2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

„Ameríkanar eru mjög spenntir fyrir íslenska skyrinu“

Rósa Amelía Árnadóttir ætlar á næstunni að opna matarvagna í Texas og Flórída þar skyr verður í aðalhlutverki.

„Ameríkanar eru mjög spenntir fyrir íslenska skyrinu,“ segir Rósa Amelía Árnadóttir sem mun á næstunni opna skyrbar í Austin í Texas. „Nú þegar er íslenskt skyr selt í matvörubúðum í Austin.“

Skyrbar Rósu nefnist Tiny Iceland og verður svokallaður „food truck“ eða matarvagn. „Það er rosalega mikið að gera í „food truck“ geiranum í Ameríku núna. Matarvagnar hafa auðvitað verið vinsælir í langan tíma en vinsældirnar fara bara vaxandi,“ útskýrir Rósa sem stefnir á að byrja að selja skyr á tveimur stöðum í Austin í Texas. Næst mun hún opna tvo skyrbari í Orlando í Flórída.

Aðspurð hvernig það kom til að hún ákvað að opna skyrbar í Bandaríkjunum segir Rósa: „Ég kolféll fyrir Austin þegar ég fór í nám þar. En fyrir utan það þá hef ég verið sjúk í að búa í Ameríku alveg síðan ég fór fyrst í ferðalag til Flórída, þriggja ára gömul,“ segir Rósa sem stundaði háskólanám í viðskiptastjórnun í Austin í Textas.

„Ég flutti aftur heim árið 2017 og í byrjun 2018 fór ég að vinna að því að fá atvinnuleyfi í Bandaríkjunum. Það ferli tók tæpt ár og ég fékk leyfið samþykkt um áramótin.“

AUGLÝSING


Rósa segir það vera hægara sagt en gert að fara út í fyrirtækjarekstur í Bandaríkjunum sem innflytjandi. „Maður þarf að bjóða upp á eitthvað sem Ameríkaninn getur ekki gert sjálfur eða á erfitt með að gera. Þar kemur skyrið við sögu, það er svo séríslenskt,“ segir Rósa.

Spurð út í næstu skref segir Rósa að hún sé um það bil mánuði frá því að geta opnað fyrsta skyrbarinn og hefja rekstur. „Það eru nokkrir sem eru áhugasamir að koma inn í reksturinn með mér þannig að ég er á Íslandi næstu tvær vikurnar til að fara yfir möguleika með fjárfestum,“ útskýrir hún og bendir á að áhugasamir geti sent henni póst á [email protected].

Lestu meira

Annað áhugavert efni