• Orðrómur

Aspas – eldun, geymsla og fróðleikur

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Aspas er einstaklega bragðgott og skemmtilegt grænmeti sem hentar bæði með kjöti og fiski. Hann er svo góður að ekki þarf að eiga mikið við hann við eldun. Hér eru nokkrir fróleiksmolar um þetta holla grænmeti og geggjuð uppskrift að ofnbökuðum aspas.

 

Aspas eða spergill eins og hann er stundum kallaður er upprunninn við austurhluta Miðjarðarhafsins. Til eru þrjú afbrigði af honum, grænn aspas en hann er algengasta tegundin, hvítur aspas sem er fremur þykkur og einstaklega mjúkur og bragðmildur og fjólublátt afbrigði sem er með svolítið ávaxtakenndu bragði. Aspas var nokkuð algengur meðal Rómverja og Egypta en hann fór ekki að sjást í Frakklandi fyrr en á tímum Lúðvíks fjórtánda sólarkonungs en hann ku hafa verið einstaklega hrifinn af aspas, enda lét hann senda sér hann í stórum stíl. Ferskur aspas fæst nú hérlendis þegar uppskerutími hans er á norðurhveli jarðar, í mars-júní, en ekki eru mörg ár síðan hann fór að fást. Aftur á móti hafa Íslendingar getað keypt þessa dásamlegu afurð niðursoðna í marga áratugi.

Hægt er að bera aspas fram bæði kaldan og heitan. Suðutími hans er misjafn eftir afbrigðum og þykkt en áætla má u.þ.b. 7-15 mínútur í söltu sjóðandi vatni. Þegar aspas er soðinn er neðsti hluti hans tekinn af og gott er að binda hann saman með eldhúsgarni. Ef aspasinn er grófur er ágætt að skræla hann svolítið. Þegar aspas er keyptur veljið hann þá stinnan og litríkan, einnig er gott að reyna að velja aspasinn svipaðan að stærð svo að eldunin verði jöfn. Forðist gulleitan, linan aspas og aldrei kaupa aspas þar sem efsti hlutinn er farinn að blómstra. Aspas geymist í þrjá daga í ísskáp og gott er að vefja honum inn í rakan pappír og setja í rennilásapoka. Hægt er að frysta aspas en þá verður að snöggsjóða hann fyrst (blanchera) í saltvatni og láta hann svo í frystipoka, aspasinn geymist í u.þ.b. níu mánuði í frysti. Aspas er líka hollur, enda var hann notaður sem lækningajurt í árdaga. Hann er ríkur af fólinsýru og stútfullur af C-vítamíni, pótasíum, B6, kopar, járni og sinki.

Ofnbakaður aspas

- Auglýsing -

1 búnt lítill grænn aspas (200 g)
2-3 msk. ólífuolía
3-4 msk. panko-brauðrasp (má nota
venjulegt)
3 msk. rifinn parmesanostur
svartur nýmalaður pipar
salt

Hitið ofninn í 200°C. Snyrtið neðsta hluta aspasins og dreifið á ofnplötu eða í eldfast mót. Dreypið olíu yfir og sáldrið síðan raspinu og ostinum ofan á. Kryddið með pipar og smávegis salti. Bakið í ofninum í u.þ.b. 10-12 mínútur eða þar til raspið er orðið gullið að lit. Berið fram sem forrétt, smárétt eða meðlæti með kjöti eða fiski.

 

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -