2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Brjóstamjólk vinsæl meðal vöðvabúnta

Finna má fjölda sölusíðna á Netinu þar sem brjóstamjólk gengur kaupum og sölum. Flestar eru síðurnar settar upp í þeim tilgangi að mæður sem eiga erfitt með að gefa brjóst geti keypt brjóstamjólk af mæðrum sem framleiða mikla mjólk. Nú hefur hins vegar færst í aukana að fólk og þá einkum og sér í lagi karlmenn sem stunda vaxtarrækt og kraftlyftingar falist eftir því að kaupa brjóstamjólk í þeim tilgangi að byggja hraðar upp vöðvamassa.

Hallfríður Kristín Jónsdóttir, ljósmóðir og IBLCE-brjóstagjafarráðgjafi, segir í samtali við Mannlíf að hún hafi heyrt af því að kraftlyftingafólk á Íslandi sé farið að kaupa brjóstamjólk af nýbökuðum mæðrum. „Þetta snýst, held ég, aðallega um að fá hreina fæðu og hrein prótein og þau gerast ekki hreinni en þetta,“ segir hún. „Það er ekki búið að gerilsneyða mjólkina eða vinna hana á nokkurn hátt. Þú ert með hreina afurð.“

Hún tekur fram að hún viti ekki hvort brjóstamjólk hafi fyrrnefnd tilætluð áhrif fyrir kraftlyftingafólk sem sækist eftir því að byggja upp vöðvamassa en fyrir nýbura sé hún svo sannarlega hrein ofurfæða. „Brjóstamjólkin er náttúrlega sérhönnuð fyrir manneskjur sem er líklega hennar stærsti kostur. Hún er próteinrík og inniheldur alla þessa ónæmisþætti sem þú færð ekki í annarri mjólk sem búið er að gerilsneyða.“

Hallfríður getur þess að broddmjólk sé enn næringarríkari, en það er sú mjólk sem kemur fyrst eftir að kona byrjar að mjólka. Broddmjólkin sé auðveld í meltingu og fitusnauð en rík af sykrum, prótínum og mótefnum eins og hvítfrumum, sem verja börn gegn mörgum skaðlegum fyrirbærum. Hún segist þó ekki vita til þess að íslenskir kraftlyftingarmenn hafi sótt sérstaklega í broddinn.

Evert Víglundsson, yfirþjálfari og eigandi Crossfit Reykjavík, sem vakti athygli í Biggest Loser, segist hafa heyrt af málinu þótt hann hafi ekki sjálfur þjálfað manneskju sem noti brjóstamjólk sem fæðubótarefni. Einnig viti hann til þess að íslenskt vaxtarræktarfólk sé farið að notast við broddmjólk úr kúm, enda sé kúamjólk mun próteinríkari en brjósta-mjólk.

AUGLÝSING


Aðrir líkamsræktarþjálfarar sem Mannlíf setti sig í samband við vegna málsins, höfðu allir heyrt af þessu og sömuleiðis af sölusíðunum á Netinu. Einn bendir á að í Japan sé brjóstamjólk t.a.m. mjög vinsæl neysluvara. Meira að segja sé hægt að kaupa hana í næstu verslun.

 Byggir upp ónæmiskerfið

Svo virðist þó vera sem fleira fólk en ungbörn og vaxtarræktar- og kraftlyftingafólk sé nú farið að neyta brjóstamjólkur, því Hallfríður segir dæmi þess að konur gefi krabbameinssjúklingum slíka mjólk. „Ég man eftir konu sem gaf frænda sínum, sem var mjög veikur af krabbameini, brjóstamjólk. Krabbameinslyfin brjóta náttúrlega niður allt ónæmiskerfið en brjóstamjólkin inniheldur efni sem styrkja ónæmiskerfið.“ Hún segir að vegna þess hversu hitaeiningarík mjólkin er sé hún líka góð fyrir sjúklinga með litla matarlyst.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is