Íbúar í Vestubænum í Reykjavík segja húsin í hverfinu nötra og skelfa vegna sprenginga. Þeir eru sumir hverjir bæði hræddir og undrandi á ástandinu.
Þetta má sjá á umræðu hverfisbúa á Facebook þar sem rætt er um hinar dularfullu sprengingar. Það er Hildur nokkur sem stofnar til umræðunnar. „Er á Framnesvegi nálægt Vesturgötu. Getur einhver upplýst mig um hvaðan, eða útfrá hverju, sprengingarnar koma sem hafa komið nokkrum sinnum síðustu daga? Húsið skelfur og nötrar og nágrannar mínir hafa einnig hræðst og undrast þetta. Héldum fyrst að eitthvað þungt hefði dottið í húsinu en þetta eru greinilega/líklegast einhverjar útiframkvæmdir,“ segir Hildur.
Skýringin á sprengingunum kemur fljótlega fram í grúbbunni. Þar eru á ferðinni byggingaframkvæmdir á svokölluðu Steindórsplani þar sem verið er að sprengja fyrir húsgrunni. Búið var að vara við sprengingum í tilkynningu til íbúa. Þó ekki allra. „Ég fékk enga tilkynningu þó ég búi beint á móti. Hmm!,“ segir Guðrún.
Ella býr líka í nágrenninu og hún hefði viljað vera vöruð við fyrir hverja sprengju. „Bý líka á Framnesvegi, milli Holtsgötu og Vesturgötu. Ég heyri þó engin viðvörunarhljóð, eins og sagt var að kæmu rétt fyrir sprengingu,“ segir Ella.