Mánudagur 27. mars, 2023
0.8 C
Reykjavik

Villtist inn í leiklistina

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Lára Jóhanna Jónsdóttir er skyndilega á allra vörum eftir frábæra frammistöðu í hlutverkum sínum í Lof mér að falla og Flateyjargátu. Hún segist þó aldrei hafa ætlað sér að verða leikkona, var búin með eitt ár í læknisfræði þegar hún komst inn í Listaháskólann, enda segist hún hafa verið raungreinanörd á yngri árum og ekkert sérstaklega gefin fyrir það að draga að sér athyglina.

Þrátt fyrir að hafa verið að leika í Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu nánast stöðugt síðan hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2010 er Lára tiltölulega óþekkt stærð í augum íslensku þjóðarinnar og eftir að við höfum komið okkur þægilega fyrir, pantað te og kaffi og viðhaft eitthvað innihaldslítið snakk um daginn og veginn liggur beinast við að að fyrsta spurningin sé einfaldlega: Hver er Lára Jóhanna Jónsdóttir?

Það kemur pínulítið á Láru, hún átti greinilega ekki von á þessari spurningu, en hún gerir samt sem áður sitt besta til að svara. „Ég er 34 ára gömul leikkona og hef verið að stússast í hinu og þessu í gegnum tíðina,“ segir hún hugsi.

„Ég ólst upp í Breiðholtinu nánast alla mína bernsku. Alveg frá því að ég var þriggja ára og fram á fullorðinsár. Reyndar fluttum við til London og bjuggum þar í tvö ár þegar ég var níu og tíu ára, en svo bara fórum við aftur í Breiðholtið. Núna bý ég reyndar í Vesturbænum með kærustunni minni og sex ára dóttur minni og er á föstum samningi við Þjóðleikhúsið.“

Ég upplifi reyndar ekki að ég sé þekkt andlit.

Þrátt fyrir að hafa verið leika heilmikið í stóru leikhúsunum árum saman hefur Lára lítið leikið í kvikmyndum og sjónvarpi fyrr en hún nánast helltist yfir þjóðina í hlutverki Magneu í kvikmyndinni Lof mér að falla og Jóhönnu í sjónvarpsþáttunum Flateyjargátu. Hvernig er að vera allt í einu orðin þekkt andlit?

„Ég upplifi reyndar ekki að ég sé þekkt andlit,“ segir Lára og fer hjá sér. „Mér fannst mjög gaman að vera með í báðum þessum verkum og það er dýrmæt reynsla. Það var svolítið erfitt að leika í Lof mér að falla því handritið er unnið út frá sögum raunverulegs fólks, bæði sögum kvenna sem eru eða hafa verið í neyslu og sögu Kristínar Gerðar sem svipti sig lífi eftir hrikalega reynslu sem tengdist neyslu hennar. Það gefur myndinni meira vægi í mínum huga og það er líka auðveldara fyrir mann sem leikara að gera það sem maður þarf alltaf að gera, að trúa sögunni þegar maður veit að hún er byggð á reynslu raunverulegs fólks.“

Lára þekkti ekki fíkniefnaheiminn af eigin reynslu áður en hún byrjaði að vinna við myndina. „Ég hef alveg kynnst fólki sem hefur verið í neyslu, en ekki þannig að það hafi verið nálægt mér persónulega og ég hafi þurft að takast á við neyslu þess. Ég hef bara horft á þetta úr fjarlægð.“

- Auglýsing -

Varst þú sem sagt algjör fyrirmyndarunglingur í Breiðholtinu? „Jaaaaá,“ segir Lára og hugsar sig um. „Við í mínum hópi vorum voða róleg. Ég var enginn rosa djammari og prófaði aldrei nein efni eða neitt í þá áttina. Ég er sennilega bara frekar róleg týpa. Var eiginlega hálfgert nörd sem barn og unglingur. Alltaf í einhverjum pælingum sem flestar tengdust raungreinum sem mér fundust skemmtilegastar af öllu í skólanum.“

Ég bara villtist einhvern veginn inn í leiklistina þegar ég var í menntaskóla.

Æskudraumar hennar tengdust því ekki að verða leikkona. „Nei, nei, nei,“ segir Lára ákveðin.

„Ég bara villtist einhvern veginn inn í leiklistina þegar ég var í menntaskóla. Ég tók alltaf þátt í einhverjum leikatriðum með krökkunum í blokkinni á vorhátíðum, en ég var ekki týpan sem tróð upp í matarboðum. Áhugi minn á leiklist kviknaði eiginlega meira út frá félagsskapnum sem var í leikfélaginu í M.S. Þar byrjaði ég líka að hafa áhuga á að standa á sviði. Það var alltaf svo gaman í kringum allar leiksýningar. Krakkarnir í leikfélaginu urðu hópurinn minn og út frá því fór ég að hafa áhuga á að búa eitthvað til. Ég hafði alltaf lifað mig rosalega inn í það að horfa á leikhús, en áhuginn á því að vera með í að búa til leiksýningu kom eftir á. Þannig að ég slysaðist eiginlega inn á þessa braut.“

Lára byrjaði í læknisfræði við Háskóla Íslands en leiklistarbakterían togaði þó alltaf í hana.
- Auglýsing -

Leikarar tala gjarnan um brennandi leiklistarbakteríu og Lára slapp ekki við hana. „Ég fékk hana alveg eftir að ég datt inn í þennan heim og þá fyrst varð þetta virkilega æðislegt,“ segir hún og hlær. „En ekki einu sinni á menntaskólaárunum ætlaði ég mér að verða leikkona. Ég sá mig alltaf fyrir mér sem einhvers konar vísindamann. Ég var á eðlisfræðibraut í M.S. og var þar alveg í kjöraðstæðum. Hitt var meira svona hliðaráhugasvið.“

Mér skilst til dæmis að ég hafi þagað í hálft ár eftir að ég byrjaði í skólanum þar.

Spurð nánar út í árin sem Lára bjó í London sem barn, hvort það hafi verið erfitt fyrir níu ára gamla stúlku að flytja í framandi umhverfi og tala ekki einu sinni tungumálið segir Lára: „Jú, það var erfitt,“ segir hún hreinskilnislega.

„Mér skilst til dæmis að ég hafi þagað í hálft ár eftir að ég byrjaði í skólanum þar. Ég bara þagði þangað til ég kunni málið og þá fór ég að tala. Ég er samt mjög þakklát fyrir að hafa fengið þessa reynslu. Það var dálítið mikið öðruvísi að vera barn á Englandi en á Íslandi, allavega á þessum tíma. Ég fór bara í skólann í hverfinu sem var pínulítill og krúttlegur, og fílaði mig mjög vel þar á endanum. Var með dásamlegan kennara og andrúmsloftið var mjög fallegt.“

Fékk ársfrí frá læknisfræðinni

Foreldrar Láru eru bæði kennarar en hún segist aldrei hafa haft áhuga á því að leggja kennslu fyrir sig. Hún er yngst fjögurra systkina en hún segist samt ekki vera neitt dekurbarn, enda sé stutt á milli þeirra. Í samræmi við raungreinaáhugann byrjaði Lára í læknisfræði við Háskóla Íslands, en leiklistarbakterían togaði þó alltaf í hana og hún fór tvisvar í inntökupróf við sviðslistadeild Listaháskólans.

Hún segist heldur ekki hafa orðið fyrir þrýstingi frá foreldrum sínum um það að leggja eitthvað sérstakt starf fyrir sig, það hafi alfarið verið hennar ákvörðun að skrá sig í læknisfræði í Háskólanum. „Ég var búin með eitt ár þegar ég komst inn í Listaháskólann og hætti,“ útskýrir hún.

Þegar maður dettur svo inn í leiklistarskólann er það alveg hundrað prósent.

„Leiklistin togaði meira í mig, en ég var samt alls ekki viss og fékk upphaflega bara ársleyfi frá læknisfræðinni til að skoða þetta og komast að niðurstöðu um það hvort námið ég vildi. Þegar maður dettur svo inn í leiklistarskólann er það alveg hundrað prósent, það er ekkert pláss fyrir neitt annað. Leiklistin er svo ánetjandi, það er engin leið til baka. Maður var bara allan sólarhringinn að pæla í leiklist og hugsar ekkert um hvort maður vildi kannski gera eitthvað annað.“

Hún segist aldrei hafa séð eftir því að velja leiklistina fram yfir læknisfræðina. „Nei, aldrei,“ segir hún af sannfæringu og hristir höfuðið ákaft. „Það getur vel verið að einhverjar aðrar leiðir hefðu verið praktískari og góðar líka, en ég hugsaði ekkert um það. Hér er ég og það er fínt. Ég myndi ekki vilja vera annars staðar.“

Tveimur árum eftir útskrift úr Listaháskólanum eignaðist Lára dóttur sína með þáverandi kærasta. Þá var hún á samningi hjá Borgarleikhúsinu og þegar hún komst að því að hún væri ófrísk var hún byrjuð að sýna í hlutverki Dóróteu í Galdrakarlinum í Oz.

Hún segir það hafa verið heilmikið mál að fela óléttubumbuna á síðustu sýningunum enda var hún komin sjö mánuði á leið þegar þar var komið sögu. „Ég get svo svarið það að óléttubumban varð ekki áberandi fyrr en eftir síðustu hneigingu,“ segir hún og skellihlær. „En mér þykir dálítið vænt um að dóttir mín skuli hafa verið með mér á sviðinu heilan vetur.“

Viðtalið við Láru má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Perla Kristín förðunarfræðingur Urban Decay

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -