Miðvikudagur 29. júní, 2022
12.8 C
Reykjavik

Vísbendingar um nýjan fentanyl-faraldur – Lyfjatengdum andlátum hefur fjölgað um 47% hjá 30-44 ára

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Vísbendingar eru um að fentanyl faraldur sé hafinn á Íslandi. Hvergi á Norðurlöndunum er verslað jafn mikið af ópíóðíum en á Íslandi. Í aldurshópnum 30-44 ára hafa lyfjatengd andlát aukist um 47% á milli 2011-2015 og 2016-2020.

Sjá einnig: Fentanyl faraldur á Íslandi segir sprautufíkill: „Fentanyl er svakalegasti morðinginn á götunni“

Áður en lengra er haldið er best að skoða hvað ópíóíða-lyf eru. Eftirfarandi texti er úr Talnabrunni, fréttabréfi Landlæknisembættisins um heilbrigðisupplýsingar, sem kom út í mars á þessu ári.

Ópíóíðar falla í flokk ávana- og fíknilyfja en langtíma notkun þeirra getur valdið því að notandinn verður háður lyfjunum vegna vanabindingar eða líkamlegrar fíknar. Auk þess að vera mjög ávanabindandi, geta of stórir skammtar ópíóíða verið lífshættulegir vegna bælandi áhrifa sem þeir hafa á þann hluta heilans sem stýrir öndun. Of stórir skammtar geta því valdið öndunarstoppi og dauða. 

Samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun sem Mannlíf fékk í hendurnar, er árleg sala fentanyl-lyfja minni árin 2017-2021 en árið 2016 þegar salan náði hámarki en nú má þó merkja talsverða aukningu í sölunni eins og sjá má á myndinni fyrir neðan:

Grafið sýnir fjölda skilgreindra dagskammta sem seldir eru frá lyfjaheildsölum á dag fyrir hverja 1.000 íbúa. Graf: Lyfjastofnun.

Eins og sést á grafinu er salan orðin álíka mikil nú og hún var árið 2013 en hún hefur hækkað um rúm 10% milli áranna 2020 og 2021.

- Auglýsing -

Ef bornar eru saman sölutölur á almennum ópíóíðum á Íslandi, við sölutölur á Norðurlöndunum, sést að Ísland gnæfir yfir frændur sínar og frænkur. Þó að kaup á almennum ópíóíðum hafi fækkað töluvert á undanförnum árum á Ísland enn lagt í land með að ná öðrum Norðurlöndum.

Ísland ber af í ópíóíðanotkun á Norðurlöndunum.
Graf: Lyfjastofnun

Eins og sést á grafinu sést að salan minnkaði milli áranna 2019 og 2020 en ef litið er á nýlegri tölur má sjá að fjölgun hefur orðið aftur á sölu ópíóíðum á Íslandi.

Talsverð aukning hefur orðið á sölu ópíóíð-lyfja á Íslandi samkvæmt nýjustu tölum.
Mynd: Landlæknaembættið

Líkt og sést á myndinni hér fyrir ofan má sjá að kvenkyns kaupendur lyfjanna eru fleiri en karlkyns kaupendur. Í fréttablaði Landlæknisembættisins sem minnst er á að ofan segir að eftir samdrátt síðustu ára hafi nú orðið lítilsháttar fjölgun einstaklinga sem leystu út ópíóíð-lyf eða frá 157/1.000 íbúa 2020 í 166/1.000 íbúa 2021. Þetta samsvarar því að ríflega 61 þúsund einstaklingar hafi leyst út að minnsta kosti eina ávísun á ópíóíða á árinu 2021 samanborið við ríflega 57 þúsund árið áður.  

- Auglýsing -

Mannlíf hafði samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og spurði hana út í lyfjatengd dauðsföll á Íslandi. Sagði fulltrúinn að fullsnemmt sé að tala um fjölgun er segir þó að lögreglan hafi fengið nokkur slík mál inn á borð þeirra að undanförnu.

„Hvað varðar lyfjatengd dauðsföll á Íslandi það sem af er ári 2022, myndi ég vilja segja að enn sé of snemmt að tala um fjölgun – við sjáum reglulega sveiflur í þessum fjölda sem stundum jafnar sig svo út með tímanum. Þá liggja niðurstöður krufninga ekki fyrir en það getur tekið allt að hálfu ári að fá krufningarskýrslur í málunum. Hins vegar er rétt að við höfum á stuttum tíma fengið nokkur slík mál inn á borð til okkar án þess að geta farið frekar út í þau mál.“

Mannlíf spurði fulltrúann einnig að sölu og dreifingu á fentanyl og skyldum lyfjum, á svarta markaðnum.

„Varðandi sölu og dreifingu þá er og hefur verið talsvert um sölu á lyfjum. Þetta er ýmist lyf sem flutt eru inn til landsins sem og lyf sem einstaklingar eru að selja eftir að hafa orðið sér út um þessi lyf m.a. hjá einstaklingum sem hafa fengið þessum lyfjum ávísað á sig. Það er allur gangur á því og stundum á það ekki við.“

Mannlíf fékk tölfræðisérfræðing til þess að rýna í tölur frá Landlæknisembættinu er snúa að lyfjatengd andlát á Íslandi frá árinu 2011.

Lyfjatengd dánartíðni
Gögn unnir úr tölum Landlæknisembættisins
Þetta eru lyfjatengd andlát á 100.000 íbúa niður á aldursbil. Tölfræðingurinn tók meðaltal áranna 2011-2015 og 2016-2020. Þar sést að lyfjatengd andlát hafa aukist um 80% í aldurshópnum 18-29 ára , úr 6,7 í 12,1 andlát á hverja 100.000 íbúa. Breytingin á milli áranna 2020 og 2019 er þó minnkun um 60% á milli ára í sama aldurshópi, úr 15,4 í 6,2 andlát.

Í aldurshópnum 30-44 ára hafa lyfjatengd andlát aukist um 47% á milli 2011-2015 og 2016-2020, úr 11,9 í 17,5 andlát á hverja 100.000 íbúa og aukist um 29% á milli 2019 til 2020, úr 15,8 í 20,4 andlát á hverja 100.000 íbúa.

Áhugavert verður að skoða tölur varðandi lyfjatengd andlát fyrir árið 2021 en þær eru ekki komnar frá Landlæknaembættinu. Ef marka má fjölgunina á sölu ópíóíða-lyfjum síðasta ár, má búast við fjölgun á lyfjatengdum andlátum.

Mannlíf mun á næstunni rannsaka svarta markaðinn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -