Föstudagur 1. júlí, 2022
12.8 C
Reykjavik

Vitni staðfestu líkamsárásir Róberts við Fréttablaðið – Svafa vonaði að „þetta fréttist ekki“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Ný gögn varpa ljósi á meinta líkamsárás Róberts Wessman, forstjóra Alvogen, á breskan stjórnanda í janúar 2015. Þar er hann sagður hafa slegið Phil Price, starfsmann á fjármálasviði, fyrirvaralaust í andlitið í vitna viðurvist, undir áhrifum áfengis. Atvikið mun hafa átt sér stað á skíðahóteli í Austuríki þar sem stjórnendur Alvogen og Alvotech voru samankomnir. Björk Eiðsdóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu, ræddi við vitni af meintum líkamsárásum Róberts þegar hún tók helgarviðtal við Halldór Kristmannsson uppljóstrara, fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá lyfjafyrirtækjunum, í apríl á síðasta ári. Þá upplýsti Halldór, sem nú er með stöðu uppljóstrara, meðal annars um morðhótanir, meint ofbeldi og aðra ósæmilega hegðun Róberts. Eva Bryndís Helgadóttir, lögmaður Alvogen, sagði við RÚV að „enginn fótur“ væri fyrir ásökunum um ósæmilega hegðun forstjórans. 

Þögn í eitt ár

Í hartnær eitt ár hefur Róbert ekki viljað svara spurningum fjölmiðla um ásakanir og sagt þær viðkvæmt starfsmannamál. Þinghald og aðalmeðferð málsins verður væntanlega í vor. 

Svafa Grönfeldt segir að 15 manns hafi „víst séð þetta“. Svafa, sem er fyrrverandi yfirmaður starfsmannamála Alvogen, segir í tölvupósti innan Alvogen að hún hafi rætt við viðkomandi stjórnanda sem sé „sad og shocked“ og að Róbert hafi nú rætt við hann. Tölvupósturinn er skrifaður tveimur dögum eftir meinta líkamsárás Róberts og er sérstaklega merktur þeim starfsmanni sem á í hlut. Tölvupósturinn er meðal sönnunargagna Halldórs fyrir héraðsdómi um meinta ósæmilega hegðun Róberts og hvernig mál forstjórans voru þögguð niður innan fyrirtækjanna. Phil Price hætti störfum hjá Alvogen á árinu 2019.

Róbert Wessman er sakaður um líflátshótanir og árásir á starfsmenn.

Svafa Grönfeldt hafði þetta að segja um atvikið í tölvupósti: „Vonandi dugar þetta til að setla þetta. Heyri í honum aftur eftir helgina. Vonandi að þetta fréttist ekki en það voru víst 15 manns sem sáu þetta“.

„Kýlingaleikur“

Halldór hefur einnig sakað Róbert um líkamsárás gegn sér á viðburði fyrirtækisins í París, en þá hafi sá síðarnefndi ráðist á hann með hnefahöggi í vitna viðurvist. Róbert mun hafa sagt að um „kýlingaleik“ hafi verið að ræða líkt og Hringbraut greindi frá.

Róbert baðst afsökunar

- Auglýsing -

Aðfaranótt 22. janúar, 2015, mun Róbert hafa ráðist fyrirvaralaust að Phil Price, breskum, samkynhneigðum stjórnanda Alvogen, með hnefahöggi í andlit. Stjórnandinn hafði starfað fyrir Róbert í ríflega áratug og hætti hjá fyrirtækinu á árinu 2019.

Björk Eiðsdóttir, blaðamaður Fréttablaðsins, staðfesti við Mannlíf að lýsing Fréttablaðsins á líkamsárásum í París og Austuríki hafi verið sannreynd af vitnum sem hún hafi persónulega rætt við. Árás Róberts á Panorama Royal-skíðahótelinu í Austuríki var þannig lýst í blaðinu þann 17. apríl 2021.

„Um 85 starfsmenn fyrirtækjanna voru samankomnir til að ræða markmið og áherslur komandi árs og hópurinn hittist í kvöldverði og um 30 starfsmenn voru svo á hótelbarnum eftir miðnætti þegar Róbert birtist skyndilega og hafði verið á hótelherbergi sínu.

Hótelbarinn á Panorama Royal í Austuríki þar sem meint árást á Phil átti sér stað.
- Auglýsing -

Samkvæmt lýsingu Halldórs virtist Róbert mjög ölvaður og mun hafa komið út úr lyftu á hótelinu og gengið rakleiðis að hótelbarnum þar sem umræddur starfsmaður stóð. Starfsmaðurinn sneri sér þá við og Róbert sló hann í andlitið fyrirvaralaust og án ástæðu.

Halldór segir um 30 vitni hafa verið að árásinni og hafði Fréttablaðið samband við einn þeirra sem staðfesti frásögnina.“

Þetta kemur heim og saman við lýsingu Svöfu á atvikinu þar sem fjöldi starfsmanna hafi orðið vitni og Phil hafi verið bæði „sad og shocked“. Ósk Svöfu um að málið fréttist ekki virðist hafa gengið eftir þar til nú. Viðkomandi stjórnandi mun síðar hafa sætt sig við afsökunarbeiðni Róberts á atvikinu sem hafi komið fáeinum dögum síðar. Róbert hefur áður gerst sekur um ósæmilega hegðun, en hann baðst afsökunar á morðhótunum gagnvart fyrrverandi samstarfsmönnum og fjölskyldum þeirra. Afsökunarbeiðni Róberts kom fram eftir að viðkomandi aðilar hótuðu að kæra málið til lögreglu og fyrir tilstuðlan erlendrar lögmannstofu. Róbert baðst svo aftur afsökunar á hótunum og sagði að um mistök hefði verið að ræða eftir að fjölmiðlar greindu frá málinu á síðasta ári. Stjórn Alvogen hefur engu að síður fullyrt að „engar stoðir“ séu fyrir ábendingum Halldórs um ósæmilega hegðun Róberts.

Róbert svarar ekki

Mannlíf hefur ítrekað boðið Róbert að tjá sig um meintar líkamsárásir og aðra meinta ósæmilega hegðun. Spurningar þess efnis voru sendar til hans og Láru Ómarsdóttur þann 19. janúar síðastliðinn. Að kvöldi sama dags var brotist inn í bifreið ritstjóra Mannlífs. Í framhaldinu var farið inn á skrifstofur útgáfunnar, framin skemmdarverk og tölvum stolið. Spurningum Mannlífs í 10 liðum var aldrei svarað.

Fyrirspurn var einnig send til Svöfu Grönfeldt, sem starfar nú hjá MIT háskólanum og er fyrrverandi bankaráðsmaður Landsbanka Íslands. Hún vildi ekki tjá sig um málið, en hún er skráð á vitnalista í máli Alvogen. Svafa svaraði spurningum Mannlífs í þá veru að þar sem um væri að ræða dómsmál myndi hún tjá sig í réttarsal um málið.

„Þar sem þú ert að fjalla um mál sem eru hluti af dómsmáli sem núna er fyrir Héraðsdómi og ef til þess kæmi að ég yrði kölluð til vitnis þá veit ég að þú skilur að ég tel réttast að tjá mig á þeim vettvangi. Þar mun ég að sjálfsögðu svara greiðlega öllum spurningum sem til mín yrði beint ef til þess kæmi,“ sagði Svafa í skriflegu svari til Mannlífs.

Þessari grein var eytt í innbrotinu á ritstjórn Mannlífs en endurheimtist síðar. Ítrekað skal að Róbert Wessman, sem býr yfir trúnaðargögnum úr bókhaldi útgáfufélags Mannlífs að eigin sögn, gaf út opinbera yfirlýsingu um að vera saklaus að innbrotunum.  Róbert var spurður sérstaklega um líkamsársásina á Phil Price, daginn fyrir innbrotið, en neitaði að svara spurningunni.  

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -