Miðvikudagur 29. júní, 2022
14.8 C
Reykjavik

Yara frá Mósambík: „Ég kalla Ísland heimili mitt með hlýju í hjarta“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Yara Polana er 33 ára „introvert“, létt í lund og mikill vinnuforkur. Hún lærði grafíska hönnun við Listaháskóla Íslands og starfar nú sem [senior] forritari hjá íslenska app-fyrirtækinu YAY. Þegar aðstæður leyfa kemur hún fram með hljómsveitum sínum; Issamwera, Sunna Fridjons og Miðnótt. Í viðtali við Mannlíf ræðir hún um tónlistina, heimaland sitt og þegar hún flutti til Íslands til þess að fara í nám.

Yara er frá Mósambík og segir hún sitt heimaland vera heitt og þá á hún ekki bara við veðrið, heldur er hiti í fólkinu. Hún segir að fólkið í Mósambík sé vingjarnlegt, opið og að menningin sé mjög fjölbreytt.

Öll lönd eiga sína kosti og galla

„Upphaflega ætlaði ég til Noregs í nám, en manneskjan sem sá um þær ráðstafanir veiktist og ég flutti í kjölfarið til Íslands. Sem betur fer, þrátt fyrir erfiða tíma hjá henni, tókst þessari fallegu sál að gera ráðstafanir fyrir mig um inngöngu í Listaháskólann á Íslandi í staðinn.“

Yara hefur búið á Íslandi í nærri 10 ár og segir: „Öll lönd hafa náttúrlega sína kosti og galla. Ég hef varið lunganum úr mínum fullorðinsárum á Íslandi og íslensk menning leikið gífurlega stórt hlutverki í mótun minni í þá manneskju sem ég er í dag. Svo ég kalla Ísland heimili mitt, með hlýju í hjarta.“

Aðspurð hvort hún upplifi líkindi með þessum tveimur löndum segir hún:

„Fyrir utan verulegan pólitískan mun, þá er veðurfarið augljóslega mjög ólíkt. Hins vegar er fólkið í þessum tveimur löndum gífurlega vingjarnlegt og ósvikið og þá er tónlistar- og listasenan mjög lík. Sérstaklega núna, þegar internetið er orðið aðgengilegra á fátækari svæðum í Mósambík og auðveldara fyrir fólk að finna sig, en listin lifir á hverju horni. Þetta er það sem ég fann einnig hér á Íslandi og það sem fékk mig til að upplifa Ísland sem heimili. Listin og tónlistin er alls staðar og ef maður tekur henni opnum örmum þá dafnar maður.“

Þú getur alltaf fundið þinn sess hér

- Auglýsing -

Yara upplifir íslenska tónlistarsenu sem mjög fjölbreytta og ríka, allt frá poppi til rapps, reggí til metaltónlistar.

„Sama hvaða „niche“-stefnu þú tilheyrir þá geturðu alltaf fundið þinn sess hér, sem er mjög áhugavert fyrir tónlistarheila eins og minn.“

Geturðu sagt okkur frá hljómsveitinni Issamwera?

- Auglýsing -

„Issamwera er íslensk afro-djass-fúsjon-hljómsveit sem var stofnuð í miðbæ Reykjavíkur. Nafnið varð til úr íslenska orðinu samvera og orðinu issamwera úr tungumálinu sena frá borginni Beira í Mósambík. Orðið issamwera þýðir að koma eða að vera velkomin.“

Hljómsveitin var stofnuð árið 2013 eftir að tónlistarkonan Yara, einnig þekkt undir nafninu Monace og er fædd og uppalin í Mósambík, fékk „rytma-köllun“ að eign sögn. Yara leikur á aragrúa hljóðfæra en gítar er aðalhljóðfærið. Uppspretta verkefnisins var heimþrá, en Yara hljóðritar allt sitt efni í eigin heimastúdíói. Eftir að hún kynntist tónlistarmönnunum Ellerti, Andres, Cheik, Ingó og Kwami varð hugmyndin að raunveruleika. Þeir krydduðu hugmyndina með nýjum hljómi, kraftmiklum afrískum trommum og sterkum suðuramerískum straumum. Frá þeim tíma fékk hún trú á að það sem var að skapast væri einstakt og þess virði að halda áfram að móta.

Kjarna hljómsveitarinnar mynda Andres á bassa, Cheik og Kwami á slagverk, Ellert á hljómborð, Ingólfur á gítar, og Yara á trommusett og í lagasmíðum. Á plötunni koma einnig fram gestaspilarar; Sunna Friðjónsdóttir, á þverflautu og söng, og Arianna Ferro, sem syngur bakrödd.

Blanda af afrískum og latín-töktum

Við spilum blöndu af afrískum, latín- og djassrytmum. Hvert lag hefur sína sögu, sitt eigið ferðalag, og er jafnvel sín eigin tegund innan þessarar blöndu.

Hljómsveitin hefur komið fram á Iceland Airwaves Offvenue, Fest Africa Reykjavík í Iðnó, Vinyl Restaurant, Kaldabar, en uppáhaldsgiggið var á Menningarnótt á Vínyl, en þar náðum við hverjum einasta gesti út á dansgólfið.“

Fyrsta plata þeirra mun koma út um út mitt þetta ár, en þau söfnuðu fyrir kostnaði hennar í gegnum Karolina Fund með 130% söfnun. Þau sem hafa styrkt geta nú þegar fengið aðgang að plötunni. 

Nokkur lög hafa verið gefin út á streymisveitum og eitt lag af plötunni, suðræna lagið Ástin mín, og einnig lagið Lifa lengur, kom út 17. desember síðastliðinn og er stútfullt af afrískum töktum.

Hvernig kom til að þessi hópur hljómlistarmanna náði saman?

Við tengjust á ákveðinn hátt, við trúum því öll að saman getum við náð langt og skapað magnaða tónlist og það er það sem hljómsveitin stendur fyrir. Okkur langar að deila með fólki hver við erum, hvaðan við komum, hvað við höfum upplifað, í gegnum tónlistina, og besta leiðin er að gera það saman, með þeim sem taka manni opnum örmum.“

Upplifa orkuna, kærleikann og gleðina

Hafi þið upplifað áskoranir sem tónlistarfólk upp á síðkastið og hvað hefur verið eftirminnilegast?

„Fyrir utan að ná 130% söfnun fyrir plötunni okkar, eru uppáhaldsminningarnar tengdar „live“ framkomum, þá sérstaklega á Menningarnótt þar sem stuðið var í hámarki. Þrátt fyrir að við hefðum takmarkaðan tíma til að spila bað fólk sífellt um meira. Tónleikar okkar eru fullir af orku og gleði sem kveikir líf í fólki, og þar sem það er ekki eins að upplifa tónlist í gegnum upptöku og heyrnartól, þá hvetjum við fólk að mæta á tónleika hjá okkur í febrúar, til að upplifa orkuna, kærleikann og gleðina.

Annars segir Yara að það séu alltaf áskoranir í tónlistarbransanum. „Heimsfaraldurinn hefur ekki gert okkur auðvelt fyrir að skipuleggja tónleikaferðalög og tónleika. Auk þess erum við að leita eftir útflutnings- og útgáfutækifærum, sem er erfitt þegar hljómsveitin passar ekki inn í rammann sem útflutningsfyrirtækin eru að leita að.“

Tónlistin leiðir inn suðræna, afríska veröld

Við erum að vinna í tónlistarmyndböndum fyrir lagið sem nú þegar er komið út, Ástin mín, og lagið sem kom út 17. desember, Lifa lengur. Einnig munum við gefa út tvö önnur lög af plötunni á streymisveitur, annað nú í janúar og hitt í febrúar, ef ég man rétt.

Við viljum þakka öllum sem trúðu á okkur og styrktu okkur í gegnum Karolina Fund, þið voruð þau fyrstu sem trúðuð á okkur og gerðuð þetta allt mögulegt. Fyrir ykkur sem þekkið okkur ekki, en laðist að framandi töktum, þá erum við hér. Og með tónlistinni munum við leiða ykkur í suðræna, afríska veröld. Fylgið okkur á samfélagsmiðlum, undir @issamweraband á Instagram og Facebook, og á Spotify undir nafninu Issamwera svo þið missið ekki af neinu.“

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -