Miðvikudagur 17. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Vilhjálmur Hjálmarsson og hvatvísin: „Flugeldurinn skaust inn í forstofu og á nýju skíðin mín“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það voru alltaf tvær jólaseríur á jólatrénu. Þetta Þorláksmessukvöld fyrir 50 árum var pabbi búinn að taka þær úr sitt hvorum kassanum og leggja til á gólfið en átti eftir að setja sameiginlega kló á þær. Ég tók tvo enda og stakk í næstu innstungu, fékk rafmagnsstuð og sagði ekki nokkrum manni frá því.“

Þetta segir Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD-samtakanna, þegar hann rifjar upp æskujólin og áhrif ADHD á hegðun sína. Áhrif hvatvísinnar.

„Svo var það flugeldurinn sem ég setti ekki nógu vel upp og hann skaust inn í forstofu og á nýju skíðin mín. Það var mikil sorg en skíðin skemmdust aðeins. Þetta tengist klárlega hvatvísi; sérstaklega rafmagnssagan. Einu sinni prófaði ég nýjan reykskynjara klukkan kortér yfir sjö að morgni; þá hef ég sjálfsagt verið sjö ára. Auðvitað vissi ég hvað myndi gerast þegar þetta færi í gang en var bara ekki alveg búinn að hugsa málin til enda.“

ADHD-börn ráða síður við spenninginn í aðdraganda jóla

Vilhjálmur segir að óopinberlega sé nokkuð viðurkennt að um 8-10% barna á Íslandi séu með ADHD og um 5% fullorðinna. „Stífustu rannsóknir horfa á eldri tölur og tala um 5-6% barna og 2,5% fullorðinna en það er hærra; ég segi hiklaust 8-10% barna og að helmingur þeirra lifi með ADHD-einkennum eftir að heilinn nær fullum þroska eins og maður segir. Þetta er þroskaröskun í framheilastöðvum sem eru að þroskast fram undir 23-25 ára aldur og þar af leiðandi geta einkennin ADHD minnkað. Það er ekkert víst að þetta trufli suma á fullorðinsaldri og þeir myndu þá ekki greinast með ADHD.“

 

Kvíði og óyndi

- Auglýsing -

Það líður að jólum og mörg börn bíða spennt eftir að hátíð ljóss og friðar gangi í garð. Spenningurinn tengist líka aðventunni þar sem ýmislegt er í gangi og jólaljósin fanga augu og huga. Svo eru það jólalögin, jólasveinarnir og hitt og þetta.

„Það er þekkt að ADHD-börn ráða síður við spenninginn í aðdraganda jóla og þetta getur hæglega snúist upp í kvíða og alls konar óyndi. Það er mikið í gangi allan desember. Jólaböll í skólum og fleira og spenningurinn byggist upp hægt og rólega.“

Vilhjálmur segir að kvíði sé klassískt afleiðing ADHD-einkenna sem magnist kannski upp í aðdraganda jólanna. Spenningurinn hleðst upp. „Þá missa börn stjórn á skapinu og það getur leitt til þess að þau verði kvíðin. Það er ein af afleiðingunum af öllum þessum látum af því að þau kunna ekki að slökkva á sér og eiga örugglega erfitt með að sofna.

Ég leysti Georg mörgæs af

- Auglýsing -

Það er þekkt að það þarf að halda aðeins betur utan um ADHD-börn og það þarf að passa upp á að þau nái að róa sig aðeins af og til. Það þarf að gera eitthvað með börnum með ADHD fyrir jólin. Leyfa þeim að vera með í hinu og þessu. Tala við þau og demda þeim ekki inn í eigið stress; það á ekki að gera við nein börn en þegar þetta eru ADHD-börn þá þarf foreldrið að passa upp á börnin og um leið sjálft sig og gleyma sér ekki líka í vitleysunni. ADHD-börn geta orðið æst. Það á að leyfa þeim að hreyfa sig og búa til aðstæður þar sem þau eiga rólegar stundir í þessum asa. Það á að njóta þess að vera í vetrarmyrkrinu og kveikja jafnvel á kerti. Það þarf að gefa börnunum tíma sérstaklega um jólin. Búa til tíma þar sem þau geta andað og geta helst slakað á með foreldrunum til þess að vitleysurnar vindi ekki upp á sig og til þess að foreldrarnir séu ekki með allt á milljón rétt fyrir klukkan sex á aðfangadag. Barnið pikkar það upp og á erfiðara með að hafa stjórn á sjálfu sér af því að það er allt á fullu í kringum það. Stundum þarf að plana betur fyrir fram, ekki síst ef foreldrarnir eru líka með ADHD. Þú getur bókað að ef eitt barn er með ADHD þá er mjög líklega að annað barn af þremur sé það líka og annað foreldrið.“

 

Vilhjálmur Hjálmarsson

Ég fúnkera

Jú, jólin eru fram undan og jólin eru augljóslega svolítið til umræðu í þessu viðtali. Vilhjálmur er spurður út í jólin áður en hann var greindur 33 ára.

„Á þeim tíma var ég oft að aðstoða ónefnda sveina sem komu ofan af fjöllunum og svo var ég á tímabili varamörgæs fyrir þrenn jól. Ég leysti Georg mörgæs af.“

Burtséð frá því að vera í hlutverki jólasveinsins segist Vilhjálmur aldrei muna eftir því að skrifa jólakort og ef hann hefur munað það þá er orðið of seint að senda þau. „Maður reynir samt að passa upp á sína nánustu. Ég hef samt ekki þurft að hlaupa um bæinn kortér yfir 12 á aðfangadag að leita að gjöfum. Ég hef náð að klára þetta fyrir þann tíma. En ég er ekkert endilega snemma í því.“

Jú, Vilhjálmur var 33 ára þegar hann var greindur með ADHD og fékk lyf við því. Hann er spurður hvaða máli það skipti fyrir hann að vera á lyfjum; hverju það breytir fyrir hann í daglegu lífi.

„Ég enda ekki á að keyra í hringi eftir hádegi; ef það gerist þá veit ég að ég hef gleymt að taka lyfin mín.“

Hann kímir.

„Ég fúnkera. Ég fæ ekkert færri hugmyndir en ég kannski framkvæmi fleiri af þeim. Og klára hlutina. Ég klára hluti í vinnunni og annars staðar; mér fallast ekki lengur hendur af því að klára ekki neitt eins og áður fyrr og þá stóðu svo að manni öll spjót. Ég set þetta í samhengi við barn sem fer yfir um af spenningi og svo bara hringsnýst allt og það veit ekki í hvorn fótinn það á að stíga.

Ég keyrði sjálfan mig á kaf í menntaskóla

Ég verð að passa mig á að detta ekki í þunglyndi en það var á sínum tíma afleiðing af ómeðhöndluðu ADHD. Það hefur komið fyrir í minni vinnu að einhver hefur pikkað í mig og sagt að ég sé hættur að brosa. Þá þarf ég að fara að taka til í mínu daglega lífi. Þá er maður orðinn viðskotaillur og snöggreiðist. Ágæt lýsing á þessu er að ADHD sé eins og jólasería á tré þar sem sumar perurnar virka ekki alltaf.“

Hvað er það erfiðasta sem Vilhjálmur upplifði varðandi ADHD áður en hann var greindur?

„Ég keyrði sjálfan mig á kaf í menntaskóla og síðan aftur þegar ég var byrjaður í skóla úti í London. Ég kom heim í gríðarlega góðu jafnvægi en sex árum síðar fór allt til fjandans af því að ég vissi ekki hvað var í gangi. Alltaf var heimilislæknirinn að gefa mér þunglyndislyf sem virkuðu í einn eða tvo mánuði.“

Svo fór hann á ADHD-lyf 33 ára og það tók tíma að ná jafnvægi. „Það sem gerist fyrir marga sem greinast á fullorðinsárum sem fá lyf er að það er svo margt sem hrynur og það getur reynst erfitt að vinna sig út úr því. Það tekur bara tíma.“

Vilhjálmur er spurður hvað hann hafi lært af því að hafa verið með ógreint og ómeðhöndlað ADHD í 33 ár og verið svo á lyfjum við því meira og minna síðan.

„Það var einstaklega gaman að fatta af hverju sum trikk höfðu reynst mér vel og geta farið að tálga þau til eins og að færa tímapressuna framar. Ég var alltaf ógeðslega góður í að redda hlutunum á síðustu stundu en núna redda ég þeim aðeins fyrr. Ég kann nú orðið að setja mig í súper fókus eða nýta mér þann hæfileika að bíða eftir því að ná yfirsýninni; vera ekki hræddur við að horfa á alla óreiðuna í stóru, flóknu verki.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -