Appelsínueftirréttur á spænskum nótum

Deila

- Auglýsing -

Fínlegur og fallegur í matarboð.

Góður eftirréttur er ómissandi í matarboð og máltíðin er fullkomnuð með góðum eftirrétt. Þegar matseðill fyrir matarboð er settur saman er mikilvægt að huga að samsetningunni og sniðugt til dæmis að hafa ákveðin þemu.

Ef forrétturinn er fiskur er tilvalið að bjóða upp á kjöt, grænmeti eða pasta í aðalrétt. Rjómalöguð sveppasúpa passar kannski ekki með rjómalöguðu pasta. Einnig er mikilvægt að huga að eldunartíma og aðferðum. Gott er að hafa rétti sem hægt er að undirbúa að hluta til fyrir fram enda fátt leiðinlegra, bæði fyrir gestgjafa og gesti, ef sá fyrrnefndi stendur sveittur yfir eldamennskunni allt kvöldið og er þar af leiðandi ekki þátttakandi í boðinu. Eftirrétturinn sem ég gef ykkur uppskrift að hér er einmitt hægt að útbúa fyrir fram.

Appelsínu-karamelluflan með sykurskrauti
fyrir 4

200 g sykur, fyrir karamelluna
3 msk. vatn
1 vanillustöng
1 appelsína, börkur notaður
250 ml nýmjólk
250 ml rjómi
3 egg
2 eggjarauður
120 g sykur
2 ½ msk. appelsínu- eða mandarínulíkjör

Setjið sykurinn (200 g) á pönnu og bræðið þar til hann er orðinn ljósbrúnn að lit. Passið að hreyfa pönnuna reglulega og lyfta upp svo sykurinn brenni ekki. Hellið góða botnfylli af karamellunni í lítil eldföst form og setjið til hliðar. Mikilvægt er að karamellan verði ekki of dökk því þá verður bragðið beiskt.

Hitið ofninn í 160°C, blástur. Kljúfið vanillustöngina og skafið fræin úr og setjið í pott ásamt mjólkinni og rjómanum, látið stöngina líka saman við. Raspið börkinn af appelsínunni varlega, passið að taka bara appelsínugula hlutann ekki þann hvíta og látið í pottinn. Hitið að suðu, takið þá af hitanum og látið til hliðar.

Setjið eggin og eggjarauðurnar í skál ásamt sykrinum og þeytið þar til allt er orðið létt og ljóst. Sigtið mjólkurblönduna yfir skálina í nokkrum skömmtum og hrærið vel í á milli, blandið líkjörnum saman við. Hellið blöndunni í formin en fyllið þau samt ekki alveg. Setjið formin í stórt eldfast mót, sjóðið vatn á katlinum og setjið varlega í mótið, vatnið má alls ekki komast í snertingu við blönduna, gott er að nota stóra trekt.

Setjið í ofninn og bakið í u.þ.b. 40 mín. eða þar til miðjan hreyfist ekki þegar eldfasta formið er hrist. Takið úr ofninum og færið síðan formin yfir á grind. Gott að nota töng með gúmmíi á endanum.
Látið kólna alveg og setjið svo í ísskáp í a.m.k. klukkustund en best er að gera þetta kvöldinu áður. Þegar bera á réttinn fram, notið ná beittan lítinn hníf til að stinga með fram brúnunum alveg niður í botn, setjið disk ofan á og hvolfið. Skreytið með sykurskrautinu.

Sykurskraut
100 g sykur
bökunarpappír
sleif

Hitið sykurinn á pönnu og hristið pönnuna reglulega á meðan svo sykurinn brenni ekki, þetta tekur u.þ.b. 10 mínútur. Þegar sykurinn er alveg bráðnaður takið hann þá af hitanum og látið kólna aðeins. Takið skeið og látið sykurinn leka í lítilli bunu á pappírinn, fram og til baka. Mjög auðvelt er að ná karamellunni af pappírnum um leið og hún storknar.
Til að búa til gorm eins og á mynd, þarf karamellan að vera orðin seigfljótandi. Haldið á sleif í annarri hendi öfugt þannig að skaftið sé fyrir framan ykkur og látið karamelluna í skeiðina og látið svo leka taum niður á skaftið og snúið skeiðinni. Takið gorminn varlega af og setjið á bökunarpappírinn. Passið að skrautið má alls ekki vera í raka.

Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

- Advertisement -

Athugasemdir