Aberdeen – skosk sveitarómantík

Deila

- Auglýsing -

Aberdeen er þriðja stærsta borgin í Skotlandi og þangað er auðvelt að taka lest frá bæði Glasgow og Edinborg. Borgin er stundum nefnd granítborgin vegna grárra og gamalla graníthúsa sem einkenna hana og gefa dulúðugan blæ. Aberdeen og sveitirnar í kring hafa upp á margt að bjóða fyrir ferðalanga en á svæðinu er að finna kastala, golfvelli, almenningsgarða og strendur, svo fátt eitt sé nefnt.

 

Þetta svæði er líka áhugavert fyrir sælkera því mikið er af góðu hráefni úr hafi og ám; sem dæmi má nefna lax, silung og lýsing (hake). Einnig er nokkuð um villibráð og angus-nautakjötið er einmitt frá Aberdeen-sýslu. Handverksbjórinn frá BrewDog, sem hefur verið í farabroddi á sínu sviði, er frá svæðinu og nokkuð margar viskíverskmiðjur er þar einnig að finna. Sérlega skemmtilegt er að keyra um sveitirnar og gista og borða á sveitasetrum og í köstulum en það er alls ekki svo dýrt, sér í lagi á virkum dögum. Hér eru nokkrar hugmyndir og ábendingar um skemmtilega og áhugaverða hluti að gera, borða og drekka í Aberdeen-sýslu.

Hagnýtar upplýsingar

Loftslag

Júlí og ágúst eru heitustu mánuðirnir með 14°C meðalhita en janúar er kaldastur með 3°C meðalhita. Nokkuð sterkir vindar frá Norðursjónum geta blásið á borgina og ferðalangar geta átt von á regni. Úlpa, þykk peysa, regnhlíf og jafnvel vettlingar henta fyrir veturinn en yfir sumartímann er gott að pakka aðeins léttari fatnaði.

Gisting

Hægt er að fá gistingu á mjög góðu verði í Aberdeen.

Einn af kostunum við Aberdeen er að hægt er að fá gistingu á mjög góðu verði. Ég gisti á Skene House Hotel Suites sem er íbúðahótel í u.þ.b. 10 mínútna göngufæri frá miðbænum. Vefsíða: skene-house.co.uk. Einnig er gaman að gista aðeins fyrir utan bæinn í kastölum eða á sveitasetrum.

Þjórfé

Oft er þjónustan ekki innifalin í verðinu og góð regla er að bæta 10% við reikninginn á veitingahúsum og í leigubílum. Þegar drykkir eru keyptir á bar er óþarfi að gefa þjórfé en algengt er að gefa töskuberum smávegis skotsilfur.

Hugmyndir fyrir sælkera

Thistle Street Food Market

Þessi matarmarkaður er haldinn annan laugardag hvers mánaðar í West-End í Aberdeen en á svæðinu eru mörg kaffi- og veitingahús ásamt skemmtilegum sérvöruverslunum. Vörurnar á markaðnum eru aðallega frá ræktendum og framleiðendum í Aberdeen-sýslu og mætti nefna ýmislegt grænmeti, villibráð, handverksbjór, heimabakað brauð, fudge (mjúk karamella) og sítrónusmjör, svo fátt eitt sé nefnt.

Matreiðslunámskeið í Nick Nairn-kokkaskólanum

Hér er hægt að sækja fjölbreytt matreiðslunámskeið, allt frá tveggja tíma upp í dagsnámskeið, en einnig er hægt að fara á sýnikennslunámskeið og sötra gott vín á meðan. Hér er vissulega gott að panta með einhverjum fyrirvara.

BrewDog-handverksbjór

Á BrewDog-barnum er hægt að smakka mikið úrval bjórtegunda.

BrewDog er bruggverksmiðja sem hóf starfsemi sína fyrir 10 árum í Aberdeen-sýslu og framleiðir margar tegundir af svokölluðum „craft-bjór“, eða handverksbjór. Á BrewDog-barnum er hægt að smakka mikið úrval bjórtegunda en þar er einnig hægt að fá mat með. Enginn bjóráhugamaður ætti að sleppa heimsókn þangað.

 

Þessi viskíverksmiðja var stofnuð árið 1793.

Glen Garioch-viskíverksmiðjan

Þessi viskíverksmiðja var stofnuð árið 1793 af Glen Garioch og hefur því framleitt „single“ maltviskí í yfir 200 ár. Hægt er að skoða verksmiðjuna með leiðsögumanni sem lýsir á skemmtilegan máta framleiðsluferlinu. Verksmiðjan er lítil og heimsóknin tekur rúma klukkustund með viskísmökkun sem er algerlega nauðsynleg!

Vínsmökkun á The Tippling House

The Tippling House er neðanjarðarknæpa þar sem áhersla er lögð á gott úrval af handverksbrugguðu áfengi og bjór, þeir eru frægir fyrir góða kokteila úr fyrsta flokks hráefni og einnig er hægt að fá skoskt viskí. The Tippling House býður upp á fjöldann allan af námskeiðum um viskí, gin og aðrar víntegundir sem afar gaman er að fara á, hægt er að hala niður bæklingi um þessi námskeið af vefsíðu þeirra.

Nokkrir áhugaverðir hlutir að gera

Golf á Meldrum House-golfvellinum

Meldrum House er gamalt sveitasetur frá 13. öld sem breytt hefur verið í 4 stjörnu hótel. Þar er stór og fallegur golfvöllur fyrir þá sem vilja munda kylfuna en einnig er gaman að gista og borða á hótelinu sem er einstaklega fallegt.

Prófaðu „segway-farartæki“

Það getur verið gaman að ferðast um á segway.

Í litlum almenningsgarði í Aberdeen er hægt að læra á þetta frábæra farartæki sem kemur skemmtilega á óvart og ég mæli sannarlega með.

Verslaðu í Aberdeen

Öll helstu vörumerkin er að finna í Aberdeen og þar eru fimm verslunarmiðstöðvar ásamt fjöldanum öllum af litlum búðum. Stærsta verslunarmiðstöðin er Union Square og aðalverslunargöturnar eru Uninon Street og George Street.

Skoðaðu kastala

Í Aberdeen-sýslu eru 300 kastalar sem flesta er hægt að berja augum, margir hverjir eru opnir almenningi og í sumum er hægt að gista. Ég skoðaði kastala sem heitir Crathes Castle og var einstaklega áhugaverður. Ég mæli með leiðsögn, þannig lifnar allt umhverfið við! Þess má geta að í Crathes-kastala er frægur draugur, kona í grænum kjól, sem gestir geta jafnvel orðið varir við.

Það er nóg um kastala í Aberdeen.

Umsjón og myndir / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir / Visitaberdeen

 

- Advertisement -

Athugasemdir