Ættað frá matarmarkaði í LA: Avókadó-tacos með maíssalsa og chipotle-sósu

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Gestgjafinn heimsótti fyrir nokkrum misserum matarmarkaðinn The Grand Central Market í Los Angeles sem opnaði árið 1917 og hefur því að geyma yfir 100 ára sögu. Hann er einkar spennandi fyrir mataráhugafólk og forfallna sælkera og matreiðslubókin The Grand Central Market eftir Adele Yellin og Kevin West var gefin út af markaðnum með uppskriftum frá stöðunum, sem hafa verið aðlagaðar fyrir heimiliskokka. Við útfærðum þessa uppskrift úr bókinni og elduðum hér í tilraunaeldhúsi Gestgjafans við afar góðar viðtökur.

 

Avókadó-tacos með maíssalsa og chipotle-sósu frá Golden Road Brewing

Eigandi Golden Road Brewing er vegan og þess vegna langaði hann að bjóða upp á stökkan og bragðgóðan slíkan rétt sem endurspeglaði taco-menningu markaðarins. Golden Road Brewing er á standi A-9.

fyrir 6-8

235 ml gott majónes
2 msk. chipotle-mauk
safi úr ½ sítrónu
sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
190 g hveiti, meira eftir þörfum
½ tsk. hvítlauksduft
½ tsk. chili-duft
235 ml ljós bjór, meira eftir þörfum
3 avókadó, passið að þau séu ekki of þroskuð, það þarf að vera hægt að skera þau án þess að þau maukist í höndunum
250 g japanskt brauðrasp (panko)
olía til að djúpsteikja
18 maísvefjur eða tortilla-vefjur, litlar
fínt skorið rauðkál, til að bera fram
límónusneiðar, til að bera fram

Blandið saman majónesi, chipotle- mauki og límónusafa í litla skál. Bragðbætið með salti og pipar. Setjið til hliðar. Hrærið saman hveiti, hvítlauksduft og chili-duft í skál. Hellið bjórnum saman við hveitiblönduna og notið písk til að hræra blönduna saman þar til allt hefur samlagast vel og blandan líkist pönnukökudeigi. Bætið við meira hveiti eða bjór eftir þörfum ef deigið verður of þykkt eða of þunnt. Skerið eitt avókadó í einu í 6 sneiðar langsum, án þess að taka hýðið af.

Notið hnífinn til að losa avókadósneiðarnar frá steininum og fjarlægið hýðið. Dýfið einni sneið í einu í deigið, takið sneiðina upp úr og látið aukadeigið renna af. Veltið því næst sneiðinni upp úr brauðraspinum og þrýstið vel þannig að raspurinn festist við. Setjið sneiðina á bakka og endurtakið ferlið með restinni af avókadóinu. Hitið olíu í þykkbotna potti þannig að hún nái u.þ.b. 5 cm upp frá botninum, hér er einnig hægt að nota djúpsteikingarpott sé hann til. Olían ætti að vera 190°C þegar byrjað er að steikja.

Steikið nokkrar sneiðar af avókadó í einu í u.þ.b. 3 mín. eða þar til sneiðarnar eru gullinbrúnar. Setjið sneiðarnar á eldhúspappír til að láta olíu renna af. Setjið tortilla-köku á bretti og fyllið með skornu rauðkáli, avókadósneiðum, chipotle-sósu og maíssalsa. Berið fram með límónusneiðum til að kreista yfir, auka maíssalsa og chipotle-sósu eftir smekk.

Maíssalsa
2 rauðar paprikur
2 stk. heill maís
½ rauðlaukur, saxaður smátt
hnefafylli kóríander, saxað smátt
safi úr 4 límónum
sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar, til að bragðbæta

Grillið paprikuna á heitu grilli eða grillpönnu þar til skinnið á paprikunum er byrjað að brenna allan hringinn. Hér er einnig hægt að hafa ofn á háum hita og elda grænmetið þannig. Pakkið paprikunum inn í álpappír og látið kólna í 15 mín. Nuddið skinnið af paprikunum og skerið þær í tvennt.

Fræhreinsið paprikurnar og skerið í litla teninga, setjið í skál. Grillið maísinn á grilli eða heitri pönnu þar til grillför hafa myndast allan hringinn. Skerið maískornin af og blandið saman við paprikuna. Blandið saman við rauðlauk, kóríander og límónusafa.

Bragðbætið með sjávarsalti og svörtum pipar. Berið strax fram.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira