Áhugaverðir staðir fyrir sælkera í Montréal

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Montréal er vinaleg borg í frönskumælandi hluta Kanada og þangað er gaman að koma enda borgin bæði fögur og fjölbreytt. Mikið er um útivistarsvæði þar sem hægt er að ganga, skokka eða hjóla en einnig er gaman að rölta um gamla bæinn og skoða fallegar byggingar. Hluti af ferðalögum er að upplifa borgir og staði í gegnum mat og drykk og hér eru nokkrir skemmtilega öðruvísi staðir, sumir með skemmtilega sögu, sem sælkerar ættu að gefa gaum.

Kleinuhringir og beyglur frá Farimont.

FAIRMONT BEYGLUR
Hér er hægt að fá bestu beyglurnar í Montréal og þær eru skrambi góðar og alveg þess virði að gera sér ferð upp í Mile End hverfið til að smakka. Isadore Shlafman byrjaði að baka beyglur árið 1919 á Saint-Lawrence Boulevard og flutti svo starfsemi sína í lítið hús á Fairmont street árið 1949 þar sem það er enn. Frá upphafi hafa beyglurnar verið rúllaðar í höndunum og bakaðar í viðarofni sem gefur þeim einstaklega gott bragð. Ég fékk mér klassíska býbakaða og volga sesambeyglu sem var dásamleg. Einnig eru beyglurnar frá St-Viateur Bagels mjög góðar og heimamönnum kemur ekki alltaf saman um hvor gerðin er betri.
Vefsíða: fairmountbagel.com.

LA CAPITAL TACOS
Afar skemmtilegur mexíkóskur staður í miðju Kínahverfinu sem einblínir á ekta tacos eins og þau eru í upprunalandinu sjálfu. Allt er gert frá grunni á staðnum og maturinn er í hálfgerðum götumatarstíl. Hægt er að horfa á kokkana að störfum ef setið er við barinn sem er skemmtilegt. Ég mæli með því að fólk fái sér litlu réttina á undan, t.d. Guacamole með tortillum og Frijoles refritos sem er afar áhugavert. Þrjár kökur eru í hverjum tacos-skammti sem bornar eru fram á litríkum kínverskum diskum til að heiðra hverfið sem staðurinn er í en hann er pínulítill og ekki er hægt að panta borð svo búið ykkur undir að þurfa að standa í röð, sem reyndar gengur fremur hratt. Gott er að forðast álagstíma og koma annaðhvort snemma eða seint.
Vefsíða: lacapitaltacos.ca

KAZU – JAPANSKUR
Einkar skemmtilegur japanskur matsölustaður sem hefur verið mjög vinsæll um nokkurt skeið. Um er að ræða pínulítinn stað með einungis 24 sætum þar sem allt er eldað fyrir framan gesti og því mæli ég með því að sitja við barinn, þar er mikil stemning og eigandinn, Kazuo Akutsu, spjallar og sprellar við gesti á meðan hann stýrir kokkunum og eldar. Matargerðin er fremur óhefðbundin, hægt er t.d. að fá ýmsa rétti með grilluðu kjöti og heimagerðu tofu sem er afbragðsgott og rækjuborgara og ýmislegt fleira en matseðillinn breytist ört. Hér er ekki hægt að panta borð heldur verður að mæta og bíða í röð þar til sæti losna, en starfsmennirnir koma út með matseðla svo hægt er að taka pöntunina um leið og gestir setjast og því gengur allt fremur hratt fyrir sig.
Vefsíða: kazumontreal.com

SCHWARTZ´S
Af öllum þeim stöðum sem ég fór á í Montréal var röðin fyrir utan þennan stað sú allra lengsta og biðin getur tekið upp undir klukkutíma þegar mest lætur. Staðurinn er frægur fyrir reykta kjötsamloku en allt kjötið er reykt á staðnum eftir gömlum aðferðum. Upphaflega var staðurinn í eigu gyðingafjölskyldu en núna á Celine Dion þennan sögufræga og vinsæla stað. Schwartz´s er pínulítill með fáum borðum og stólum sem rekast saman, hver við annan, það er svolítið eins og að ganga nokkra áratugi aftur í tímann að fara þarna inn, ekta amerísk „diner“-búlla. En það er þess virði að bíða því kjötið er einstaklega gómsætt.
Vefsíða: schwartzsdeli.com

WILENSKY´S
Einkar skemmtilegur samlokustaður sem var opnaður árið 1932 sem rakarastofa og vindlabúð og hefur verið í sömu fjölskyldu alla tíð. Ruth, eiginkona Wilensky, starfaði þar til 93 ára aldurs en hún lést nýverið og dóttir hennar sér um staðinn núna. Að koma inn á Wilensky´s er eins og að fara inn í tímahylki en við blasa gamlar innréttingar, græn-pastelmálaðir veggir og eldgamlir mjóir stólar sem skrúfaðir eru við gólfið en einungis er hægt að sitja við barinn eða taka með sér. Staðurinn er frægastur fyrir samloku með einskonar malakoffi en brauðið líkist svolítið hamborgarabrauði og er sérstaklega bakað fyrir Wilensky´s. einnig eru þeir þekktir fyrir heimagert gos sem er áhugavert.
Vefsíða: wilenskys.com

FERÐAMÁTI
WOW air flýgur til Montréal allan ársins hring. Verð frá 12.999 kr. aðra leiðina með sköttum.

ALÞJÓÐAFLUGVÖLLURINN TRUDEAU er í um 20 km fjarlægð frá borginni en hann er nokkuð stór með mörgum veitingahúsum og verslunum fyrir þá sem komust ekki í búðir í borginni. Auðvelt er að taka leigubíl frá vellinum inn í borg en það kostar í kringum 40 kanadíska dollara. Ég mæli með rafmagnsleigubílunum Téo Taxi en hægt er að panta þá í gegnum appið Teo sem virkar að mörgu leyti eins og Uber. Þeir sem vilja ekki nota appið geta farið á standinn þeirra á flugvellinum.
Hægt er að leigja borgarhjól í Montréal sem heita Bixi en góðir hjólastígar eru í borginni og því nokkuð auðvelt að ferðast um en gott er þó að hafa í huga að borgin er hæðótt og reynir því stundum á.

Rafmangið er eins og í Bandaríkjunum 110 volt. Mörg nýleg hótel eru reyndar með USB-tengi en ég mæli samt með því að fólk taki með sér millistykki.

 

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira