„Margt furðulegt að finna í Fréttablaðinu í dag, s.s. viðskiptamann ársins sem ekki trúir á samkeppni og svo þessa undarlegu kveðju: „Ríkisstarfsmaður: „Alveg sama hvað gengur á þá fitnar hann eins og púkinn á fjósabitanum og þarf aldrei að finna til eða sýna ábýrgð.“
Þetta segir fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason. Textinn sem Egill vitnar til er að finna í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins undir umfjöllun um val á Viðskiptamanni ársins. Er ríkisstarfsmaðurinn sagður hafa verið einn af þeim sem komu til greina í valinu. Fjölmargir tjá sig á Facebook síðu Egils Helgasonar og þar er segir að læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraflutningafólk, kennarar og annað framlínufólk fái þarna skítlegar kveðjur frá blaðinu.
Gunnar Smári Egilsson fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins segir: „Þetta er fullkomlega í takt við það sem áður hefur birst í þessu blaði eftir að auðfólkið í kringum Viðreisn keypti það.“
Eiríkur Hjálmarsson upplýsingafulltrúi og fyrrverandi fjölmiðlamaður tjáir sig: „Hugsunarlaust eða vitfirrt.“ Margrét Heinreksdóttir segir skrifin viðurstyggð, vanhugsuð og heimskuleg. Páll Valsson rithöfundur og útgefandi hefir þetta að segja: „Einstaklega ósmekklegt. “
Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og þingmaður Samfylkingarinnar kveðst hafa tekið eftir því að inni á blaðinu vaði uppi ungir hægri öfgamenn. Hann segir: „Ekki síst í Markaðsblaðinu. Maður er alveg hættur að nenna að opna blaðið.“
Guðmundur Andri er þá spurður nánar um hugtakið „hægri öfgar“. Þingmaðurinn svarar:
„Átta mig ekki alveg á því hvar ég á að byrja. Til er hægri sinnað fólk sem áttar sig á því að til dæmis í kórónufaraldri þarf öfluga spítala, öflugt heilbrigðiskerfi, öflugar almannastofnanir í ríkiseigu. Hægrimenn sem skilja þetta ekki eru að mínu mati öfgasinnaðir og á valdi úreltrar kreddu um að allt skuli í einkaeigu og rekið á gróðaforsendum.“