Vill leggja gjöld á nagladekk í stað þess að banna þau

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -
Hin árlega umræða um nagladekk er farin af stað á höfuðborgarsvæðinu og skal engan undra. Loftmengun vegna svifryks fór í vikunni yfir heilsuverndarmörk í borginn og er talið víst að uppþyrlun vegna bílaumferðar sé ástæðan. Rannsóknir á samsetningu svifryks hafa sýnt að malbiksagnir eru meira en helmingur svifryksagna og vega nagladekk þungt þegar kemur að sliti á götum. Í kjölfarið lét borgin rykbinda helstu umferðargötur. Þetta kemur fram á heimasíðu Reykjavíkurborgar.
Netverjar hafa tjáð sig mikið um málið á samfélagsmiðlum undanfarna daga og fremstur í flokki er sennilega Gísli Marteinn Baldursson, sem tístaði um málið á Twitter. Hann vill banna þau.

Reykjavíkurborg hvetur borgarbúa til að sniðganga nagladekkinn. Kunnulegt stef því árlega er ráðist í slíka markaðssetningu og reynt að höfða til samvisku borgaranna. Rannsóknir sýna að nagladekk valda svifryki þegar þau spæna upp malbik á götum auk þess sem þau auka hávaða og slíta götum hraðar en æskilegt er. Eins og þetta séu ekki næg rök gegn þeim þá auka þau eldsneytiskosnað bifreiða og hækka þar af leiðandi rekstur bílsins. Og með öllu þessu, ógna þau lýðheilsu.

Svifryk í andrúmslofti hefur neikvæð áhrif á heilsu manna og hefur verið sýnt fram á að fleiri innlagnir eru á sjúkrahús á dögum þegar svifrik fer yfir heilsuverndarmörk.

Í tilkynningu frá borginni segir: „Langbest er þó að skilja bílinn eftir heima og fara til og frá vinnu og skóla með öðrum hætti – ef kostur er.“

Neytendavaktin bendir á að á dögum þegar svifryk fer yfir heilsuverndarmörk þá er oft ekki verandi úti og oft eru þetta góðviðris dagar þegar einmitt svo tilvalið er að ganga eða hjóla til og frá vinnu.

Ný umferðarlög voru samþykkt í fyrra. Í upphaflegum drögum að frumvarpinu stóð til að heimila gjaldtöku vegna nagladekkjanotkunar á höfuðborgarsvæðinu, slíkt er t.d. gert í Noregi og hefur gefið góða raun. Fólk á höfuðborgarsvæðinu hefði þá borgað árgjald, um það bil 20 þúsund krónur. Þessi hugmynd var felld út úr frumvarpsdrögunum í áður en málið var sent til Alþingis.

Þorsteinn Jóhannsson, loftgæðasérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir stofnunina hlynntari gjaldtöku á nagladekkjum frekar en að leggja blátt bann við þeim. Við viss skilyrði úti á landi séu þau enn nauðsynleg. Víða um land er vetrarþjónusta á vegum ekki eins góð og á höfuðborgarsvæðinu og þá myndast oft hættulegar aðstæður og þá sé betra að vera á nagladekkum.

En af hverju ekki að banna þau bara í Reykjavík?

„Ja, það yrði heldur flókið í framkvæmd. Hvað með sveitarfélögin í nágrenni við Reykjavík? Ég held að það yrði erfitt að útfæra það og að engin pólitísk sátt næðist. Nagladekk eru leyfð í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi en Norðmenn leggja gjald á notkun þeirra og hefur það orðið til þess að notkun þeirra hefur dregist mikið saman.“

Þorsteinn segir að gjaldtaka myndi hafa neikvæðan hvata, fólk myndi hugsa sig tvisar um. „Nagladekk slíta malbiki 20 – 40 sinnum meira en ónelgd vetrardekk og því er sanngjarnt að þeir sem þau nota borgi fyrir það. Það væri kannski sanngjarnara að gera þetta svona frekar en að banna þau alfarið.“

En hugmyndin um gjaldtöku var felld eins og áður sagði. „Það voru margir sem mótmæltu gjaldtökunni í Samráðsgáttinni og það var kannski alveg rétt sem þar kom meðal annars fram, að þetta var ekki nógu vel útfært.“

Hugmyndin hefur þó ekki verið slegin alveg út að borðinu og er nú verið að útfæra hana betur. Það mun bæði vera vilji Umhverfisráðuneytisins sem og Umhverfisstofnunar. Í skýrslunni Hreint loft til framtíðar áætlun um loftgæði á Íslandi 2018 – 2029 sem unnin var af Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu kemur fram að vilji sé til þess að setja á gjöld á notkun nagladekkja svo þetta er eitthvað sem við megum eiga von á. Að draga úr notkun nagladekkja er risastórt lýðheilsumál, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Vonandi þurfum við ekki að bíða of lengi.

 

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -