• Orðrómur

Algengur misskilningur að konur kunni ekki að meta góðan bjór

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Bjór er fyrir konur jafnt sem karla, segja þær Þórey Björk Halldórsdóttir og Sigríður Ásgeirsdóttir, konurnar á bak við brugghúsið Lady Brewery. Bjór hefur gjarnan verið markaðssettur sem karladrykkur í auglýsingum í gegnum árin, að þeirra sögn, en þær vilja knýja fram breytingar í þeim efnum. Það eru spennandi tímar fram undan hjá Þóreyju og Sigríði en þær eru þessa stundina að setja upp höfuðstöðvar Lady Brewery í húsnæði úti á Granda.

Þórey og Sigríður eru að hrinda af stað skemmtilegum verkefnum í tengslum við brugghúsið. Þær hafa sett af stað söfnun á Karolina Fund en markmið þeirra er að setja upp svokallað tilraunaeldhús og stofna leyniklúbb, Leyniklúbbinn Lady. Tilgangur tilraunaeldhússins verður að gera spennandi tilraunir í bjórgerð með hráefnum úr íslenskri náttúru. Tilraunaeldhúsið mun spila stórt hlutverk í verkefninu „Rannsókn á íslenskri náttúru í bjórgerð“ sem Þórey og Sigríður eru með í pípunum.

Lady Brewery var sett á laggirnar í september 2017 og síðan þá hefur ávallt verið lögð áhersla á að notað mikið af íslenskum hráefnum úr nærumhverfinu í bjórinn. „Við tínum til að mynda reglulega náttúrulegar viðbætur til að krydda bjórana okkar. Við leggjum mikið upp úr útliti og vöndum okkur í framleiðslunni.“

- Auglýsing -

Þórey Björk Halldórsdóttir er stofnandi og eigandi Lady Brewery.

Hingað til hefur Lady Brewery verið farandbrugghús en núna eru þær Þórey og Sigríður að koma sér fyrir úti á Granda í Reykjavík. Tilraunaeldhúsið verður hjarta staðarins, að sögn þeirra, en eins og staðan er núna þarf að gera mikið fyrir húsnæðið áður en þær geta hafið reksturinn og byrjað að taka á móti gestum.

„Growler“-flöskur í partíið

- Auglýsing -

Höfuðstöðvar Lady Brewery á Grandanum verður skemmtilegur suðupunktur þar sem kraft-bjór og spennandi viðburðir og nýjungar verða í aðalhlutverki. Þær Þórey og Sigríður ætla til að mynda að koma „growler-bar“ fyrir í húsnæði Lady Brewery. Þar verður hægt að fylla á svokallaðar „growler-flöskur“.

„Growlerinn er notaður víða erlendis og margar af mínum uppáhaldsbjórbúðum eru með svona growler-bar. Þetta hefur ekki tíðkast á Íslandi. Þetta er umhverfisvæn og skemmtileg leið til að nálgast ferskan bjór. Growler er sem sagt flaska með skrúftappa og þú getur flutt bjórinn milli staða og haldið bragði, kolsýru og gæðum. Á growler-barnum getur fólk fyllt á eins lítra growlerinn fyrir partíið og verið þannig með extra ferskan bjór sem er kannski hvergi annars staðar fáanlegur.“

Growlerinn er fullkomin leið til að bjóða upp á bjór í partíi.

- Auglýsing -

Erfiðara að gera mistök sem kona í karllægum bransanum

Síðan Þórey stofnaði Lady Brewery hefur verið lögð áherslu á að vekja athygli á að bjór sé fyrir konur jafnt sem karlmenn. Spurðar út í hvernig er að vera kona í þessum bransa sem er tiltölulega karllægur segir Þórey: „Það er áhugavert. Í fyrstu þegar við byrjuðum að brugga í eldhúsinu komumst við fljótt að því hversu karllægur bransi þetta var, okkur fannst ekkert sérlega merkilegt við að vera konur að gera bjór en fólki, og aðallega körlum, fannst það merkilegt. Núna þegar við leggjum áherslu á að vera konur í bjór fáum við oft ræðuna: „Eruð þið ekki bara að gera góðan bjór, þurfið þið að segja að þið séuð konur líka?“ En ef við nefnum það ekki fáum við spurningar um hvernig það sé að vera kona að brugga bjór,“ segir Þórey.

„Okkur fannst ekkert sérlega merkilegt við að vera konur að gera bjór en fólki, og aðallega körlum, fannst það merkilegt.“

Hún segir að þær Sigríður séu stoltar af bjórnum sem þær brugga og segja gaman að vekja athygli á að Lady Brewey sé kvenrekið brugghús. „Það er samt klárlega erfiðara að gera mistök sem kona í þessum bransa, það er alveg ljóst. Við erum dæmdar harðar en aðrir en við njótum mikils stuðnings sem er okkur kær og mikilvægur.“

Þórey tekur fram að saga kvenna í bruggi sé löng, að hún spanni margar aldir aftur í tímann. „Það var ekki fyrir nema um það bil 150 árum sem karlar tóku yfir og konur voru í raun hraktar úr faginu. Það gerðist þegar kirkjan áttaði sig á því að konur væru að græða peninga á þessu, kirkjan tók þá yfir og ríkið setti alls kyns bönn á bjórgerð sem gerði konum ókleift að brugga,“ útskýrir Þórey. Hún segir að þeim Sigríði þyki þessi saga afar áhugaverð.

Haldnir verða spennandi viðburðir á vegum Leyniklúbbsins Lady úti á Granda, að sögn Þóreyjar og Sigríðar. Þær mæla með að áhugasamir bjórunnendur kynni sér leyniklúbbinn en félagar klúbbsins munu njóta ýmissa fríðinda, þeir geta m.a. komið reglulega í smökkum og fá að segja sína skoðun á þeim bjór sem verið er að brugga hverju sinni. Þeir sem gerast meðlimir í Leyniklúbbnum Lady eru svo sjálfkrafa komnir í bjóráskrift. Mynd / Hákon Davíð

Hún segir algengan misskilning að konur kunni ekki að meta góðan bjór. „Auglýsingum og markaðssetningu fyrir bjór og því hvernig á að neyta bjórs er miðað á karlmenn. Þessu langar okkur að breyta.“

Þórey segir tölurnar sýna og sanna hversu mikill kynjahalli er innan bjórbransans. „Þrjú prósent allra kraftbrugghúsa í heiminum eru í eigu kvenna. Þetta er sláandi og skrítin niðurstaða og okkur langar til að jafna út vogarskálarnar. Þess vegna stofnuðum við fyrirtæki sem við markaðssetjum sérstaklega fyrir konur og alla þá sem eru með konum í liði, ef svo má að orði komast,“ útskýrir Þórey.

„Það vill þannig til að við erum konur að gera bjór og við erum stoltar af bjórnum okkar.“

Hún tekur svo fram að gæði bjórsins sem þær brugga skipti mestu máli, ekki sú staðreynd að þær séu konur. „Það er gaman að gera bjór og það skiptir ekki máli hvernig þú skilgreinir kyn þitt þegar þú ert að brugga. Það vill þannig til að við erum konur að gera bjór og við erum stoltar af bjórnum okkar.“

En hvað er svona skemmtilegt við að brugga bjór?

Þórey segir erfitt að svara þessari spurningu, allt sem viðkemur því að brugga bjór er skemmtilegt að hennar mati. „Að búa til uppskrift, finna hráefnið, ímynda mér lyktina og bragðið, bruggunin, biðin á meðan bjórinn gerjast, smökkunin,“ telur Þórey upp. „Besta mómentið er bara þegar allt smellur saman, þegar búið er að vinna prufulagnir, finna nafnið, hanna útlitið, hanna upplifunina og viðburði í kringum bjórinn. Þegar bjórnum er svo loks tappað á flösku. Það er stundin sem maður bíður eftir í marga mánuði.“

First Lady, einkennisbjór Lady Brewery, hlaut „Runner Up“ eða annað sætið í Grapevine Hönnunarverðlaununum fyrir vöru ársins 2019.

Þórey er starfandi hönnuður og segir hönnunarbakgrunn sinn nýtast vel í ferlinu. „Ég er krítísk á hvernig hlutir eru gerðir en á sama tíma ofboðslega opin og elska þegar ég finn nýjar leiðir að hlutum. Við höfum alltaf sett bjórinn okkar í hönnunar- og listasamhengi og ég segi alltaf að við séum að „hanna“ bjór.“

Áhugasamir geta kynnt sér söfnun og áætlanir Þóreyjar og Sigríðar á Karolina Fund.

Við mælum svo með að fylgja þeim á Instagram.

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -