Þriðjudagur 23. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Vistheimilið Breiðavík – Hömlulaust ofbeldi gegn drengjum í aldarfjórðung

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Klefinn var gluggalaus og ekkert nema myrkrið. Þar var enginn kollur og ekki beddi. Aðeins galtómt svarthol. Þetta var helvíti á jörð,“ sagði einn af Breiðavíkurdrengjunum í viðtali árið 2007 þegar Kastjós og DV drógu upp skelfilega mynd af þeim aðstæðum sem þeir urðu að búa við á uppheldisheimilinu í Breiðavík. Sú sýn sem birtist landsmönnum var stjórnvöldum til skammar.

Einangrun við ysta haf

Breiðavík er vík á Vestfjörðum sem liggur milli Látravíkur og Kollsvíkur. Næsta byggða ból er Patreksfjörður í 50 kílómetra fjarlægð. Þar var stofnað uppeldisheimili fyrir drengi á vegum ríkisins árið 1953 og rekið allt fram til 1979. Í upphafi var heimilið hugsað fyrir drengi á aldrinum 14 til 18 ára en í reyndina voru flestir þeirra mun yngri eða frá 10 til 14 ára. Sumir voru 7.

Ekki var nein ein ástæða fyrir því að drengir voru sendir til Breiðuvíkur. Það gat verið allt frá því að koma frá brotnum heimilum og upp í að hafa framið afbrot. Strax frá upphafi var heimilið nokkuð umdeilt og vöruðu sérfræðingar við því að einangrun út við ysta haf væri ekki besta leiðin til að hjálpa piltunum. Ekki var hlustað á þær raddir og ekki leið á löngu til að Breiðavíkurheimilið fékk á sig orð fyrir harðneskju, ofbeldi og slæman aðbúnað.

Svört skýrsla grafin

Við uppljóstrun Kastljóss komu fram uppýsingar sem höfðu verið faldar í áratugi. Má þar nefna skýrslu Gísla Guðjónssonar réttarsálfræðings, sem hann vann sem BA verkefni árið 1975. Þar gagnrýndi hann harðlega aðbúnaðinn í Breiðuvík og kom fram með sláandi tölfræði. Þar kom meðal annars fram að fimmta hvert barn var vistað án ástæðu og að langflestir piltanna urðu afbrotamenn. Með slíka falleikunn á uppeldishlutverkinu hefði hver sem er átt að átta sig á að eitthvað mikið væri að á Breiðuvík. En skýrslan var stimpluð trúnaðarmál, grafin, og hið opinbera hélt áfram að vista drengi út í ofbeldið í norðinu. Ekki tókst að fá aðgengi að skýrslunni fyrr en 22 árum síðar.

- Auglýsing -

Fyrir sýningu Kastljóssþáttarins höfðu einstaklingar komið fram og tjáð sig um hryllingsdvölina á Breiðavík þótt ekki hefði það farið hátt. Í bóknni Litróf lífsins, þar sem Anna Kristine Magnúsdóttir ritaði meðal annars æviþátt Sigurdórs Halldórssonar sjómanns árið 2002, lýsti hann vistheimilinu sem fangabúðum og greindi frá illri meðferð þar.

Eins og fangelsi

Sprengjan sprakk ekki fyrr en 2007. Daginn sem umfjöllunin hófst kom fram milli fjöldi manna sem lýstu dvöl sinni.

- Auglýsing -

„Ég hef alltaf átt erfitt með að treysta yfirvöldum eftir þetta,“ sagði einn Breiðavíkurdrengjanna í viðtali við DV daginn sem umfjöllun hófst um vistheimilið. „Forstöðumaðurinn lamdi okkur sundur og saman ef þannig lá á honum,“ sagði annar Breiðavíkurdrengur um einn forstöðumanna heimilisins.  Mennirnir fengu loks áheyrn þegar þeir lýstu misþyrmingum og pyntingum, illri meðferð og harðneskju að ógleymdu kynferðislegu ofbeldi.

Sveinn Allan Morthens, sem síðar var forstöðumaður meðferðarheimilisins í Háholti, lýsti Breiðuvík sem einhvers konar síberísku gúlagi. Kristján Sigurðsson, forstöðumaður í Breiðuvík í eitt ár á sjötta áratugnum, sagði að sér hefði hreinlega blöskrað þegar hann hefði séð aðstæður við komuna þangað árið 1955. „Ég vildi koma fram við börnin eins og fólk, ekki eins og dýr,“ sagði hann í viðtali, ríflega hálfri öld síðar.

Heimilið sem framleiddi ógæfumenn

Umfjöllun fjölmiðla stóð yfir lengi og tjáðu sig margir um vist sína. Meðal þeirra sem dvöldu á Breiðavík urður síðan landsþekkt nöfn í afbrotamálum og má þar nefna Lalla Johns, sem varð frægur þegar heimildarmynd var gerð um hann, og Sævar Ciesielski sem sakfelldur var í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

Bárður R. Jónsson var sendur þangað aðeins 10 ára gamall. „Mér fannst allan tímann sem ég var þarna á Breiðavík að þetta væri refsivist og hún var það sannarlega. Nema hvað maður vissi ekki hvenær henni lyki,“ sagði Bárður í viðtali. „Þetta var andrúmsloft ofbeldis, þetta var andrúmsloft níðingsskapar. Svo var það einhverju sinni í hádegishlénu að ég sofnaði og mætti ekki á réttum tíma í vinnuna. Forstöðumaðurinn kom og sótti mig og gekk svoleiðis í skrokk á mér að ég hélt að hann dræpi mig“.

Bárður lýsti einnig í viðtalinu örlögum eins mannanna sem voru í Breiðavík. Þegar hópur þeirra ætlaði aftur til Breiðavíkur vegna gerðar heimildarmyndar um atburðina þar skilaði maðurinn sér ekki í ferðina. Seinna kom í ljós að hann hafði svipt sig lífi. Næstu daga birtust viðtöl við fleiri menn sem sendir höfðu verið á vistheimilið í Breiðavík sem börn.

Stjórnvöld vakna

Í kjölfarið var farið að líta til annarra vistaheimila á vegum hins opinbera svo sem á Silungapolli, Bjargi, Kumbaravogi og í Heyrnleysingjaskólanum. Þar blasti heldur ekki við fögur sjón og steig fjöldi fólks fram til að segja fá líkamlega, andlegu og kynferðislegu ofbeldi.

Árið 2009 bað Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi forsætisráðherra, vistheimilabörn afsökunar fyrir hönd íslenskra stjórnvalda og ári síðar stigu fram 90 menn sem kröfðust sanngirnisbóta frá ríkinu eftir dvöl í Breiðuvík. Því miður höfðu margir fallið frá langt fyrir aldur fram og átakanlega margir fyrir eigin hendi. Ári síðar voru sett lög um greiðslu sanngirnisbóta vegna ofbeldisins sem börnin þurftu að þola.  Ríkið greiddi rúma tvo milljarða í bætur til Breiðavíkurdrengjanna og annarra fórnarlamba á vistheimilum.

En skaðinn var skeður.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -