Landsmenn eru enn með skiptar skoðanir um stöðu Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns. Sumir segja að það sé engum til góðs að halda uppi grimmri smitskömmun meðan aðrir segja hann sleppa vel. Víðir smitaðist af COVID á dögunum en það stendur helst í fólki hve mörgum hann bauð í heimsókn þegar hann var einkennalaus en smitandi.
Femínistar svo sem Hildur Lilliendahl og Sóley Tómasdóttir velta því fyrir sér hvort Víðir sleppi vel kyn síns vegna. „Ég get ekki varist hugsuninni um að gagnrýnin á Víði væri mögulega harðari ef hann væri kona,“ skrifar Sóley á Twitter og deilir færslu Aldísar Coquillon. Aldís vekur athygli á þeim fjölda sem kom í heimsókn til Víðis.
„Víðir hefði betur hlýtt Víði og ekki fengið 12 gesti í heimsókn til sín á 48 klukkustundum. Það er bókstaflega tvöfalt fleira fólk en ég hef leyft mér að hitta síðan í september,“ skrifar hún. Hildur deilir sömu færslu og skrifar: „Af hverju eru svona fá að segja þetta?“
Víðir hefði betur hlýtt Víði og ekki fengið 12 gesti í heimsókn til sín á 48 klukkustundum. Það er bókstaflega tvöfalt fleira fólk en ég hef leyft mér að hitta síðan í september. pic.twitter.com/vFxpTaDVTV
— Aldís Coquillon (@aldis_asgeirs) November 28, 2020
Því svara nokkrir, þar á meðal einn maður sem skrifar: „Því þó Víðir sé stöðu sinnar vegna ekki hafinn yfir gagnrýni þá er þetta samt smitskömmun og hún sem slík er ekki af hinu góðu því hún torveldar smitrakningu. Hún er einungis stundum í læknisfræðilegum tilgangi, ekki til að við séum að ráðast að fólki sem var óheppið.“
Hildur svarar: „Á móti kemur að hann er augljóslega ekki að fylgja eigin tilmælum og mætti ganga töluvert lengra í að axla ábyrgð á því og nota eigið fokköpp sem fordæmi. […] Reglugerð og tilmæli eru ólík fyrirbæri. Tilmælin hafa verið þau að umgangast ekki fólk að óþörfu og forðast hópamyndun í lengstu lög. Að opna heimili sitt fyrir 12 manns sömu helgina í kaffi gengur augljóslega í berhögg við það. Svo er að sjálfsögðu ekki verið að ráðast á neinn.“
Sóley og Hildur eru ekki þær einu sem deila færslu Aldísar. Þorgerður María Þorbjarnardóttir, formaður Ungra umhverfasinna, segist reið yfir þessu. „Það gerir mann óneitanlega reiðan að sjá svona, sjálf hef ég mikla félagsþörf og er virkilega búin að takmarka hvað ég hitti mikið fólk. Svona fréttir eru eins og blaut tuska í andlitið, ég myndi ELSKA að bjóða nokkrum vinum í kaffi en er ekki að gera það??? Hélt það væri basic.“
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, er ósammála þessu öllu og telur viðbrögðin við gestagangi Víðis einkennast af smitskömm. „Smitskömmun. Ekki blekkja þig, ekki halda að það sé einhver hetjuskapur að velta annarri manneskju upp úr augljóslega pínlegum mistökum sem hún er sjálf að gjalda fyrir og koma mest niður á henni sjálfri. Þetta er smitskömmun. Nákvæmlega svona lítur hún út,“ skrifar Helgi.
Ásgeir Berg, doktorsnemi í heimspeki, segir málið snúast um traust. „Nei, þetta snýst um að fólk er að fórna miklu til þess að ráða niðurlögum veirunnar. Þar snýst samstaða fólks öllu máli og hún helst ekki nema maður fái það á tilfinninguna að allir séu að standa við sitt. Að fólk sem stendur í brúnni hegði sér öðruvísi grefur undan samstöðu.“
Því svarar Helgi: „Það er aldrei neitt mál að réttlæta smitskömmun, þess vegna er hún til staðar, en þetta viðhorf er líka ákveðin ábyrgðarfirring. Trúin á boðskapinn á ekki að byggja á því að predikarinn sjálfur sé syndlaus. Ekkert í boðskapnum hefur breyst, þvert á móti. Heilræði hans voru samkvæmt sérstakri þekkingu sem hann hefur sem hann hefur núna persónulega reynslu af. Ef eitthvað er, þá er meiri ástæða til að hlusta núna, ekki minni. En smitskömmunin snýst um að dæma hann, ekki heilræðin, enda standa þau sannari en nokkru sinni fyrr.“
Ásgeir neitar því ekki en svarar til baka: „Ég sé ekki hvernig það er í mótsögn við það að gagnrýna Víði. Fólk mun ekki hafa trú á einhverju samstöðutali ef skipstjórinn sleppur. Þetta snýst um trúverðugleika. Nei, þetta er bara réttmæt gagnrýni. Leikjafræðilega eru sóttvarnir eins og fangaþversögnin. Við getum bara forðast verstu útkomu ef fólk treystir því að aðrir séu ekki að notfæra sér okkar fórnir. Þess vegna er traust grundvöllurinn að sóttvörnum.“
Rithöfundurinn Snæbjörn Brynjarsson leggur þetta í dóm þjóðarinnar, ef svo má að orði komast. Hann spyr í könnun hvort Víðir eigi að segja sig úr þríeykinu.
Ætti Víðir að stíga úr þríeykinu/segja af sér?
— Snæbjörn (@artybjorn) November 30, 2020