, kallaði skýringar bankaráðs Landsbankans á launahækkuninni „bull“ en hann leiðir viðræður SGS við SA sem snúa að störfum í ferðaþjónustu.
Í nýlegri könnun sem Gallup lét framkvæma meðal félagsmanna Eflingar, stéttarfélags kemur fram mikill stuðningur við kröfugerð félagsins. Tæplega 80% félagsmanna telja hana sanngjarna og sama hlutfall félagsmanna lýsir sig reiðubúið til að fara í verkfall til að knýja fram kröfur sínar.

- Auglýsing -
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar.

Verkfallsboðun ein og sér er sterkt vopn
Aðspurður um hvaða áhrif langvarandi vinnustöðvun gæti haft á þjóðarbúið svaraði Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, því til að þau gætu orðið mikil. Hann vakti þó sérstaklega athygli á því að ekki þyrfti að koma til vinnustöðvunar til þess að efnahagslegra áhrifa færi að gæta.

„Bara það eitt að boða verkfall getur strax farið að hafa mjög mikil áhrif, t.d. ef við lítum til ferðamannabransans. Við erum með mjög margt fólk sem starfar á hótelum.“

„Það ber að hafa í huga að það er alltaf aðdragandi að verkföllum. Það þarf að fara með þau í kosningu og svo er sjö daga lágmarksfrestur frá því að verkfall er boðað og þangað til það hefst. Á þeim tíma hafa samningsaðilar tækifæri til að bregðast við,“ segir hann og bætir strax við: „Svo er vert að hafa í huga að núna er það þannig hjá okkur í Eflingu að mjög stór hluti félagsmanna vinnur í geirum sem eru þannig að ekki þarf beinlínis að fara í verkfall. Bara það eitt að boða verkfall getur strax farið að hafa mjög mikil áhrif, t.d. ef við lítum til ferðamannabransans. Við erum með mjög margt fólk sem starfar á hótelum,“ útskýrir Viðar og bendir á að ákveðin lögmál gildi í t.d. hótelrekstri.

Gestir bóka gistingu gjarna með löngum fyrirvara og fréttir af yfirvofandi verkföllum eða öðrum þáttum gætu orðið til þess að fólk hugsi sig tvisvar um áður en það pantar gistingu. Þannig gæti í versta falli orðið talsverð fækkun á komum ferðamanna til Íslands. „Þannig getur verkfallsboðun ein og sér haft gríðarleg áhrif,“ segir Viðar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -