Villa í tölvukerfi Vodafone varð til þess að upplýsingar um styrktarfé almennings vegna Reykjavíkurmaraþonsins glötuðust. Vegna þessa var ekki vitað hvert ætti að skila styrktarfénu og hefur fyrirtækið síðustu daga þurft að hringja út til fjölda manns til að finna út hvaða málefni viðkomandi styrkti.
Magnús Hafliðason, forstöðumaður samskipta- og markaðssviðs Vodafone, segir að vinna standi enn yfir við að ná á alla þá sem veittu styrki með símtölum og textaskilaboðum fyrir maraþonið. Hann segir styrkveitendur langflesta, af þeim nærri 300 sem hringja þurfti í, hafa brugðist vel við símtölum fjarskiptafyrirtækisins til leiðréttingar. „Á dögunum kom í ljós að villa var í tengingum milli ákveðinna kerfa sem héldu utan um styrki sem bárust með símtölum og sms skilaboðum. Villan olli því að upplýsingar um hvert styrkur ætti að fara féllu út,“ segir Magnús.
„Í framhaldi var haft samband við þá viðskiptavini og óskað eftir upplýsingum um hvert styrkurinn átti að fara. Enn á eftir að ná sambandi við örfáa viðskiptavini en við munum halda áfram þar til öll mál hafa verið farsællega leyst. Í örfáum tilfellum óskuðu aðilar eftir því að draga styrkinn til baka en í þeim tilvikum greiðir Vodafone upphæð styrksins að fullu til viðkomandi góðagerðarfélags.“
