Fimmtudagur 25. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Við erum heppin að búa á Íslandi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir / Sigurþóru Bergsdóttur

Á Íslandi er þriðji geirinn, það er frjáls félagasamtök, mikilvægur þáttur í þjónustu við fólk hér á landi. Forsaga slíkra félagasamtaka er oft sú að persónuleg reynsla kallar á þörf til breytinga eða þjónustu.

Félög eins og Stígamót, Kvennaathvarfið, Krabbameinsfélagið, SÁÁ, Ljósið, Píeta og mörg fleiri eru dæmi um hvernig fólk fer af stað í sjálfboðavinnu og vinnur kraftaverk til að veita þjónustu sem ekki var til staðar og þörf var á. Slík samtök breyta líka hugmyndum fólks um margvísleg málefni, koma umræðu af stað og minnka fordóma. Þessi félög væru ekki til nema af því að það er svo ótrúlegur fjöldi fólks á Íslandi sem gefur tíma sinn og orku í að sinna þessum málum.

Sjálf fór ég af stað fyrir rúmum tveimur árum og með þessar fyrirmyndir að leiðarljósi stofnaði slíkt félag. Bergið headspace opnaði fyrir þjónustu sína tæpu ári eftir stofnun samtakanna sem að því standa og hefur nú starfað í rúmt ár við að veita ungmennum ókeypis aðgengilega ráðgjafarþjónustu.

Að fara í gegnum slíkt ferli, stofna samtök og búa til þjónustu Bergsins headspace hefur verið stórkostleg vegferð fyrir mig. En eins og öll hin félögin hefði það ekki orðið að veruleika nema með fórnfýsi fólks í samfélaginu okkar, sem gefur vinnu, peninga, tíma og kraft til að koma þessu í gagnið. Stjórnvöld treysta ótrúlega mikið á þjónustu þessara félaga og ég tel að sá frumkvöðlakraftur sem fylgir slíkri starfsemi sé vanmetinn.

Ég er enn og aftur minnt á það nú fyrir jólin, við í Berginu höfum fengið svo mörg framlög frá fólki, fyrirtækjum og öðrum samtökum. Einstaklingar og fjölskyldur veita okkur framlög í stað jólagjafa, fyrirtæki láta árlegan góðgerðapott renna til okkar og svo framvegis. Það er svo ótrúlega gefandi fyrir okkur sem störfum í þessum geira að finna fyrir því að eftir starfi okkar sé tekið og að fólk sé tilbúið, algerlega óbeðið, til að veita okkur stuðning.

- Auglýsing -

Við erum stundum upptekin af tuðinu og því sem ekki er nógu gott. En staðreyndin er að fólk er svo ótrúlega gott og gjafmilt á það sem það getur gefið.

Við erum heppin að búa í samfélagi þar sem náungakærleikur og vilji til að koma öðrum til hjálpar er ríkur. Jólaandinn er svo sannarlega á lífi á Íslandi og fólk er svo sannarlega gott.

Bestu jólakveðjur og ljós til ykkar allra þessa jólahátíð.

- Auglýsing -

Höfundur er framkvæmdastjóri Bergsins headspace og félagskona í FKA.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -