Ástin endurnýjuð á rómantískum áfangastað

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Falleg náttúra er til þess fallin að auka innri vellíðan fólks. Þess vegna er engin tilviljun að elskendur kjósa oft að ferðast saman og heimsækja staði þar sem hægt er að reika um, njóta fegurðar og samveru. Hér á eftir eru taldir upp nokkrir kyrrlátir en einstaklega fagrir staðir þar sem ástin blómstrar.

 

Giethoorn í Hollandi

Þetta litla þorp er einstaklega fallegt. Ferðamenn hafa sagt það líkast sviðsmynd í ævintýri. Þar, líkt og í Feneyjum, eru skurðir aðalsamgönguleiðirnar og stráþökin á húsunum setja fallegan svip á þau. Fátt er rómantískara en að ganga hönd í hönd yfir eldgamlar trébrýr og reika um notalega göngustíga undir fögrum trjákrónum. Nú eða taka á leigu árabát og róa sjálfur milli staða í borginni. Þarna ríkir kyrrð og friður og engin hætta á að verða fyrir áreiti líkt og í stórborgum.

Hallstätt í Austurríki

Það er eitthvað alveg sérstakt við Hallstätt og flestir finna sterkt fyrir töfrum staðarins um leið og ferjan rennur að bryggjunni. Bærinn er á heimsminjaskrá UNESCO og þar er að finna kirkjur frá tólftu öld, líflegt markaðstorg og fjölmörg notaleg veitingahús þar sem snæða má við tveggja manna borð með einungis kertaljós á milli ykkar. Aðeins um klukkustund tekur að keyra til Hallstätt frá Salzburg og ef menn eru staddir í Vín tekur ferðin þrjá tíma.

Hallstätt í Austurríki

Taormina á Ítalíu 

Sikiley er í raun öll einstaklega rómantísk. Hið formfagra eldfjall Etna gnæfir yfir og hið safírbláa Miðjarðarhaf er allt í kring. En staðsetning Taormina undir klettum og í klettum við litla vík er eitthvað svo draumkennd og notaleg. Eldgamlar rústir gnæfa yfir bænum og notaleg kaffihús er hvarvetna að finna.

Taormina á Ítalíu

Soglio í Sviss

Málarinn Giovanni Segantini var hálfur Ítali og hálfur Svisslendingur. Hann kallaði Soglio hlið Paradísar en flestir ferðamenn eru sammála um að þeir séu einfaldlega komnir inn í sjálfan Edensgarðinn þegar inn í bæinn er komið. Hátt uppi í fjöllum í Bregaglia-dalnum rétt við ítölsku landamærin er umhverfið líkt og flestir sjá fyrir sér við lestur Heiðu bókanna og þarna eru hæðirnar sem lifna við hljóm tónlistarinnar í Sound of Music.

Aveiro í Portúgal

Þetta litríka og bráðskemmtilega þorp er eitt besta dæmi sem þekkist um Art Nouveau-arkitektúr. Þarna eru líka grænir garðar, skurðir og fögur sjávarsýn. Víða eru notalegir staðir til að setjast niður á og taka nesti upp úr körfu og njóta þess að gera ekkert nema tala við ástina sína. Ef menn nenna ekki að bera nesti milli staða eru alls staðar kaffihús þar sem fá má portúgalskt sætabrauð og fyrirtakskaffi. Nú og svo er alltaf rómantískt að deila mat sínum með öðrum.

Bled í Slóveníu

Bled í Slóveníu stendur við samnefnt vatn. Allt umhverfið er kyrrlátt, hlýlegt og hreint út sagt ævintýralega fallegt. Kastalinn þar er frá tólftu öld og stendur hátt uppi á kletti. Hægt er að reika um þorpið eða róa út í eyju í miðju vatnsins en þeir sem ná að ganga inn í kirkjuna þar og hringja bjöllunni munu fá alla sína drauma uppfyllta.

Bled í Slóveníu

 

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Óþægilegt fyrir Róbert

Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, er í snúinni stöðu eftir að Fréttablaðið upplýsti að hann vildi taka slaginn...

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -