Áhugaverð söfn í Berlín

Deila

- Auglýsing -

Fáar borgir státa af jafnmörgum spennandi söfnum og Berlín.

Borgin hefur verið vinsæl meðal Íslendinga undanfarin ár og þarf engan að undra þar sem Berlín iðar af fjölbreyttu mannlífi hvert sem litið er og víða eru fallegar byggingar og minnismerki sem minna okkur á heimsstyrjöldina síðari. En fáar borgir státa af eins mörgum söfnum, en Berlín er hreinlega paradís fyrir safnanörda með sín 175 söfn. Þegar svo mörg söfn eru í boði getur valið verið erfitt og það eru ekki endilega alltaf þau vinsælustu sem eru best. Hér bendum við á afar áhugaverð söfn í Berlín sem ferðalangar ættu að gefa gaum.

Náttúrusafnið – Natural history museum of Berlin
Í mörgum stórum borgum eins og London og New York er að finna náttúrusöfn og Berlín er engin undantekning þar á því borgin hefur að geyma einkar áhugavert og vel gert náttúrusafn eða Museum für Naturkunde eins og safnið heitir á þýskri tungu. Safnið er einnig ein mikilvægasta rannsóknarstöð á sínu sviði í heiminum en yfir 800.000 manns heimsækja safnið ár hvert. Á safninu er meðal annars hægt að skoða risaeðlubein, fugla og ýmis önnur dýr en einnig er gaman að fræðast um jörðina í gegnum stórt líkan sem er skemmtilega framsett. Þetta er afar fræðandi safn sem gaman er að fara á og þá sérstaklega með börnum.
Vefsíða: museumfuernaturkunde.berlin

Það er vel þess virði að heimsækja Safn um sögu læknavísindanna.

Safn um sögu læknavísindanna – The Berlin Museum of Medical History
Einstaklega áhugvert safn um sögu læknavísindanna undanfarnar fjórar aldir og fram á okkar tíma. Þarna eru ýmis sýni af líkamspörtum og lækningatól sem sum hver fá eflaust einhver hár til að rísa á gestkomandi. Munirnir á safninu telja um 750 sem eru allir vel útskýrðir. Þetta er skemmtilegt safn að skoða fyrir þá sem hafa áhuga á mannslíkamanum, líffræði og læknavísindum og bara alla þá sem vilja skoða önnur söfn en lista- og stríðssöfn í Berlín.
Vefsíða: bmm-charite.de

Tæknisafnið í Berlín – The Deutsches Tecknikmuseum
Sérlega lifandi og áhugavert vísinda- og tæknisafn sem gaman er að skoða og kannski sérstaklega með börnum og unglingum þar sem það hefur mikið menntunargildi. Safnið var stofnað árið 1982 og er staðsett rétt hjá Potsdamer Platz en allt frá 1874 var þar iðnaðarsvæði og síðan var svæðið lestarmiðstöð. Safnið er stórt og hluti af því er utandyra í fallegum garði en þar eru til að mynda tvær vindmyllur og vatnsmylla ásamt fleiri áhugaverðum byggingum. Hægt er að skoða bíla, báta, flugvélar og lestir og ýmislegt er hægt að snerta og upplifa. Tæknin og tækin sem sýnd eru á safninu eru bæði gömul og ný og safnið er sérlega fjölbreytt.
Vefsíða: sdtb.de

Gyðingasafnið – Jewish museum
Saga gyðinga er samofin sögu Berlínar en einna átakanlegasti hlutinn er vissulega helförin sem flestir þekkja. Á þessu safni er saga gyðinga rakin en ekki eingöngu út frá útrýmingunni og hörmungunum í seinni heimsstyrjöldinni heldur saga þeirra og menning í heild sinni. Margir fallegir og áhugaverðir munir eru í safninu sem er afar vel skipulagt og vel framsett. Byggingin sjálf er afar skemmtileg bæði að utan og innan en það var arkitektinn Daniel Libeskind sem hannaði safnið sem þykir mikið meistaraverk og sérlega áhugavert er hvernig arkitektúrinn er notaður til að túlka hörmungar helfararinnar.
Vefsíða: jmberlin.de

Ferðamáti
WOW air flýgur til Berlínar allan ársins hring. Verð frá 6.999 kr. aðra leið með sköttum.

 

- Advertisement -

Athugasemdir