„Við ættum bara ekkert líf ef við hefðum ekki upplifað áföll“

Deila

- Auglýsing -

Leikararnir Edda Björgvinsdóttir og Þórhallur Sigurðsson, eða Laddi, hafa verið þjóðareign í áratugi, sem er hreint ótrúlegt að segja af því að það eru tvö eldhress unglömb sem sitja á móti blaðamanni á Mokka á Skólavörðustíg einn eftirmiðdag í lok júní.

 

Samkvæmt lögum eru þau bæði orðin eldri borgarar, eða heldri borgarar ættum við kannski frekar að segja, en það hefur líklega aldrei verið jafnmikið að gera hjá þeim og núna þrátt fyrir aldurinn og fordæmalausa tíma það sem af er árinu, sem sáu þó til þess að dró úr verkefnum hjá þeim að einhverju leyti. Nú á föstudag lítur nýjasta verkefni þeirra ljós á stóra tjaldinu, kvikmyndin Amma Hófí, og þau segjast bæði vera bæði spennt og kvíðin fyrir útkomunni. „Gunnar Björn hringdi í mig fyrir þónokkrum árum síðan, þá var þetta nú bara á hugmyndastigi. Svo dróst þetta á langinn, það náðist ekki í pening og svona, en svo hafðist myndin fyrir rest,“ segir Laddi og brosir, aðspurður um aðkomu hans að myndinni. En er hún skrifuð með þau í huga?

„Já, mig grunar það,“ svarar Laddi.

„Já, ég gæti alveg trúað því vegna þess að það eru líka mörg ár síðan við sátum saman og fórum yfir,“ segir Edda. „Þá var Gunnar Björn að kynna fyrir  mér hugmyndina og mér fannst hún alveg svakalega skemmtileg og ég vissi að hann langaði að fá okkur saman í myndina. En þá var þetta allt á hugmyndastigi.“

„En hann var alveg örugglega með okkur í huga,“ ítrekar Laddi.

Gunnar Björn sem þau vísa til er Gunnar Björn Guðmundsson, sem bæði leikstýrir og skrifar handritið að Ömmu Hófí. Hann á að baki myndir eins og Astrópíu og Gauragang.

Tengdu við afa og ömmu í hlutverkunum

Í Amma Hófí leika þau eldri borgarana Hófí og Pétur, sem eru orðin olnbogabörn kerfisins, þau búa á hjúkrunarheimili í Hafnarfirði og eru bæði orðin dauðþreytt á þeim aðbúnaði sem boðið er upp á. Þau ákveða því að ræna banka til að geta keypt eigin íbúð.

Edda og Laddi eru bæði þaulvön í leik, en það má samt sem áður spyrja hvort þau hafi átt erfitt með að setja sig í karakter í hlutverkum sínum.

„Nei, nei, þetta var nú tekið upp í Hafnarfirði þannig að ég lék bara einn Hafnfirðing, afa minn,“ segir Laddi og hlær. „Mjög fyndið að þú skulir segja þetta,“ segir Edda, „af því að ég var í mjög góðri tengingu við ömmu mína sem var alltaf kölluð Amma á Hóli. Það var svolítið skemmtilegt að þegar fjölskyldan sá nafnið Amma Hófí þá lásu allir Amma á Hóli. Og ég fékk bara að heyra: „Guð minn góður, er gengið svona langt, er hún bara að leika ömmu okkar?“ segir Edda, og segir ömmu sína hafa verið ljóslifandi fyrir henni meðan á tökum stóð.

Eins og áður sagði eru sögupersónurnar eldri borgarar á hjúkrunarheimili, og það er því lag að spyrja hvort í myndinni felist ádeila á aðbúnað eldri borgara hér á landi. „Ég veit það nú ekki, kannski að einhverju leyti,“ svarar Laddi. Edda sem þekkir jafnvel betur til en Laddi, segir að kannski sé ekki um raunverulega ádeilu að ræða, þar sem fjölmörg og sífellt fleiri dvalarheimili séu eins og lítil heimili. Dvalar- og hjúkrunarheimilið Lundur er eitt af þessum dásamlegu heimilum fyrir eldri borgara þar sem fegurð og kærleikur umlykja allt.

„Það er liðin tíð að það að fara á elliheimili þýði að maður sé lokaður inni einhvers staðar og allir hætti að bera virðingu fyrir manni. En auðvitað er undirliggjandi að eldri borgurum er ekki gert kleift að lifa eins og þeim sýnist,“ segir Edda, sem skráði sig sem bakvörð í upphafi kórónuveirufaraldursins og hefur unnið á Lundi á Hellu. Þar er faðir hennar, Björgvin Magnússon, heimilismaður, og dóttir hennar, Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir, hjúkrunarforstjóri.

„Fólk ruglar oft saman dvalarheimili og hjúkrunarheimili. Á dvalarheimili ertu sjálfstæð manneskja í sjálfsstæðri búsetu sem getur nýtt þér alla þá þjónustu sem er í boði. Hjúkrunarheimili er hins vegar umönnunarheimili fyrir veika einstaklinga,“ segir Edda.

„Og það er það fyndna hjá Ömmu Hófi, hún heldur að hún sé að fara á eitthvað huggulegt dvalarheimili, þar sem hún getur farið í mat og látið dekra við sig eða eldað sjálf þegar hún vill.“

„Svo eru þau sett saman í herbergi, hún og Pétur, karl og kona,“ skýtur Laddi inn í.  „Og það er ekkert verið að pæla í því að það sé eitthvað óhentugt, „það er ekkert annað herbergi til, hvað er þetta, setjum bara skilrúm hér,““ segir Laddi með leikrænum tilþrifum.

Edda bætir við að dvalar- og hjúkrunarheimili sem hún þekki til séu mörg hver, sérstaklega þau sem nýrri eru, ævintýralega falleg híbýli, „þar er fólk í ofboðslegu öryggi, umhyggju og kærleika. En þeir sem vilja búa einir og sjálfir og ekki inni á stofnun, guð hjálpi þeim að lifa á því opinbera, og ellilífeyri og svo meira að segja þó að fólkið hafi borgað í lífeyrisjóð allt sitt líf. Hvaða forkastanlega glæpamennska er það að þú getir ekki fengið mannsæmandi til baka það sem þú ert búin að borga þar? Ég skil þetta ekki,“ segir Edda.

„Nei, það er óskiljanlegt,“ tekur Laddi undir. Og það er alveg ljóst að þeim finnst stjórnvöld ekki hugsa nógu vel um hag eldri borgara landsins.

„Þeir sem kjósa að búa sjálfir hafa kannski bara ekki efni á því. Við sjáum að þjóðfélagið sér ekki til þess að eldra fólkið sem byggði undir ríkidæmi þeirra sem eru ríkir, fái að halda reisn, til dæmis bara með því að fá mannsæmandi greiðslur úr sínum lífeyrissjóði svo ekki sé nú annað nefnt. Ellilífeyrir á að vera þannig að þú getir haft í þig og á, og kannski veitt þér sykurmola með kaffinu, en þar klikkar kerfið og það er til skammar,“ segir Edda með mikilli áherslu.

Það er ljóst að Edda hefur sterkar og ákveðnar skoðanir á hlutunum og því vert að spyrja hvort svo hafi alltaf verið eða hvort það sé bara eitthvað sem er tilkomið með árunum, svona með auknum aldri og þroska. „Ég er náttúrlega gamall hippi og „rebel“, ég er uppreisnarkona í eðli mínu, var í öllum uppreisnarhópum og ein af þeim sem stofnuðu Kvennaframboðið [árið 1982]. Ég hef alltaf verið í róttæka liðinu af því að það er svo margt sem þarf að breyta,“ segir Edda.

Edda Björgvinsdóttir Þórhallur Sigurðsson
Mynd / Hallur Karlsson

Skoðanir hennar á skipulagi miðbæjarins og færslur hennar á Facebook þar að lútandi hafa vakið mikla athygli, en Edda sem býr í miðbænum, vill að hann verði og þá sér í lagi Laugavegurinn verði sem mest miðaður að gangandi vegfarendum, en ekki bifreiðum.

„Ég hef búið meira og minna í miðbænum frá því ég byrjaði að búa, og búið á ótal stöðum í miðbænum. Það brennur á mér að hér skuli vera framin skemmdarverk, sem ætla að eyðileggja þessa þróun að einkabíllinn sé þar sem hann á að vera, einhvers staðar til hliðar og ekki í miðbænum. Það eru einhverjir sem berjast gegn því og með bull að vopni eins og það að traffíkin í miðbæinn hafi minnkað. Skoðið bara rannsóknir og tölur, verslun hefur aukist, mannlífið er fallegra og það er verið að fegra miðbæinn,“ segir Edda, sem segist alltaf hafa verið með sterkar skoðanir á umhverfi sínu. „Það hefur stundum komið sér illa, en það verður bara að hafa það.“

Hún segist sjaldnast nota Facebook til að vekja athygli á því sem hún er að gera í frístundum eða til að berjast pólitískri baráttu. „En það eru einstaka mál sem brenna á mér eins og miðbærinn. Ég þoli þetta ekki og þess vegna linni ég ekki látum en það sem ég er að berjast fyrir … leyfið mér að búa hér áfram í aukinni fegurð og friði fyrir mengun.“

Laddi segist vera mjög passívur og láta Eddu um baráttumálin. „Ég er bara þannig gerður, vissulega hef ég skoðanir á mörgum hlutum, en ég er bara mjög lítið í því að bera þær á torg og ræði þær ekkert á netinu,“ segir Laddi, en bætir við að hann sé á öndverðum meiði við Eddu um miðbæinn. „Ég sakna þess að geta ekki keyrt niður Laugaveginn, ég fer sjaldan núna því að það er búið að loka öllu. Einu sinni fór maður vikulega, keyrði niður Laugaveginn og tók rúntinn.“

Finna ekki fyrir neinni aldursmánun

Edda og Laddi eru bæði eldri borgarar; Edda varð 67 ára síðasta haust og Laddi 73 ára nú í janúar. Leikarar í Hollywood hafa margoft rætt um að hlutverkunum fækki eftir því sem árunum fjölgi, hafið þið orðið vör við það?

„Nei, alls ekki. Hjá konunum sérstaklega er oft talað um að hlutverkin verði færri eftir fertugt. Það var kannski þannig áður fyrr, en er það ekki í dag,“ segir Edda. Laddi segist ekkert hafa fundið fyrir slíku, og þau eru bæði sammála um að þetta hafi breyst með nýrri og yngri kynslóðum, nú séu skrifuð hlutverk t.d. í kvikmyndum með allan aldur í huga.

Grínið erfiðara en dramað

Þau eru bæði fyrst og fremst þekkt fyrir gamanleik, í sjónvarpsþáttum, kvikmyndum og á sviði, Laddi sem skemmtikraftur til margra ára og bæði fyrir þær ótalmörgu persónur sem þau hafa skapað í hlutverkum sínum á löngum ferli. Bæði hafa þó nýlega lagt dramaleikinn fyrir sig og hlotið mikið lof fyrir, bæði áhorfenda og gagnrýnenda, Edda í kvikmyndinni Undir trénu árið 2017, og Laddi í sjónvarpsþáttunum Jarðarförin mín nú í ár.

„Allir leikarar vilja láta reyna á allar hliðar á sér, það er enginn leikari sem vill vera öruggur og festast einhvers staðar í hlutverki. Þeir sem stjórna og biðja leikara að leika, það eru þeir sem draga mann út úr þægindahringnum sem aðrir, og samfélagið, eru búnir að ákveða að við séum í,“ segja þau, og bæta við að það hafi alls ekki verið stressandi að reyna við dramaleik.

„Einn gagnrýnandi spurði mig hvernig stæði á því að mér hefði aldrei verið boðið að leika dramahlutverk áður. Ég sagði við hann að ég hefði nú gert nokkra hluti mjög dramatíska, en hann hefði bara ekkert séð þá,“ segir Edda. „Ég skoraði á hann að spyrja dramaleikarana af hverju þeim hafi ekki verið boðið að leika gamanhlutverk, af því að þar reynir fyrst á, hann varð svo hissa á spurningunni að ég skildi hann bara eftir orðlausan.“

Edda Björgvinsdóttir Þórhallur Sigurðsson
Mynd / Hallur Karlsson

Ætluðuð þið alltaf að verða leikarar eða var plan B?

„Ég ætlaði aldrei að verða leikari. Ég byrjaði nú sem tónlistarmaður og það var meiningin að vera tónlistarmaður og myndlistarmaður, það var svona það sem ég ætlaði að verða,“ segir Laddi, og segist hafa verið tónlistarmaður í stuttan tíma. „Myndlistin varð að bíða og ég hugsaði að ég myndi geyma hana til elliáranna og hún er komin til sögunnar núna og er mjög skemmtileg, þetta er allt að gerast,“ segir hann og hlær, en fimm ár eru síðan Laddi sýndi myndirnar sínar fyrst opinberlega.

„Ég myndi nú alveg kalla þig tónlistarmann, þú átt ógrynni af lögum, Laddi. Svo kemur myndlistin mér á óvart, ég hafði ekkert séð hana,“ segir Edda. „Þú ert flottur myndlistarmaður og það er rosalega gaman þegar gamlir draumar rætast.“

Sjálf segir Edda að hún hafi séð fyrir sér að fara í sálfræði, eða jafnvel í kennslu þar sem faðir hennar var skólastjóri. „Ég sá fyrir mér að ég hefði farið að vinna við eitthvað í sambandi við mannleg samskipti. En þegar ég var krakki ætlaði ég alltaf að verða leikkona og það var mjög merkileg austurrísk leikkona sem sá það fyrir og þegar ég var sjö ára gömul spáði hún því að ég yrði einhvern tímann „fræg leikkona á Íslandi“. En á hippatímabilinu þótti það mjög ósmart, leikarar voru taldir tilgerðarlegir og heimskir,“ segir Edda og þau hlæja bæði.

Aðspurð um hvort foreldrum þeirra hafi þótt það alger vitleysa hjá þeim á sínum tíma að feta leiklistarbrautina segja þau að svo hafi ekki verið. „Þegar ég sagði pabba og mömmu frá þessum draumum mínum sagði pabbi bara við mig: „Fínt, elskan mín, en kláraðu stúdentsprófið fyrst,“ segir Edda, „af því að það opnaði svona ýmsar leiðir á þessum tíma.“

„Mamma hélt að ég yrði frægur dansari og hún var alveg klár á að ég yrði frægur, en bara sem dansari,“ segir Laddi, sem segist hafa haldið margar danssýningar fyrir móður sína þegar hann var barn. „Ég var með fífladans, og hún hló að mér á hverju kvöldi. Þegar ég var 13 ára var mér hent í Dansskóla Heiðars Ástvalds og átti að læra cha-cha-cha. Ég held ég hafi mætt í tvö skipti, svo gekk ég út, þetta var ekkert fyrir mig.“

Edda hefur í gegnum árin haldið bæði fyrirlesta og námskeið, meðal annars um húmor hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. „En ég hef sinnt því frekar lítið undanfarið, ég er fastráðin hjá Þjóðleikhúsinu og sem betur fer bara ofboðslega mikið að gera í því, svo eru kvikmyndir og sjónvarpsseríur á teikniborðinu. Ég er nýbúin að leika í tveimur kvikmyndum, við Laddi erum allt í einu orðin aðalhittarinn!“

Tvær kynslóðir komnar í bransann

Núna eruð þið orðin elsta kynslóðin og börn ykkar beggja hafa fetað í fótspor ykkar, var það eitthvað sem þið hvöttuð þau til, eða vilduð þið frekar að þau hefðu valið annað ævistarf?

„Maður dró frekar úr en hitt, en ég lét hann bara um þetta sjálfan. Þórhallur vildi fara í uppistand og vera í því. Þannig að ég sagði við hann: „Já, gjörðu svo vel, þú verður þá bara að gera það vel, og ef þig vantar einhverjar leiðbeiningar þá talarðu við mig,“ segir Laddi, „en hann hefur ekkert gert það.“

Þórhallur, sonur Ladda, hefur getið sér gott orð fyrir uppistand, hann vann keppnina Fyndnasti maður Íslands árið 2007, hefur troðið upp í Secret Cellar í Lækjargötu og kvikmyndin Mentor með hann í öðru aðalhlutverkinu er nú sýnd í kvikmyndahúsum.

„Hann hefur ekkert þurft á leiðbeiningum að halda,“ botnar Edda. Báðir synir hennar, Björgvin Franz og Róbert Óliver Gíslasynir, hafa lært leiklist. Sá fyrri starfar sem leikari, en sá yngri sneri sér, að sögn Eddu, alfarið að tónlist, eftir að leiklistarnáminu lauk.

„Ég vonaði svolítið að börnin mín færu í annað en leiklistina, bara vegna þess að það eru tvær hliðar á þessu starfi og miklar sveiflur á milli. Maður hittir stórkostlegasta fólk í heimi, listamenn, og vinnur með þeim og það er ofsalega gaman. Og maður hittir líka ofsalega krumpaðar sálir og það er auðvelt að verða annaðhvort eða, vera litlu ljósgeislarnir eða krumpuðu sálirnar. Og það er bara karakterstyrkur hvers og eins sem ræður hvernig þróunin verður,“ segir Edda.

„Það er svo margt sem maður þarf að eiga við, vill maður að börnin sveiflist til og frá, gleðjist og þjáist til skiptis? Helst vildi maður að þau veldu þægilegri braut, viðskiptafræði til dæmis, það eru ekki sömu sveiflurnar þar.“

Bæði nefna þau að leiklistarbransinn geti einnig verið óútreiknanlegur og óstöðugur bransi, bæði verkefnalega og fjárhagslega séð. „En ef börnin þrá eitthvað, Laddi er ofsalega góður pabbi og ég er ofsalega góð mamma, þá stendur maður með þeim alla leið og styður þau og hjálpar þeim,“ segir Edda, en í hennar tilviki þá er þriðja kynslóðin byrjuð að reyna fyrir sér á leiksviðinu. „Það var nú eiginlega óvart, hann Bjarni Gabríel, ömmubarnið mitt sem er 11 ára, er beðinn um svo margt af því að hann er einstaklega hæfileikaríkur, hann dansar, syngur og leikur svakalega vel og verður með skemmtilegt hlutverk í Kardimommubænum í vetur,“ segir Edda. „Hann er mjög lukkulegur með þetta, en ég held hann ætli frekar að vera fótboltakall, ég held að honum finnist það meira spennandi. Þetta byrjaði allt með því að hann langaði að vera með í Jólagestum Björgvins Halldórssonar, og það vissi enginn af því, hann bara sótti sjálfur um að vera með því að honum finnst gaman að syngja. Hann sendi inn myndband og var valinn til að taka þátt. En ég yrði samt ekkert hissa þótt hann endaði í fótboltanum.“

Samstarfið Gísla Rúnari að þakka

Það er Gísla Rúnari Jónssyni, leikara með meiru og fyrrum eiginmanni Eddu, að þakka að leiðir Eddu og Ladda lágu saman. Og Haraldi bróður Ladda að þakka að hann kynntist Gísla Rúnari. „Halli bróðir var að vinna í sjónvarpinu hjá RÚV og kom mér þar inn í vinnu. Þar kynntist ég Gísla Rúnari, og þar byrjaði þetta allt, þetta rugl,“ segir Laddi. „Þetta var mestmegnis Gísli Rúnar sem dró mig inn í þessa vitleysu.“

Þau segjast bæði slæm í ártölum aðspurð um hvort kvikmyndin Stella í orlofi hafi verið þeirra fyrsta verkefni saman. „Nei, nei, það voru einhverjir sjónvarpsþættir. Hvenær var Heilsubælið?“ segir Laddi. „Ég er voðalega slæm í ártölum,“ svarar Edda. „Ég man engin ártöl,“ bætir Laddi við.

Blaðamaður getur skotið inn að Stella í orlofi hafi verið frumsýnd 1986, enda enn í grunnskóla það ár. „Heilsubælið var 1989 en svo vorum við í áramótaskaupum og svona á undan því,“ segir Laddi. „Stella var fyrsta kvikmyndin sem við vorum í saman og svo bara öðluðumst við eilíft líf sem dúóið Stella og Salómon.“

Líklega þekkir hvert mannsbarn kvikmyndina Stellu í orlofi og sögu þeirra Stellu og hins sænska Salómons sem kemur hingað til lands í áfengismeðferð. Örlögin haga því hins vegar svo til að Stella tekur hann upp á sína arma og meðferðin í fjölskylduferðalaginu er allt önnur en hann átti von á. „Myndin er ótrúlega lífseig milli kynslóða og nú er maður bara spenntur að vita hvort komandi kynslóðir haldi áfram að horfa. Allavega börnin í dag horfa og þekkja mann, hvort börnin þeirra muni horfa er ómögulegt að segja,“ segir Edda. „Mig langar hins vegar að stinga upp á því að einhver leikstjóri velji okkur Ladda saman í hádramatískan harmleik!“

„Ég samþykki það,“ segir Laddi.

„Mér datt þetta í hug bara núna,“ bætir Edda við, en rifjar þó upp að kvikmyndamaður sem er í rokkhljómsveit hafi haft á orði við hana að hann vildi skrifa handrit fyrir þau. „Alveg hreint djúpan harmleik, ég ætla að minna hann á þessi orð hans.

Ég er pínustressuð yfir að fólk muni bera myndina saman við hina sígildu mynd Stellu í orlofi, svo óttast maður jafnvel að fólki muni ekkert finnast Amma Hófí fyndin, að það muni enginn hlæja jafnvel, og gamanmynd sem ekki er hlegið að hlýtur dauðadóm!“ segir Edda. Stressið þarf að vera í nokkra daga til viðbótar, en á föstudag kemur í ljós hvort myndin fellur í kramið hjá kvikmyndahúsagestum eða ekki. En vonandi heppnast hún glimrandi vel.

Edda Björgvinsdóttir Þórhallur Sigurðsson
Mynd / Hallur Karlsson

COVID-19 hafði áhrif

Kórónuveirufaraldurinn hefur komið illa við samfélagið, og fjölmargar starfsstéttir. Skemmtanaiðnaðurinn þar sem margir listamenn eru verktakar eða einyrkjar hefur farið sérlega illa út úr ástandinu. Hefur faraldurinn haft áhrif á ykkar vinnu og afkomu, hvernig finnst ykkur stjórnvöld hafa staðið sig gagnvart listamönnum? „Ég hef aldrei á ævinni verið eins grátklökk af þakklæti yfir því að vera fastráðin hjá opinberri listastofnun,“ segir Edda, sem er leikari hjá Þjóðleikhúsinu.

„Það er í raun og veru alltaf verið að bæta við lausnum fyrir þennan freelance-hóp, þannig að það er ekki útséð um hvernig það kemur út fyrir listamenn, fyrr en kannski um áramótin. En allir mínir nánustu og bestu vinir og ættingjar lepja nánast bara dauðann úr skel eða hafa verið að því,“ segir Edda.

„Þetta virðist ganga eitthvað voðalega hægt hjá stjórnvöldum að koma með úrlausn fyrir þennan hóp, af því það eru svo margir sem hafa farið illa út úr faraldrinum,“ segir Laddi. „Hann hefur ekki komið svo illa við mig. Ég hef notað tímann til að mála og safna myndum fyrir sýningu. Ég gat nýtt tímann til að tala inn á teiknimyndir, eina sem ég missti af voru árshátíðir og skemmtanir, sem var búið að bóka mig í. Sem var reyndar töluvert af, og kom sér mjög illa.”

Edda Björgvinsdóttir Þórhallur Sigurðsson
Mynd / Hallur Karlsson

Ekki alltaf skemmtileg

Edda og Laddi eru með skemmtilegustu gamanleikurum þjóðarinnar, en eru þau alltaf skemmtileg, er ekki erfitt að vera alltaf undir pressu að vera skemmtileg?

„Jú, jú, maður hefur alveg fundið fyrir því að maður eigi alltaf að vera hress og með grín. Svo er maður það ekki neitt og fær að heyra að um mann hafi verið sagt: „Djöfull var hann fúll, maður,“ segir Laddi, en bætir þó við að þetta hafi skánað, eftir því sem hann varð eldri.

„Krakkarnir hætta að þekkja mann. Þetta var verra áður fyrr, þegar maður lenti til dæmis í unglinghópi, og maður átti að vera með grín. „Vertu Eiríkur Fjalar,“ svo gerði maður það ekki, og þá þótti maður bara ofboðslega leiðinlegur, hundfúll bara. En þetta er bara ofboðslega þægilegt í dag,“ segir hann og brosir.

„Núna ertu nýbúinn að leika í þáttunum Jarðarförin mín,“ skýtur blaðamaður inn í, „og það vita allir að þú ert bara gamall og leiðinlegur karl!“

„Ég er að segja það,“ segir Laddi og Edda skellihlær að okkur. „Bara nákvæmlega eins og ég er, ég tengdi strax við hlutverkið,“ segir Laddi, en eitthvað er nú erfitt að trúa þeim orðum hans.

„Ég var aldrei eins vinsæll skemmtikraftur og Laddi, hann hefur verið það lengi og á marga ódauðlega karaktera,“ segir Edda. „Mér hefur aldrei fundist nein krafa á mig að vera sérstaklega skemmtileg utan vinnunnar, að halda uppi stemningu í partíum eða hópum, aldrei nokkurn tíma. Aftur á móti lendir maður stundum í leiðindapúkum sem hreyta í mann: „Þú getur nú ekki alltaf verið svona kát, er þetta ekki einhver yfirboðsmennska.“ Sem er bara bull af því ég er náttúrlega bara vitleysingur, síflissandi, finnst allt skemmtilegt og ef ég lendi í einhverjum áföllum, sem allir lenda í, þá á ég fólk að sem vinnur úr þeim með mér, en ég er ekkert að bera þau fyrir almenning.“

Þið hljótið að hafa upplifað áföll í lífinu eins og allir aðrir?

„Við ættum bara ekkert líf ef við hefðum ekki upplifað áföll,“ segir Edda. „Sem betur fer af því að áföllin gera mann að þeirri manneskju sem maður er. Þroski manns felst í því hvernig maður tekst á við áföll. Það er mjög áhugavert að fylgjast með sjálfum sér í því ferli.“

„Sem betur fer hefur maður ekki lent í stórkostlegum áföllum, heldur bara svona þeim sem allir lenda í, að missa foreldra sína og systkini sem er alltaf sorglegt, en sem betur hefur maður ekki misst börnin sín,“ segir Laddi. „Maður vill nú helst fara á undan, ég held að það væri mesta áfallið sem maður gæti lent í að sjá á eftir barninu sínu.“

Foreldrar Ladda létust bæði rétt fyrir áttræðisaldurinn og hann hefur misst tvo bræður sína. „Þeir voru ungir, annar bara rétt um sextugt þegar hann fékk alzheimer sem er mjög sérstakt, svona ungur maður, og svo hinn bróðir minn er frekar nýfarinn, 75 ára, og það var svipað með hann. Hann fékk Parkinsons-veiki og út frá henni heilabilun. Þetta var mjög sorglegt og erfitt að horfa á bræður mína veslast upp og fara frá sjálfum sér og verða einhverjir allt aðrir, vera svona innilokaðir í sjálfum sér. Missa málið, annar bróðir minn missti alveg málið. Þetta er hræðilegt og mjög sorglegt. Það var svo vont að fara svona, báðir alveg frábærir drengir.“

Edda segist ekki geta annað en verið á hnjánum full þakklætis. „Ég á pabba sem er fjörgamall, hann er að verða 97 ára og hann er svo stórkostleg manneskja með heilann í lagi og ofboðslega skemmtilegur og kærleiksríkur. Svo á ég fjögur börn og ég á barnabörn og þetta er allt fólk sem er á lífi, er hraust og heilbrigt og ég er óendanlega þakklát fyrir það.“

Áhugamálin golf og fjölskyldan

„Já, ég er alltaf í golfinu og nýti á sumrin hvern einasta tíma sem ég get,“ segir Laddi aðspurður um hvort þau hafi einhvern tíma fyrir sig eða eigi sér áhugamál. Þeir sem hafa séð þættina Jarðarförin mín muna að persóna Ladda var mikil golfmanneskja, og því er ljóst að Laddi þurfti ekki að þjálfa sveifluna mikið fyrir hlutverkið.

„Nei, ég smellpassaði þar inn í golfarann. Ég spila og keppi mikið á sumrin,“ segir Laddi, sem er í landsliði öldunga og hefur verið síðastliðin fimm ár. „Ég reyni nú að halda mig í landsliðinu, ég átti að fara út að spila núna í byrjun júní en það var hætt við allt saman.“

„Út af sottlu,“ skýtur Edda inn í.

„Þannig að núna er ég í LEK-mótaröðinni til að reyna að spila mig aftur inn í landsliðið og keppa úti næsta sumar,“ segir Laddi.

„Ég á engin áhugamál, það er svolítið trist,“ segir Edda. „En ég er farin að segja það óhikað að þegar ég á frí þá finnst mér skemmtilegast af öllu að fara á kaffihús og hitta vini mína. Og vera sem mest með fjölskyldunni sem er dreifð í sveitum landsins. Ég kalla það hiklaust áhugamál mitt að vera með fjölskyldu minni og vinkonum mínum.“

Fortíðin verður ekki ritskoðuð

Samfélagið þróast og grínið með, hverju má gera grín að og hverju ekki. Breski gamanleikarinn John Cleese gagnrýndi nýlega BBC fyrir að ætla að ritskoða Monty Python-hópinn sem Cleese var hluti af, þar sem grín þeirra væri ekki viðeigandi í dag. Hvað finnst ykkur, má gera grín að öllu?

„Nei, ekki í dag,“ segir Laddi ákveðinn og Edda samsinnir því. Einu sinni mátti gera grín að öllu nema forsetanum, svo er þetta alltaf að þróast og breytast, nefnir blaðamaður. „Já, svo mátti gera grín að forsetanum. Mínum karakterum hefur í dag fækkað um tvo, þeir eru bara komnir inn í skáp og eru bannaðir í dag,“ segir Laddi. „Færeyska konan mun aldrei lifna við aftur,“ bætir Edda við.

En hvað finnst ykkur um ritskoðun á eldra gríni, líkt og BBC vill gera?

„Ég spring í loft upp af hneykslan. Þú tekur ekki gamalt efni og breytir því … söguna, hvað ætlarðu að gera, endurrita söguna?“ segir Edda ákveðin. „Hvað með alla kúgunina og viðbjóðinn, morðin, hvernig konum og fötluðum hefur verið haldið niðri, ætlarðu að endurrita þetta allt saman af því það er óþægilegt? Sama er með grín, þú getur ekki endurskrifað grínið og ýtt því öllu til hliðar, það heitir ritskoðun og er ömurlegt athæfi, þangað megum við aldrei fara. Við megum ekki endurskrifa fortíðina. Aftur á móti skulum við diskútera gamla grínið, hvort það á við í dag eða ekki. Þetta er alveg forkastanlegt,“ segir Edda. Og Laddi er sammála. „Þetta gerir maður bara ekki. Okkar karakterar eru saga og við myndum ekki bjóða upp á þá í dag, en við strikum ekki yfir þá og látum sem þeir hafi aldrei verið til.“

Af öllu ykkar efni, er eitthvað sem er uppáhalds hjá ykkur?

„Já, hjá mér er það Heilsubælið, sem mér þykir ofboðslega vænt um og vænst um á undan Stellu. Af því að við unnum í því saman alveg frá grunni bara hérna við hliðina, á Óðinsgötunni. Það var gífurleg vinna lögð í það, maður lagði allt í þetta og ég er mjög stoltur af því verkefni. Heilsubælið er svona barnið manns,“ segir Laddi.

„Nákvæmlega. Og svo Stella auðvitað, sem færir manni svo mikið af væntumþykju og svo margt fólk sem á mann og mætir manni með kærleika og ég er alltaf að uppgötva það betur,“ segir Edda. „Svo er annað uppáhald hjá mér, einleikur sem ég var með í alveg þrjú leikár sem heitir Alveg briljant skilnaður. Mér þykir ofboðslega vænt um það verk, af því að það snerti hjarta mitt mjög djúpt og svo margra annarra. Verkið var blanda af trega og sorg, en rosalega fyndið engu að síður.“

„Ég má ekki gleyma sýningunni minni, Laddi sextugur. Ég var sextugur í þrjú ár og 130 sýningar,“ segir Laddi. „Þannig að mér þykir ofsalega vænt um það.“

Ertu byrjaður að undirbúa Laddi áttræður? spyr blaðamaður og uppsker hlátur frá Eddu.

„Nei,“ brosir Laddi, „Laddi 75 ára, ég ætla að koma með það og er byrjaður að hugsa um það og búinn að panta hús, en ég segi ekkert meira,“ segir hann leyndardómsfullur um hvar sýningin verður. „Ég er byrjaður að hugsa sýninguna alveg á fullu. Laddi sextugur átti bara að vera ein helgi, 2-3 sýningar, ég ætlaði að halda upp á afmælið mitt og fá svona kunningja með mér, en svo voru aðrir sem tóku sig til, sögðu að þetta yrði að vera stærra og meira. Ég missti þetta út úr höndunum á mér þannig að ég ætla ekki að láta neinn þvælast í þessu aftur, ég ætla bara að hafa þetta fjórar sýningar,“ segir Laddi.

„Laddi er náttúrlega svo miklu eldri en ég,“ segir Edda glettin á svipinn, „þannig að eftir svona fimm ár fer ég að hugsa um næstu hátíð. Ég var með sýninguna Eddan fyrir nokkrum árum sem var ógeðslega gaman og eitthvað geri ég seinna, en ég fylgi alltaf Ladda bara.“

„Já, hún er aðeins á eftir, ég ryð veginn,“ botnar Laddi.

Ætlið þið að vera endalaust í þessum bransa?

„Einhvern tíma sagði ég sjálfum mér og konunni minni að ég ætlaði að segja síðasta brandarann þegar ég yrði 100 ára. Ég ætla ekkert að hætta fyrr, en það verður kannski síðasta „show-ið“ mitt, það verður kannski stutt eða bara upprifjun. Ég sit kannski bara á stól og fylgist með fólkinu, svo er allt sýnt á tjaldinu,“ segir Laddi.

„Ég ætla líka að vera hundrað ára að sprikla og dansa á leiksviði,“ segir Edda.

„Ef maður hættir því þá deyr maður, þá fyrst deyr maður,“ bætir Laddi við.

„Við verðum mjög langlíf, við Laddi,“ segir Edda.

„Þannig að ég sit uppi með ykkur alveg í 20-30 ár í viðbót?“ spyr blaðamaður.

„Ég held það. Þú tekur annað viðtal við okkur eftir 30 ár,“ segir Laddi, sem hljómar alls ekki slæm hugmynd, um leið og við ljúkum spjalli okkar og höldum út í sólina og mannlífið í miðborginni.

- Advertisement -

Athugasemdir