2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Ást og uppskera

Ritstjórapistill úr 8. tbl. Gestgjafans

Nú líður senn að einum skemmtilegasta tíma ársins, uppskerutímanum. Vissulega er misjafnt hver uppskeran er eftir löndum. Á meginlandi Evrópu eru það til dæmis epli, perur, plómur og vínber sem bera ávöxt á þessum árstíma. Á Íslandi er uppskerutími berja og grænmetis en ætla má að uppskerutíminn verði fyrr á ferðinni í ár vegna hinnar miklu veðurblíðu sem leikið hefur við landann í sumar. Mikið hefur verið rætt um hlýnun jarðar sem orsakast af útblæstri og mengun. En til er allskonar mengun sem mennirnir valda.

Eitt form þessarar mengunar eru hinir ömurlegu ástarlásar en undanfarin ár hefur það verið í tísku meðal ástfangins fólks að hengja lás á brýr eða grindverk hér og þar í heiminum og henda lyklunum, sem tákn um eilífa ást. Þótt þetta valdi kannski ekki beinni loftmengun þá er sjónmengun að þessu og eyðilegging á mannvirkjum, oft gömlum fallegum brúm sem hafa látið undan þunganum eins og gerðist t.d. í París fyrir nokkrum árum. Við skulum heldur ekki gleyma menguninni sem verður þegar lásarnir eru framleiddir og kolefnissporinu við að flytja þá. Til er önnur leið til að tákna eilífa ást og hún er að setja upp hringa enda táknar hringurinn óendanleika. Ef fólk hefur þörf fyrir annað eða meira þá hvet ég til umhverfisvænni lausna eins og að planta trjám eða rækta grænmeti og bjóða svo bara elskunni sinni í mat. Það er í það minnsta umhverfisvænt og mun frumlegra en að elta lélega og skemmandi tískustrauma.

Þegar ég var í tilhugalífinu fyrir óþægilega mörgum árum síðan þá var ástarlásinn minn máltíð sem ég eldaði fyrir minn tilvonandi. Við höfðum verið að hittast í 3-4 vikur og hann nýbúinn að festa kaup á íbúð, okkur langaði að gera eitthvað eftirminnilegt saman og ég bauð honum að ég myndi elda heima hjá honum. Ég held að ég hafi aldrei verið eins vel tilhöfð og smart við eldamennsku og þá. Ég töfraði fram ungnautakjöt með fáfnisgrassósu sem ég bar fram með kartöflum, salati og góðu frönsku rauðvíni og það var ekki aftur snúið, við eigum silfurbrúðkaup á næsta ári og eldum enn saman. Leiðin að hjarta mannsins er í gegnum magann … en ekki lás.

AUGLÝSING


Í þessu blaði bjuggum við til eins konar uppskeruhandbók úr nýjum og eldri uppskriftum sem koma að gagni þegar nýta á náttúruna til hins ýtrasta. Nokkrir kaflar eru í blaðinu ykkur til hægðarauka og einnig erum við með ýmsan fróðleik um ber og uppskeru. Í þessu blaði ættu allir að geta fundið uppskriftir sem innsigla ástina.

Ekki missa af þessum

Annað áhugavert efni