Viðar Guðjohnsen lyfjafræðingur segir stjórnmálamenn útrásaráranna hafa þegið háar peningagjafir af útrásarvíkingunum. Í búsáhaldabyltingunni hafi hið eldfima ástand verið notað til að ná fram markmiðum í algjöru umboðsleysi og það sé aðeins hinum mikla leiðtoga að þakka að stjórnarskránni og krónunni var bjargað.
Þetta ritar Viðar í aðsendri grein í Morgunblaðið en þar nafngreinir hann ekki hver hinn mikli leiðtogi er. Honum er umhugað um frelsi og sjálfstæði Íslands. „Í þungamiðju skammdegis, stríðsloka, drepsóttar, fimbulkulda og eldsumbrota varð Ísland loks ríki á meðal ríkja með gildistöku sambandslaganna. Hið langa skammdegi ánauðar tilheyrði þá fortíðinni og til tákns um það var að þegar ríkisfáni Íslands blakti yfir stjórnarráðinu í hið fyrsta sinn fengu tvær fánastangir sem áður báru hinn danska að jöfnu við okkar ástkæra að standa tómar. Frá þeirri stundu varð frelsisþrá landsmanna ei beisluð á ný og von um stjórnskipulegt frelsi hætti að vera fjarlægur draumur og varð krafa,“ segir Viðar.
„Það verður ekki tekið af fimmtu herdeildinni að hún er úrræðagóð. Hinn mikli leiðtogi kunni þó ráð við því.“
Lyfjafræðingurinn rifjar upp endurreist íslenska lýðsveldisins þar sem hin öfluga lýðveldisstjórnarskrá landins tók gildi sem varnarmúr stjórnskipulegs frelsis. Það er akkúrat sú stjórnarskrá sem geti varið okkur gegn því að það frelsi verði fært til erlendra stofnana að mati Viðars. „Af þessu leiðir að hið stjórnskipulega frelsi verður ekki með lögmætum hætti tekið af þjóðinni og fært til erlendra stofnana án breytinga á stjórnarskránni og þá með þeim hætti sem stjórnarskráin kveður á um. Líklega er þetta meginástæðan fyrir þeirri sneypuför sem hófst fyrir um áratug. Hér er átt við lög um stjórnlagaþing, ólöglega og ógilda kosningu til stjórnlagaþings og í framhaldinu þingsályktun (eins undarlega og það hljómar) um skipun stjórnlagaráðs,“ segir Viðar og bætir við:
„Enn fremur er átt við þá vitneskju þáverandi stjórnvalda að stjórnarskráin stendur í vegi fyrir framsali á æðstu máttarstólpum laganna til Evrópusambandsins sem í ofanálag hefur þróast yfir í einhverslags Páfagarð hinn nýja þar sem innmúraðir velja hver annan í hinar og þessar valdastöður. Þar gildir mjög torsótt aðkoma þegnanna að vali þeirra sem þó fá að munda veldissprotann að vild.“
Viðar segir það skiljanlegt að flóðbylgja vantraust hafi skollið á samfélaginu af miklum þunga í kjölfar hrunsins þar sem griðarleg misnotkun á bankakerfinu kunngerðist mjög snögglega. Hann fullyrðir að stjórnmálamenn útrásaráranna hafi þegið háar peningagjafir. „Um árabil hafði þjóðinni verið talin trú um að stærstu eigendur bankanna væru einhverslags fjárhagsleg ofurmenni með fulltingi nýrrar tegundar stjórnmálamanna sem fylgdu hverju fótspori þeirra og tóku við háum peningagjöfum. Þetta olli því að umrótsfólk gat nánast óáreitt beislað kraft vantraustsins og beitt þeim krafti til ills. Það vita þeir sem á Austurvelli voru að þau sjónarmið sem lágu til grundvallar mótmælunum voru jafn mörg og fjöldi þeirra sem mótmæltu. Það verður ekki tekið af fimmtu herdeildinni að hún er úrræðagóð. Hinn mikli leiðtogi kunni þó ráð við því,“ segir Viðar.