Fimmtudagur 25. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Villtist á Glerártorgi vegna veikinda

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Berst við kerfið til að fá úthlutað heimilislækni á Akureyri.

Skortur á heimilislæknum hefur verið viðvarandi á Akureyri árum saman og ástandið er svipað víðar á landsbyggðinni. Þráinn Sigvaldason flutti til Akureyrar fyrir fimm árum og hefur enn ekki fengið úthlutað heimilislækni en hann hefur verið inn og út af sjúkrahúsum frá því að hann fékk veirusýkingu í lifur haustið 2016.

Í samtali við Mannlíf segir Þráinn frá því að hann hafi veikst alvarlega haustið 2016 en hann greindist þá með fyrrnefnda veirusýkingu í lifur. Veiran hefur valdið Þráni miklu heilsutjóni og hann hefur verið inn og út af sjúkrahúsum síðan. Í febrúar á þessu ári hljóp sýkingin upp í höfuðið. „Þá var ég lagður inn á sjúkrahús með algjört minnisleysi og fékk lyf sem hefur læknað alla kvilla sem voru að hrjá mig nema ruglið í höfðinu,“ segir hann og bætir við það sé ólíðandi að þurfa á sama tíma að berjast fyrir því að fá þá þjónustu sem hann telur sig eiga rétt á.

Sendur í hringi
Eftir að læknar á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAK) sögðu honum að fara heim og hvíla sig; að hann ætti að verða vinnufær aftur innan skamms, þótti Þráni ástæða til að fara fram á frekari eftirfylgni og fékk í kjölfarið tilvísun frá geðlækni í ráðgjöf og þjónustu hjá VIRK. Ráðgjafi þar hafi síðan leitað svara hjá heilsugæslunni á Akureyri um hvers vegna Þráni væri ekki úthlutað heimilislækni. Svörin sem fengust voru þau að staðan væri einfaldlega þannig að það væri skortur á heimilslæknum og því ekkert hægt að gera.

„Ef einhver þarf á heimilslækni að halda, þá hlýt ég að falla undir þá þörf, ég er farinn að villast í heimabænum mínum.“

„Ég er í raun búinn að fara í hringi síðan þetta byrjaði. Ég er með sykursýki líka og var áður í sambandi við lækni, sem er í sérstöku sykursýkisteymi en þegar ég var farinn að geta haldið sykrinum nokkuð góðum þá útskrifaðist ég úr því teymi og læknirinn sagði mér að hafa bara samband við heimilslækni. Þegar ég sagði honum að ég væri ekki með heimilislækni og fengi hann ekki, sagði hann að hjúkrunarfræðingur myndi fylgjast með mér í staðinn. Svo fékk ég tölvupóst frá hjúkrunarfræðingi sem sagði mér að hafa samband við heimilislækni og svaraði mér ekki frekar. Þá var ég kominn í hring. Eftir þetta var mér bent á að senda erindi inn á Heilsuveru. Þegar ég sendi þeim lýsingu á veikindum mínum var mér sagt að hafa samband við heimilslækni,“ útskýrir Þráinn.

Staðan er því sú að ef Þráinn þarf á lækni að halda er helsta úrræði hans að fara á bráðavaktina á Sjúkrahúsinu á Akureyri, en hann segist hins vegar þurfa sárlega á því að halda að vera með fastan lækni sem þekki sögu hans betur en tilfallandi vaktlæknir geti gert. „Ef einhver þarf á heimilslækni að halda, hlýt ég að falla undir þá þörf, ég er farinn að villast í mínum eigin heimabæ,“ segir hann. „Meira að segja í verslunarmiðstöðinni Glerártorgi.“

„Verulegt vandamál að manna stöður“
Félag heilsugæslulækna lagði inn umsögn um heilbrigðis¬áætlun ríkisstjórnarinnar til ársins 2030. Þar er mönnunarvandi rakinn og bent á að úrbóta sé þörf. „Heimilislæknum þarf að fjölga til að anna þeim verkefnum sem öflug heilsugæsla þarf að geta sinnt, bæði í þéttbýli en ekki síst í dreifbýli þar sem hefur verið verulegt vandamál að manna læknisstöður undanfarin ár,“ segir í umsögninni en undir hana ritar Salóme Ásta Arnardóttir, formaður Félags heilsugæslulækna.

- Auglýsing -

Þá kemur fram í umsögninni að í samanburðarlöndum séu heimilislæknar um þriðjungur allra lækna. Ef það sama ætti við á Íslandi væru heimilislæknar 400 í stað 200 núna. „Til að ná markmiði um fjölgun heimilislækna úr 200 í 400 og gera ráð fyrir þeim hópi sem hættir á næstu árum vegna aldurs, þarf að koma til átak í sérnámi í heimilislækningum. Það þarf að fjölga sérnámsstöðum í að minnsta kosti 80 og því þarf að fylgja fjölgun kennslustjóra og starfsfólks sérnáms.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -