Fimmtudagur 25. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Ananaskokteilkaka sem gælir við bragðlaukana

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Suðræni ávöxturinn ananas hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu og því deilum við hér yndislegri köku þar sem ananas kemur við sögu.

 

Piña colada er sætur drykkur með suðrænni sveiflu sem samanstendur af rommi, kókosmjólk og ananassafa. Hann hefur verið þjóðardrykkur í Púertó Ríkó síðan árið 1978 og hann er tilvalinn sem fyrirmynd að veglegri köku. Gómsæt og frábær uppskrift fyrir metnaðarfulla sælkera.

Ananas-Pina Colada-kaka

fyrir 12-16

BOTNAR
500 g hveiti
2 tsk. lyftiduft
1½ tsk. matarsódi
1 tsk. salt
225 g smjör
450 g sykur
1 msk. romm eða 2 tsk. rommdropar
4 egg, við stofuhita
5 dl ab-mjólk

Hitið ofninn í 180°C og smyrjið þrjú 22-24 cm kökuform. Sigtið saman hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt og hrærið. Þeytið smjör og sykur saman þar til létt og loftkennt, 3-4 mín. Bætið eggjunum saman við, einu í einu, og þeytið vel á milli. Bætið við romminu eða rommdropunum. Minnkið hraðann og bætið við helmingnum af þurrefnunum og þeytið þar til allt hefur samlagast deiginu. Hellið ab-mjólkinni út í og þeytið þar til allt hefur blandast vel saman. Bætið við afganginum af þurrefnunum og hrærið þar til allt hefur rétt svo samlagast. Klárið að blanda allt saman með sleikju. Skiptið deiginu á milli þriggja forma, u.þ.b. 600 g í hvert form. Bakið í ofni þar til kökuprjónn kemur hreinn út þegar honum hefur verið stungið í miðju kökunnar, 20-30 mín. Látið kólna í forminu í 15 mín. og takið síðan botnana úr formunum og látið kólna alveg á kökugrind. Setjið einn botn á hvolf ofan á kökudisk, smyrjið toppinn og hliðarnar með smávegis kremi til að rétt þekja botninn og setjið hluta af kreminu í krempoka og sprautið þykkri rönd með fram ystu hlið botnsins, setjið ananassultuna ofan á og leggið annan botn ofan á og endurtakið. Setjið síðasta botninn á hvolf ofan á og hyljið alla kökuna með þunnu lagi af kremi. Setjið kökuna inn í kæli í 30 mín. og smyrjið svo afganginum af kreminu á kökuna. Skreytið kökuna með ofnristuðum kókosflögum og kókosmjöli.

ANANASSULTA
3 litlar dósir hakkaður ananas
100 g sykur
1 msk. romm, má sleppa
1 msk. maíssterkja
½ dl vatn

- Auglýsing -

Setjið hakkaðan ananas og safann úr dósinni ásamt sykri og rommi í lítinn pott og setjið yfir meðalháan hita. Hrærið til að leysa sykurinn upp og náið upp hægri suðu. Sjóðið í 5-10 mín. eða þar til ananasinn mýkist. Hrærið saman maíssterkju og vatn í lítilli skál til að leysa sterkjuna upp. Hrærið saman við sultuna og látið malla í 5 mín. til viðbótar. Hellið sultunni í skál og látið kólna.

KREM
190 g eggjahvítur (úr 5-6 eggjum)
250 g sykur
400 g smjör, skorið í bita
1 msk. romm eða 1 tsk. rommdropar
2 msk. kókosrjómi

Hrærið saman eggjahvítur og sykur í hitaþolinni skál og setjið síðan skálina yfir pott með hægsjóðandi vatni (passið að botninn á skálinni snerti ekki vatnið). Eldið eggjahvíturnar og sykurinn yfir vatnsbaði þar til sykurinn hefur leyst upp og blandan verður seigfljótandi og heit. Takið skálina af pottinum og hellið í hrærivélarskál. Notið pískinn á hrærivélinni og þeytið þar til stífir toppar myndast og blandan hefur náð stofuhita, þetta gæti tekið allt að 10 mín. Skiptið pískinum út fyrir spaða og bætið smjörinu saman við, einum bita í einu, hafið vélina á meðalhraða. Ef kremið lítur út fyrir að hafa skilið sig er nóg að auka við hraðann á vélinni þar til kremið hefur samlagast aftur. Þegar öllu smjörinu hefur verið bætt saman við er rommi og kókosrjóma hellt út í skálina og öllu blandað vel saman. Geyma má kremið inni í ísskáp í allt að 3 daga en það þarf að ná stofuhita aftur áður en því er smurt á kökuna.

- Auglýsing -

SKRAUT
1½ dl kókosflögur
1½ dl kókosmjöl

Hitið ofn í 180°C. Dreifið úr kókosflögum í litlu eldföstu formi og gerið það sama við kókosmjölið í öðru formi, passið vel því að kókosmjölið brúnast fljótt. Bakið í ofni í 5-10 mín., eða þar til kókosinn er orðinn fallega gylltur. Takið úr ofninum og látið kólna

Texti/Nanna Teitsdóttir
Stílisti/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -