2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

„Almennt er ég hrifin af nesti og nestispásum“

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, hefur verið í eldlínunni eftir að heimsfaraldurinn náði til Íslands og samkomubannið sett á. Hún hefur vakið athygli á því að ástandið sé til þess fallið að auka heimilisofbeldi og hvatt fólk til að hafa augun opin og leita hjálpar. Sigþrúður var nýlega í viðtali í Gestgjafnaum um matarvenjur og -minningar þar sem hún deildi því meðal annars að henni finnst eldamennska yfirleitt flókin.

 

1. Hver er þín fyrsta matarminning? „Mamma í eldhúsinu, eitthvað að fást við mat, og gulleitur mjólkurgrautur með rúsínum í hádeginu daginn sem Jón afi dó.“

2. Hvað er alltaf til í eldhúsinu þínu? „Það er alltaf til eitthvað útrunnið og ótal sultukrukkur.“

3. Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? „Hann Gunnar Sandholt, vinur minn, eldar uppáhaldsmatinn minn. Það skiptir ekki öllu máli hvað það er, hann þekkir allar mínar kenjar og matvendni og eldar bara það sem mér finnst gott.“

AUGLÝSING


4. Eldar þú eftir uppskriftum eða tilfinningu? „Mér finnst best að elda eftir nákvæmum munnlegum leiðbeiningum, uppskriftir geta verið óþægilega ónákvæmar eins og „þangað til gullinbrúnt“ eða „eftir smekk“ og brjóstvitið bregst mér við þær aðstæður.“

5. Hver er þín fyrirmynd í eldhúsinu? „Gunnar, sbr. spurningu 3, hann eldar af hamingju og ástríðu.“

6. Hvað er það flóknasta sem þú hefur eldað? „Yfirleitt finnst mér eldamennska flókin en ég lagði einu sinni gríðarlega mikið á mig við að gera indverskan grænmetisrétt með óhemju mörgum innihaldsefnum. Hann var sögulega ólystugur en svo eftirminnilegur að dóttir mín talar enn um hann 17 árum síðar.“

7. Hvað er það skrítnasta sem þú hefur borðað? „Líklega einhver undarlegur tapasréttur úr ísskápnum mínum. Eða agnarlítill píranafiskur sem ég hafði verið pínd til að veiða fyrst og borða svo í Venesúela. Það var svolítið skrítið og ekki gott. Reyndar borða ég helst ekki skrítinn mat.“

8. Áttu þitt uppáhaldsnesti? „Almennt er ég hrifin af nesti og nestispásum. Réttanestið hennar Valnýjar mágkonu minnar er mjög gott, sérstaklega ef Sigrún systir mín bætir pönnukökum við það.“

9. Hver er uppáhaldsjólasmákakan þín? „Til skamms tímar voru lakkrístoppar uppáhalds en núna hef ég hætt að borða lakkrís af því að einhver taldi mér trú um að það væru meiri líkur en minni að ég dytti niður dauð ef ég héldi því áfram svo ég verð að finna mér nýtt uppáhald.“

10. Áttu uppáhaldseldhúsgræju? „Eiginlega ekki.“

11. Áttu þér einhverja veika hlið í eldhúsinu? „Ég er hvorki góð í að elda né baka og er löt við að ganga frá. Margar sem sagt.“

12. Kanntu gott sælkeratrix? „Hringja í vin.“

13. Hvaða þrjú hráefni tækir þú með þér á eyðieyju? „Túnfisk í dós, Hámark og Snickers.“

14. Hvaða tónlist myndir þú setja á fóninn með góðri máltíð? „Bubbi passar með öllu. Líka mat.“

15. Hvaða manneskju myndir þú bjóða í veislu ef þú gætir boðið hverri sem er? „Auðuni Karli, ömmustráknum mínum. Hann er skemmtilegasta manneskja sem ég þekki og ekki þurftafrekur þegar kemur að mat. Hann er kátur með skyrdós eða haframjöl og rúsínur í mjólk, kallar það hafragraut.“

16. Hvað væri heitasta umræðuefnið? „Hvolpasveitin og uglur sem sofa á daginn en leika sér á nóttunni.“

17. Hver er uppáhaldssælgætismolinn þinn? „Hér gildir það sama og um smákökurnar; eftir að lakkrís datt út verð ég að finna nýtt uppáhald.“

18. Ertu sælkeri eða saltari? „Sælgætisgrís.“

Lestu meira

Annað áhugavert efni