„Alls ekkert flókið“ að ná tökum á súrdeigsbakstri

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Bakarinn Marinó Flóvent Birgisson, kallaður Majó, hefur undanfarið birt gagnleg kennslumyndbönd á YouTube þar sem hann deilir fróðleik og kennir áhorfendum hvernig á að baka gómsæt brauð og annað góðgæti úr súrdeigi. Myndböndin hafa vakið mikla athygli og komið sér vel fyrir þá sem eru að fikra sig áfram í súrdeigsbakstri.

Majó er lærður bakari og starfaði sem slíkur til ársins 1988. Þá skipti hann um starfsvettvang og tók sér hlé frá bakstrinum. Nýlega fór hann svo að rifja upp gamla takta. „Ég fór þá að gera súrdeig en ég hafði ekki verið mikið í því áður,“ segir Majó sem hefur núna sett sig vel inn í súrdeigsbaksturinn.

Mynd / Majó

Súrdeigsbakstursáhuginn þróaðist svo út í það að hann hóf að gera umrædd kennslumyndbönd heima í eldhúsi. „Það er oft betra að fá leiðbeiningar í myndbandi og sjá hvernig hlutirnir eru gerðir, frekar en að lesa leiðbeiningar sem eru oftar en ekki á ensku. Það er ekki mikið til um súrdeigsbakstur á íslensku.“

Rúmlega 1.000 meðlimir á fyrsta sólarhringnum

Nýlega stofnaði Majó svo Facebook-hóp tileinkaðan bakstrinum, þá aðallega súrdeigsbakstri. Á einum sólarhring voru yfir 1.000 einstaklingar búnir að bæta sér í hann enda lumar Majó á ótal skotheldum bakstursráðum. Hópurinn er vettvangur fyrir meðlimi hans til að deila ráðum, leita svara og óska eftir aðstoð og innblæstri svo dæmi séu tekin.

„Rúmlega 1.000 manns á einum sólarhring, þessi fjöldi kom mér alveg rosalega á óvart. Ég áttaði mig ekki á hvað ég var búinn að hafa mikil áhrif á fólk með bakstrinum fyrr en ég stofnaði hópinn,“ segir Majó um viðbrögðin við Facebook-hópnum sínum. „Það er gríðarleg hvatning fyrir mig að fá þessi góðu viðbrögð.“

„Pínulítil vísindi“ að halda lífi í súrnum

Mikið súrdeigsbakstursæði hefur gripið um sig hér á landi eins og áhuginn á Facebook-hóp Majós gefur vísbendingu um. Spurður út í það segir Majó: „Ég er ekki alveg að átta mig á hvað veldur. En ég held að þessi heilsubylgja sem hefur farið af stað síðustu fimm til tíu ár, þar sem fólk er farið að hugsa meira út í hvað það lætur ofan í sig, sé rótin.“ Hann bendir svo á að þegar kórónuveirufaraldurinn skall á hafi fólk þurft að halda sig heima og þá fengið aukið svigrúm til að prófa sig áfram í súrdeigsbakstri.

Mynd / Majó

„Fólk er líka að átta sig á að það getur bakað rosalega gott brauð heima.“

Það getur verið mikil kúnst að ná tökum á súrdeigsbakstri en Majó segir súrdeigsbakstur vera á færi flestra. „Þetta er alls ekkert flókið. Fólk lendir oftast í vandræðum með að halda súrnum gangandi. Margir lenda í því að súrinn slappast,“ segir Majó. „Ég hef haldið mínum súr gangandi í næstum því sex ár og ég fæ alltaf svipaða útkomu með honum.

Majó talar um að það geti reynst sumum flókið að halda lífi í súrnum, það þarf að fóðra hann reglulega og vanda til verka hvað tímasetningar og magn varðar. Spurður hvort þetta sé eins og að eiga gæludýr segir Majó: „Já, þetta eru pínulítil vísindi. Það má til dæmis ekki offæða hann, eins og með gæludýrin.“

Áhugasömum er bent á YouTube-síðuna Majó Bakari. Hér fyrir neðan má sjá eitt af myndböndum Majós.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira