Útvarpssnillingurinn öri og káti, Ómar Úlfur á X-inu er að „smíða útvarpsþátt um Kraftwerk. Á fimmtudagskvöldið hlustum við saman á Die Mensch Machine, sjöundu hljóðverksplötu Kraftwerk frá Düsseldorf. Gullbylgjan. 21:00. Fimmtudagskvöld. 18. maí. 2023.“
Undir færslu Ómars skrifar enginn annar en Ham-verjinn og Fóstbróðirinn (á meðal nokkurra titla sem hægt er að klína á manninn) Sigurjón Kjartansson, sem er nota bene mikill aðdáandi Kraftwerk.
Sigurjón segir:
„Einu sinni ætlaði ég að hafa svona Kraftwerk horn, fyrsta sumarið okkar Tvíhöfða á Aðalstöðinni. Það var snögglega blásið af þegar dagskrárstjórinn kom askvaðandi inn og stöðvaði útsendinguna með þessum orðum: „Við erum að reyna að höfða til fjöldans hérna! Þetta eru ekki bara þú og ellefu vinir þínir!“
Þessi orð eru mér alltaf í fersku minni.“
Ómar úlfur var ekki lengi að bregðast við orðum Sigurjóns.

„Inn með Kraftwerk hornið. Kv. Dagskrárstjórinn.“