Föstudagur 19. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Vilborg: „Þegar ástin þín deyr og þú veist ekki hvernig þú átt að ná andanum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Í febrúar ár hvert leitar hugurinn ósjálfrátt til baka og upp rifjast fyrstu dagarnir og vikurnar eftir andlát Björgvins, þegar sorgin var hrá, hjartað eins og opin kvika. Í dag, 9. febrúar, eru 8 ár frá dauða hans af völdum krabbameins í heila. Dóttir okkar var þá 8 ára, hefur nú lifað álíka lengi án hans og með honum, mín tvö eldri áttu hann að stjúpa í 9 ár.“

Þetta segir eitt okkar fremsta skáld, Vilborg Davíðsdóttir, í afar áhrifaríkum, djúpum og hjartnæmum pistli á Facebook. Þar fjallar hún um glímuna við sorgina eftir að eiginmaður hennar Björgvin Ingimarsson lést eftir glímu við illvígt krabbamein. Björgvin var ástkær eiginmaður og faðir og líka mikilsmetinn sálfræðingur og kennari.

Vilborg hefur verið óhrædd við að tjá sig opinskátt um þá lífsreynslu sem fylgir því að vera aðstandandi manneskju er tekst á við ólæknandi krabbamein og lifir þann skelfilega sjúkdóm ekki af. Vilborg hefur einnig skrifað bók um reynslu sína. Bókin ber heitið Ástin, drekinn og dauðinn og hlaut hún lofsamlega dóma. Þá hélt Vilborg ótal fyrirlestra um efni bókarinnar sem hefur án efa gagnast mörgum sem takast á við missi.

Vilborg segir í dag, að það sem hún hafi lært á þessu ferðalagi, að þá sé útilokað að komast yfir sorgina eða skilja hana eftir á leiðinni.

„Svo einkennilega sem það hljómar þá vildi ég ekki vera án hennar. Hún mildast vissulega, sker ekki lengur, en dýpkar lífið og samkenndina með öðru fólki. Styrkir líka. Því hvað er að óttast þegar það hræðilegasta hefur þegar gerst og þú ert hér enn?“ spyr Vilborg og birtir síðan ævintýri sem að hluta til er gamalt og skráð af Jóni Árnasyni undir heitinu „Búkolla og stelpan“.

Hér er viðeigandi að gefa Vilborgu orðið en það væri stílbrot að endurskrifa þann hluta pistilsins. Saga Vilborgar hljóðar svo:

- Auglýsing -

„Pabbi heitinn las oft fyrir okkur systkinin úr því safni. Og að hluta nýtt. Mér var kennt lítilli að það væri gæfumerki að finna dordingul í húsinu, hann skyldi ekki drepa heldur færa út og leggja varlega á jörðu. Kannski kannast fleiri við þá trú?

*Ævintýrið um Dordingul*

Þegar Helga, olnbogabarn karls og kerlingar, kom svöng og þreytt í hellinn í leit að Búkollu bauð skessan henni ekki að hvílast og þiggja góðgerðir heldur skipaði henni að sækja brjóstnál hjá Daladrottningu systur sinni. Helga spurði hvar Daladrottning væri en skessan svaraði að það mætti hún segja sér sjálf. ,,Og ef þú verður ekki komin með hana í kvöld, þá drep ég þig.“

(Þegar ástin þín deyr og þú stendur ein frammi fyrir drekanum segir dauðinn þér ekki hvernig þú getir slökkt eldinn í gini hans heldur að ákveða hvaða útfararstofa eigi að sækja manninn þinn til að flytja hann í líkhúsið í Fossvogi.)

- Auglýsing -

Æði ófrýnilegur maður, með hor sem náði úr nefi niður á tær, Dordingull að nafni, hjálpaði Helgu að finna brjóstnálina í skiptum fyrir loforð um koss að kvöldi. En þegar skessan var komin með gripinn í hendur skipaði hún Helgu að sækja tafl hjá Daladrottningu systur sinni sem hana hafði lengi langað að eignast. Þegar Helga spurði hvar hún væri svaraði skessan að það mætti hún segja sér sjálf. ,,Og ef þú kemur ekki með taflið skal ég drepa þig.“

(Þegar ástin þín deyr og þú veist ekki hvernig þú átt að ná andanum niður í lungu spyr dauðinn ekki hvernig megi hughreysta þig heldur minnir þig á að presturinn þurfi að fá dánarvottorðið í hendur, annars megi hann ekki jarða manninn þinn. Bætir því svo við að þú þurfir að fara út í búð því ísskápurinn er tómur og stelpan þarf nesti í skólann.)

Dordingull, í skorpnum skinnstakki sem náði niður á ristar að framan en á herðablöð að aftan, hjálpaði Helgu á ný og það þótt hún stæði ekki við loforðið um kossinn. En þegar skessan var komin með taflið skipaði hún Helgu að elda fyrir sig, búa um rúmið og hella úr koppnum. ,,Og vertu búin að því í kvöld, ella mun ég drepa þig.“

(Þegar ástin þín deyr og þú þráir heitast af öllu að leggjast fyrir, loka augunum og opna þau ekki aftur fyrr en allt er orðið aftur eins og það var áður þá vefur dauðinn þig ekki í dúnsæng og slekkur ljósið heldur segir þér að pabbi þinn sé líka með krabbamein og tengdamamma hafi enn fengið aðsvif, sé komin á bráðamóttökuna.)

En allt er rígfast, pottur, rúmföt og koppur. Og enn og aftur kemur sá ófrýnilegi Dordingull Helgu til hjálpar, í skiptum fyrir endurnýjað kossaloforð.

(Þegar ástin þín deyr og þú getur ekki hugsað um neitt annað en hversu hrædd þú ert þá strýkur dauðinn þér ekki um vangann og segir þér að þetta verði allt í lagi heldur áréttar að sýslumaður verði að fá umsóknina um setu í óskiptu búi útfyllta sem fyrst, því fyrr færðu ekki vottorðið fyrir bankann um að þú megir nota reikning mannsins þíns til þess að borga veisluþjónustuna og salinn fyrir erfidrykkjuna.)

Dordingull lætur sjóðandi bikketil undir rúm skessunnar og segir Helgu að í ketilinn muni skessan detta þegar hún setjist á rúmið í kvöld því hún muni þá verða þreytt og éta mikið. En undir kodda hennar sé fjöregg sem Helga skuli brjóta á ásjónu hennar í því hún falli í ketilinn – og nefna sig þá, ef hún vilji.

(Þegar ástin þín deyr og þig langar til að lyppast niður á eldhúsgólfið, skríða þar ýlfrandi undir borð og fela þig líkt og í skilnaðinum hér um árið, þá býður dauðinn þér standa í fæturna og hlúa að þeim sem þér hefur verið falið að annast.)

Þegar skessan kemur heim um kvöldið fer allt eins og Dordingull sagði og hún fellur í ketilinn. Helga sprengir þá eggið á ásjónu hennar og nefnir Dordingul. Hann kemur þegar. Skessan lætur þar líf sitt og brenna þau hana upp. Verða þá dynkir miklir svo Helga verður hrædd og kyssir Dordingul þrjá kossa.

(Þegar ástin þín deyr spyr dauðinn úr hverju þú sért gerð og krefur þig um koss.)

Dordingull og Helga sváfu nú saman um nóttina en um morguninn varð Helga þess vör að fríður kóngsson var fyrir ofan hana í rúminu en hamurinn þar hjá. Hún dreypir á kóngsson en brennir haminn; hafði Dordingull verið kóngsson í álögum.

(Fellur þá af dauðanum hamurinn. Og í hans stað er þar lífið, nakið og skjálfandi, og býður þér varir sínar.)

Hann átti nú Helgu fyrir konu. Þau tóku það sem fémætt var í hellinum, þar á meðal Búkollu. Þau fóru síðan utan, Dordingull og Helga, og settust að í ríki föður hans en að honum önduðum erfðu þau ríkið. Þau lifðu lengi eftir þetta og var sambúð þeirra hin besta.

(Þið takið upp sambúð og þú lærir að mæta því með kossi, á hverju sem gengur.)

Og lýkur svo þessari sögu.

(Og lýkur svo þessari sögu.)

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -